laugardagur, febrúar 18, 2012

Hatursáróður og verjendur hans

Í dag birtist fínt viðtal við Sólveigu Önnu Bóasdóttur um hatursorðræðu í biblíunni. Hún segir að
„það sem í henni standi sé í ákveðnu félagslegu og menningarlegu samhengi og það verði að hafa í huga. Því sé ekki hægt að nota þau sem siðferðileg viðmið í dag, án gagnrýnnar skoðunar.“

Svo virðist sem hatursáróður Snorra í Betel* hafi þó glatt marga undanfarið. Þá á ég ekki við hommahatara heldur trúleysingja af ýmsu tagi sem fyllst hafa Þórðargleði yfir að Snorri hafi afhjúpað fyrir almenningi hatursfullt viðhorf biblíunnar til samkynhneigðra. Þeir veifa tjáningarfrelsi** eins og mest þeir mega, eingöngu til að koma höggi á kristið fólk, skítt með áhrifin á samkynhneigða(og samkynhneigða í hópi kristinna). Mannkærleikur þeirra er síst meiri en hjá Snorra: þeim er greinilega skítsama um níðingslega aðför að samkynhneigðum.

Vitað er að samkynhneigðir unglingar líða þjáningar í skóla vegna fjandsamlegrar afstöðu umhverfisins til samkynhneigðar.*** Að þurfa að deila skólastofu - sem er vinnustaður barna og þau hafa ekki val um að segja upp störfum — með andstyggilegum kallskúnki sem segir að þau eigi skilið að deyja — það er engum bjóðandi.

Afstaða trúleysisingjanna til hatursáróðurs er heldur ekki boðleg.

__
* Það er auðvitað óskiljanlegt að Snorri í Betel sé barnaskólakennari og furðulegt af skólayfirvöldum að A) ráða hann til starfa, B)grípa ekki í taumana fyrir löngu.
** Enda þótt ég sé yfirlýstur trúleysingi á ég ekkert annað sameiginlegt með þessum trúleysingjum. Ég hef útskýrt afstöðu mína til tjáningarfrelsis hér.
*** Það er víst mjög í tísku að segja að allir hlutir sem hallærislegir þykja séu „hommalegir“ eða „gay“. Ágæt myndasaga í Frb. dagsins sýnir það. Reyndar virðast flestar myndasögur dagsins valdar með sama efni í huga.

Efnisorð: , ,