sunnudagur, apríl 15, 2012

Talsmenn ríkjandi ástands

Stundum hef ég velt fyrir mér hvernig útreið ýmsir sögulegir atburðir fengju í umræðunni eins og hún gerist í netheimum facebook og bloggs. Hvaða athugasemdir yrðu settar fram þegar stórmenni sögunnar eða stóratburðir væru ræddir. Hvernig andstaðan myndi birtast.

Hvernig yrði tildæmis talað um réttindabaráttu fólks af afrískum uppruna í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum? Helstu forsvarsmenn þeirrar baráttu, Martin Luther King jr. og Malcolm X voru alls ekki sammála um aðferðir, og eflaust hafa þeir og fylgismenn þeirra fengið að heyra að það væri slæmt fyrir heildarbaráttuna að koma sér ekki saman um leiðir.

Upphrópanir um öfgar yrðu sennilega algengar. Malcolm X og fylgismenn hans fengju stærri skammtinn af skömmunum en þeir sem fylgdu MLK að málum fengju líka gusur enda er það eitt að vilja breyta ríkjandi ástandi, ráðast gegn yfirráðum hvítra, auðvitað stórhættulegar öfgar.

Hvítu, miðaldra karlmennirnir sem greinilega telja sig hafa öllu að tapa væru ekki allir kurteisir þegar þeir settu fram athugasemdir sínar en nokkrir, sem ekki væru orðljótir, skæru sig úr fyrir mikla þrautseigju við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ætli einhver, sem fyndist hann velviljaður baráttu þeirra, myndi skrifa um hvað þeir mættu segja og gera öðruvísi, bara svona af hjálpsemi sinni og sannfæringu að hann viti betur en þeir sem eru svartir sjálfir? Það væri auðvitað mjög rökfastur maður og af og til gæti hann spurt blökkumennina hvort þeir séu ekki alveg að verða sammála sér.

Svo myndi kannski einhver blogga um hve mikil forréttindi svartir hafi í raun og að það sé fáránlegt að tala eitthvað um að þeir hafi verið fluttir nauðugir milli landa til að eyða ævi sinni sem þrælar á ökrum hvíta mannsins; það komi núlifandi hvítum mönnum ekkert við. Þeir svörtu megi vera ánægðir með stöðu sína og eigi ekki að vera að velta sér uppúr fortíðinni, og allt tal um að hörundsdökkt fólk eigi skilið að fá leiðréttingu þeirra mála sem það sjálft setur á oddinn vegna þessarar sögulegu skuldar sé bara yfirskin fyrir að beita hvíta menn misrétti.

Einhver myndi benda á að þó einhver svartur einstaklingur vilji endilega sitja frammi í strætó þá sé fáránlegt að ætlast til að breyta sætaskipan í strætó fyrir því: það vilji allsekki allir svartir menn sitja fremst í strætó. Að skipa þeim að gera það sé gagnstætt eðli þeirra, það séu líka ýmsir kostir í því að sitja aftast.

Þessir hvítu menn og margir aðrir af sama litarhætti væru svo alveg standandi hissa á þrátt fyrir leiðbeiningar og aðfinnslur héldi réttindabarátta svartra áfram sínu striki, þar sem blökkumenn leyfðu sér meira að segja að vera ýmist sammála Martin Luther King jr. eða Malcolm X, væru semsagt ekki allir á sama máli um baráttuaðferðir en lokatakmarkið væri þó hið sama: full réttindi, full virðing og full þátttaka í samfélaginu á eigin forsendum.

Einn af fáum blökkumönnum sem þeir hvítu tækju eitthvað mark á væri bloggari sem við getum kallað Tómas. Hann væri vinsæll meðal hvítra fyrir blogg sitt þar sem hann skrifaði gegn öfgasvörtum og tilhneigingu þeirra til að líta á sig sem fórnarlömb samfélagsins í stað þess að vera bara sáttir við stöðu sína, því margt hefði áunnist. Kannski myndi þessi ötuli svarti talsmaður óbreytts ástands, sem hefur viðhorf svo skyld viðhorfum hvítu karlanna að þeim finnst eins og hann sé einn af þeim, jafnvel frændi þeirra, vera eini svarti maðurinn sem boðaður væri í sjónvarpsviðtal hjá þáttastjórnanda, hvítum karli sem hugnaðist allsekki réttindabarátta blökkumanna, en væri mjög valdamikill fjölmiðlamaður því þáttur hans væri eini sjónvarpsþátturinn sem fjallaði um samtímann á pólitískan hátt. Og þáttastjórnandinn valdamikli myndi leyfa Tómasi að úttala sig um að óbreytt ástand væri best og réttindabarátta svartra tómar öfgar.

En þetta eru auðvitað allt bara ímynduð dæmi. Þetta gæti aldrei gerst núna.

Efnisorð: , ,