fimmtudagur, apríl 05, 2012

Sóley og sveinbarnið

Í athugasemdahalanum við aprílgabb Knúzverja var athyglisverð athugasemd. Það var gamla tuggan um viðhorf Sóleyjar til sonar síns.* Það eru ýmsar útgáfur af þeirri sögu en flestar ganga útá að hún hati karlmenn svo svakalega að hún hafi lagt haturshug á son sinn um leið og hann kom í heiminn.

Sóley hafði setið fyrir svörum í beinni línu hjá DV 8. mars síðastliðinn og þar svaraði hún spurningum um ummæli sín og mörgu öðru sem hún var spurð. Það sem vakti athygli mína var að það spannst engin — alls engin umræða í kjölfarið. Það hafði nefnilega komið í ljós að allar öfgarnar sem Sóley er sökuð um eru engar öfgar. Hér má sjá því sem hún svaraði þegar hún var spurð útí ummælin um soninn.

[Karlkyns spyrjandi] „Nú hefur þér verið legið á hálsi fyrir að elska ekki son þinn. Er það nokkuð rétt?“

Sóley Tómasdóttir: „Nei, ég elska son minn af öllu hjarta. Og ávirðngar um annað eru til marks um hvað fólk er tilbúið til að leggjast lágt í útúrsnúningum til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum.“

[Karlkyns spyrjandi] „Þau ummæli sem höfð voru eftir þér í blaðaviðtali að þú hefðir verið í áfalli þegar þú komst að því að þú hefðir eignast son, voru þau orð tekin úr samhengi?“

Sóley Tómasdóttir: „Já, þar var ég að vísa í þá áskorun sem það er að ala upp dreng í samfélaginu og mér fannst hún erfið þar sem ég ólst bara upp með stelpum.“**


Þrátt fyrir að Sóley sé þarna búin að útskýra mál sitt skrifar Ingi Karl þetta, í fyrsta aprílgabbsþræðinum á DV.

Ingi Karl Sigríðarson: „vill benda á að þessi kona sagði það vonbriði að eignast son í útvarpi!!!!!!!“

Þegar Inga Karli er bent á að hún hafði ekki sagt það segir hann, kurteis og smekklegur að vanda:
„nú jæja hvað sagði hún þá nákvæmlega.... því að ég hlustaði á þetta ágæta útvarpsviðtal á X-inu og ég var ekki með mikið álit á beigluni fyrir en eftir þá hafði ég meiri trú á skít!!!!“

Guðbjörn Gunnarsson er kurteisari í orðavali en greinilega með sömu ranghugmyndirnar um viðhorf Sóleyjar.***



Enda þótt Sóley hafi verið nýbúin að útskýra mál sitt virðist það hafa hafa farið fram hjá þessum karlmönnum (hvernig það hefur farið fram hjá þessum Inga Karli sem sífellt skrifar á DV skil ég ekki) og því endurtaka þeir gömlu tugguna. Vonandi fer þeim samt fækkandi sem berjast með þessum ráðum gegn Sóleyju og baráttumálum hennar.
___
* Það sem Sóley sagði upphaflega í viðtali við DV 5. maí 2010, og hefur síðan verið rangtúlkað á andstyggilegan máta, var þetta: „Ég var mjög lengi að jafna mig á því að eiga strák. Mér finnst það ennþá mjög merkilegt. Hann er ósköp indæll og dásamlegur og ég er ofsalega ánægð með hann, en það er samt skrítið að eiga strák. Fyrst og fremst hef ég lært að það er ekkert hræðilegt við það að eiga strák eins og ég hélt fyrst. Við þroskumst saman og ég hlakka til að sjá hvernig hann verður sem fullorðinn maður þar sem hann kemur úr þessari fjölskyldu.“ Kannski hefði Sóley orðað þetta öðruvísi ef hana hefði órað fyrir hvernig þetta var lagt út á versta veg.

** Viðskiptablaðið tók saman svör Sóleyjar á sanngjarnan máta. En svona ef ske kynni að einhver sé að gúggla viðhorfum Sóleyjar til sonar hennar þá er ágætt að hafa þetta líka hér.

*** Ég finn ekki hjá mér hvar þessi ummæli Guðbjörns birtust en það var 23. mars síðastliðinn.

Efnisorð: