sunnudagur, febrúar 12, 2012

Rannsóknarblaðamennska Fréttablaðsins er greinilega öll að færast í aukana

Hér mun ég halda áfram þar sem frá var horfið (í viðbót við síðasta pistil) að bera blak af fjölmiðlum. Fjölmiðlamenn hafa verið sakaðir um að sinna ekki nógu vel einstaka málum, leggjast ekki í rannsóknir og í stuttu máli sagt ekki vinna vinnuna sína. Ég get bent á nýlegt dæmi um hið gagnstæða.

Í Fréttablaðinu á föstudaginn var stórfrétt sem ekki færri en tveir blaðamenn (kannski fleiri) voru settir í að sinna. Um er að ræða gríðarlega góða úttekt á ferðavenjukönnun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Annar blaðamaðurinn (ÞJ) kemst að þeirri niðurstöðu að helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu ferðast ekki með strætó, hinn (SHÁ) fullyrðir að þeir ferðist aldrei með strætó. Til þess að lesendur fari ekki að draga hlutleysi blaðamannanna í efa, því þeir túlka greinilega niðurstöðurnar eftir eigin geðþótta, þá er annarri fréttinni komið fyrir á bls. 6 en hinni á næstu opnu, á bls. 8.



Enn sem komið er hefur ekki meira birst um þetta æsispennandi mál, en hugsanlega eru enn fleiri blaðamenn að rannsaka það. Burtséð frá því þá er greinilega ekki öll nótt úti enn um framtíð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi.

Efnisorð: