sunnudagur, apríl 08, 2012

Aðgengi unglinga að getnaðarvörnum

Mikil umræða spratt upp í kjölfar þess að velferðarráðherra lagði fram frumvarp um aukið aðgengi unglinga að getnaðarvörnum. Reyndar ekki öllum getnaðarvörnum heldur hinni hormónahlöðnu pillu sem ætlaðar eru kvenkyninu og fría þar með karlmenn frá að taka ábyrgð á getnaðarvörnum.

Umræðan snerist þó minnst um að stelpur sætu uppi með þessa ábyrgð, heldur hafa hjúkrunarfræðingar og læknar deilt um hver hafi betri þekkingu til að skrifa lyfseðla uppá pilluna og við hverja börn vilji helst tala um kynferðismál. Það hefur verið furðulegt að fylgjast með því rifrildi, því engu líkara en mergur málsins gleymist: Alltof margar unglingsstelpur verða barnshafandi með þeim afleiðingum að alltof margar þeirra verða mæður á unglingsaldri og alltof margar fara í fóstureyðingu.

Ég er talsvert andsnúin pillunni (en sé líka kosti hennar) og mér þykir afleitt að börn sem ekki hafa tekið út fullan þroska séu að éta hormónalyf. Þrátt fyrir það þykir mér skiljanlegt að velferðarráðherra hafi fetað þá braut að vilja að aðgengi að pillunni sé auðveldara. Mér hefði þó þótt betra að niðurgreiða smokkinn, sem hefur engar aukaverkanir, og kemur þaraðauki í veg fyrir kynsjúkdómasmit. Þá mætti auka aðgengi að smokkum til muna, t.d. með sjálfssölum eða með því að skólahjúkrunarfræðingar dreifi þeim frítt.

En núna er semsagt komið fram það sjónarmið sem ekki hefur mikið verið haldið á lofti (eða drukknað í stéttaríg lækna og hjúkrunarfræðinga) að pillan sé ekki heppileg og smokkurinn sé málið.

Ómar Sigurvin Gunnarsson, formaður Félags almennra lækna* segir sitt mat að rétta lausnin sé ekki að auka aðgengi að pillunni eða hormónatengdum getnaðarvörnum.
„Við erum náttúrulega að reyna að koma í veg fyrir óæskilegar unglingaþunganir og fóstureyðingar, meðal ungmenna. Við erum líka að reyna að koma í veg fyrir alla þá kynsjúkdóma sem grassera í samfélaginu.“

Hann telur að með bættum forvörnum og betra aðgengi að smokkum sé hægt að slá tvær flugur í einu höggi.

Ég gæti ekki verið meira sammála.

___
* Hvað er annars með að til sé félag almennra lækna? Það er líka til félag heimilislækna. Hvað hafa læknar eiginlega mörg horn sem þeir geta skipt sér í?

Efnisorð: , ,