miðvikudagur, janúar 11, 2012

PIP og hvernig bregðast skal við

Seint mun ég gleðjast yfir því að konur flykkist undir hnífinn til að stækka brjóst sín eftir tískustraumum — innblásnum af klámvæðingu. Enn síður gleðst ég yfir því að einhverjar þeirra eiga á hættu að iðnaðarsilíkon leki úr brjóstafyllingunum og út í líkama þeirra. Tilhugsunin er skelfileg og hlýtur að valda þeim kvíða og ótta.

Þessvegna tek ég undir með Álfheiði Ingadóttur varðandi það hvernig leysa eigi úr þessu máli.
„Mikilvægast er hins vegar að konur sem fengið hafa PIP-púða hér á Íslandi fái strax aðstoð heilbrigðisyfirvalda til að láta fjarlægja þá – ef þær óska eftir því – sér að kostnaðarlausu. Það er forgangsverkefni að mínu mati. Engin kona ætti að þurfa að ganga deginum lengur en hún sjálf vill með þessa púða. Þeir eru heilsuspillandi og ógn við heilsu hundruða kvenna ef ekki þegar í dag þá á allra næstu árum.“

Er ég þó ekki hlynnt ríkisreddingum á vandamálum sem einkagróðabissness veldur — en hér er um heilsufarsvá að ræða sem bregðast verður við með öðrum hætti en þeim að segja konunum að þær geti sjálfum sér um kennt.

___
Viðbót: Þorgerður E. Sigurðardóttir flutti líka fínan pistil í Víðsjá um þetta efni, sem lesa má hér.

Efnisorð: ,