laugardagur, mars 24, 2012

Endurheimt votlendis í Vatnsmýri

Nú er verið að endurbæta Vatnsmýrina, endurheimta votlendið og búa í haginn fyrir endur og aðra fugla svo þeir geti hreiðrað þar um sig. Ég er reyndar svo tortryggin að það hvarflaði að mér að þetta væri smjörklípa af hálfu Reykjavíkurborgar svo við hættum að agnúast útí Landspítalabyggingarmartröðina, en svo kemur í ljós að það var starfsfólk Norræna hússins sem átti hugmyndina að því að laga Vatnsmýrina í þágu fugla. Þar er greinilega gott fólk.

Um talsvert skeið hefur horft til vandræða með fuglalíf við Tjörnina. Áður verptu þeir í í Vatnsmýrinni en síðustu árin hafa fáir ungar komist á legg.* „Það er löngu tímabært að taka til á svæðinu, hjálpa fuglunum sem lífga svo skemmtilega upp á miðborgina og gera svæðið að raunverulegum griðastað fugla, gróðurs og vatnalífvera,“ segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Norræna húsinu.
Auk þess að tryggja fuglum Tjarnarinnar öruggt varpland stendur til að nota Vatnsmýrina til að „auka áhuga og þekkingu almennings á náttúrusvæðum innan og utan borgarinnar“. Ekki veitir af. Það er reyndar með ólíkindum að „upp úr tjörnunum í Vatnsmýrinni hefur verið mokað mold, grjóti og múrbrotum líklega úr gömlum braggabotnum enda voru eitt sinn öskuhaugar í mýrinni.“

„Það hefur verið farið illa með þetta friðland hér hefur verið lagt uppgreftri úr tjörnum og húsgrunnum og það hefur hækkað yfirborð landsins sem hefur þurrkað mýrina,“ segir Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands.

Þuríður Helga segir að ætlunin sé að gera svæðið að fyrirmynd fyrir endurheimt votlendis. Hún er þeirrar skoðunar að ráða þurfi eftirlitsmann við Tjörnina eins og var hér á árum áður, svokallaðan andapabba.**

„Gangi áformin eftir vonast menn til þess að duggönd, skúfönd, og gargönd, til viðbótar við stokköndina fari að verpa á ný í Vatnsmýrinni. Einnig fleiri fuglar eins og hrossagaukur, stelkur og þúfutittlingur.“

Þetta er nú með því jákvæðara sem ég hef lengi heyrt.

___
* Ein ástæða þess að fáir ungar hafa komist á legg kann að hafa verið að það hefur ekki verið greið leið milli Vatnsmýrarinnar og Tjarnarinnar, en það ku hafa gleymst að setja ræsi undir Hringbrautina nýju þegar hún var lögð hér um árið.
** Eftirlitsmaðurinn var kallaður andapabbi en líklega má allt eins ráða andamömmu. Af hvoru kyninu sem eftirlitsmaðurinn er þá er starfsheitið krúttlegt og skemmtilegt.

Efnisorð: ,