þriðjudagur, janúar 17, 2012

Karlar sem flokka konur, birta af þeim myndir og dæma

Ein af afleiðingum þess að upp komst um notkun iðnaðarsilíkons í brjóstapúða er sú að karlmenn hafa nú opinskátt skemmt sér við að viðra skoðun sína á brjóstum. Þeir hafa notað öll niðrandi orðin, talað um kosti og galla stórra og smárra, og ýmist dásamað stækkunarmöguleikana eða fordæmt þá fordild kvenna að leggjast undir hnífinn (til að þóknast karlmönnum sem hafa brjóst á heilanum). Og svo hafa þeir legið löngum stundum á netinu til að skoða myndir af brjóstum og birt á bloggum eða við fréttir til að leyfa lesendum að njóta með sér. Í nafni upplýstrar umræðu um skaðsemi iðnaðarsilíkons hafa svo karlmenn sem eru áhugamenn um brjóst þyrpst inná síðurnar til að gefa einkunnir og viðrað skoðun sína á brjóstum. Allir ógurlega glaðir að skoða brjóst og láta vita hvað þeim þyki flottast.

Þetta er auðvitað mikil tilbreyting frá öllum 'hinum' karlmönnunum sem liggja á netinu og skoða kvenmannsskrokka í bútum og gefa þeim einkunn eftir útliti og hvernig þeim hugnist að konur líti út.

Dæmi um niðrandi orðalag má finna hér, og dæmi um brjóstasýningablogg* hér. Af því síðarnefnda eru þessar athugasemdir karla:

„Brjóst : bæta hressa kæta !!“

„stór brjóst er ekkert flottara, lítil og krúttleg brjóst eru oft flottari ...natrual er samt best“

„flott brjóst!!! :o)“

„mér fannst svona annað hvert dæmi sýna bara fullkomlega fallega konu.“

„Orginalið verður alltaf fallegra en eitthvað allt i plati"

„það er fátt fallegra en kona sem er sátt við útlit sitt, rétt eins og hún var sköpuð, með öllum þeim útlistskostum og göllum sem hún hefur, svo lengi sem hún er sátt þá er ég nokkuð sáttur :)“**


Mér finnst bloggfærslan sjálf, sem þessar athugasemdir voru skrifaðar við, jafnt sem ummæli karlanna*** einstaklega klígjuleg og perraleg enda hefur alltaf farið í mig þegar karlmenn taka sér vald til að dæma líkama kvenna.
___
*Ég las ekki textann sem var á milli brjóstamyndanna, langaði ekkert að glápa á brjóstamyndir, og lét mér nægja að skrolla framhjá og niður að textanum þar sem blogghöfundurinn þykist hafa tekið myndirnar saman af manngæsku (en ekki gægjuþörf) einni saman.

** Mér finnst athugasemdir kvenna við þessa bloggfærslu sorglegar en ekki eins klígjulegar og kalla-athugasemdirnar.

*** Þetta eru þó dæmi um „jákvæðar“ athugasemdir þar sem engin niðrandi orð um brjóst eru notuð. Kannski á ég bara að vera þakklát fyrir það og láta ekki á mig fá þegar karlmenn smjatta á útliti kvenna?

Efnisorð: