mánudagur, apríl 23, 2012

Feðraveldi er ekki endilega pabbi þinn heldur kerfi sem hampar körlum og hinu karllega

Feðraveldi er hugtak sem virðist flækjast fyrir mörgum. Ég hef markvisst reynt að forðast það en notað orðið karlveldi í staðinn, enda hefur mér heyrst að sumir líti á feðraveldishugtakið sem einhverskonar áfellisdóm yfir eigin sínum eigin föður, og fara þá í vörn fyrir hann: „Pabbi minn var sko fínn kall og vertu ekkert að tala illa um hann“. En stundum er samt beinlínis hægt að taka feður sem dæmi um hvernig karlveldið er og virkar.*

Ég gat ekki betur heyrt en Þórhildur Þorleifsdóttir gerði það í samtali við Víðsjá þegar hún talaði um Dagleiðina löngu eftir bandaríska leikritaskáldið Eugene O'Neill. Samkvæmt því sem Þórhildur segir er pabbinn í verkinu feðraveldið í hnotskurn en jafnframt er fjölskyldan ekki bara þessi fjölskylda heldur sýnir samfélagið. Að auki segir hún eftirfarandi:

„Pabbinn í verkinu er harðstjóri en það eru allir hættir að hlusta á hann, hann hefur ekki lengur þetta föðurvald. Synirnir fyrirlíta hann, eiginkonan gerir gys að honum og hann skilur ekkert í afhverju hann er staddur á berangri og hefur enga virðingu og ekki neitt. Þannig að hann er bara alveg hamslaus, eins og fluga að slást í ljósakúpulinn, því hann skilur ekkert hvað orðið er um vald hans. Og hann skilur ekki hvað vald hans eyðilagði mikið. Hann skilur ekki að valds hans rústaði fjölskylduna.
[…]
Eugene O'Neill var stærsti leikritahöfundur 20. aldar þangað til að lærisveinarnir fara að sigla í kjölfarið. Tennessee Williams, sem sífellt er að skrifa um þessa fjölskyldu sem lögð er í rúst af þessum föður sem skilur ekkert í kringum sig og heldur að vald hans sé komið frá guði. Og Arthur Miller gerir það sama. Flest leikrita hans fjalla á einhvern hátt um hið eyðileggjandi afl föðurins sem engu eirir. Og ég hef gjarnan kallað Bjart í Sumarhúsum til vitnis, hann er sama tegund. Hann skilur ekki sjálfur að um leið og hann eyðileggur allt í kringum sig í krafti valdsins að þá eyðileggur hann sjálfan sig mest.

Nú, síðan kom Edward Albee og enn við sama heygarðshornið: Hver er hræddur við Virginiu Woolf? Hver er þar hið eyðileggjandi afl, er það ekki faðirinn? Hann er að vísu ekki viðstaddur í leikritinu en hann stjórnar bæði tengdasyninum og dótturinni.
[…]
Það verður ekki framhjá því horft að þessir karlmenn [í leikritunum] eru allir verðugir fulltrúar hins versta í karlveldinu, í feðraveldinu.“

Ég hef ekki séð Dagleiðina löngu en ég man eftir að hafa séð kvikmynd eftir leikgerð Tennessee Williams, Cat on a Hot Tin Roof (Köttur á heitu blikkþaki) þar sem Elizabeth Taylor og Paul Newman léku aðalhlutverk. Þau leika ung hjón, Maggie og Brick, sem eiga í hjónabandsörðugleikum sem stafa meðal annars af því að hann er samkynhneigður (framhjá því er reyndar skautað að mestu leyti í myndinni) og ofan í kaupið drykkfelldur.

Maggie og Brick eru í heimsókn hjá foreldrum hans því pabbinn á stórafmæli og þar eru líka bróðir Bricks og mágkona með sæg af krökkum en ungu hjónunum hefur ekki orðið barna auðið. Pabbi bræðranna, Big Daddy, eins og hann er kallaður, er harðstjóri og allir reyna að þóknast honum. Kallar eins og hann þurfa ekki einu sinni að segja til hvers þeir ætlast af fólki, heldur reyna allir að finna út hvað það er og hegða lífi sínu í samræmi við það. Eitt er þó á hreinu: Synir hans eiga að geta af sér börn til að taka við veldi hans. Og þar eru hjónin ungu í vanda, sérstaklega þó tengdadóttirin Maggie sem gjarnan vill verða við ósk hans, ekki endilega vegna þess að hún þrái að eignast börn (hún talar heldur óvirðulega um börn mágs síns og svilkonu) heldur vegna þess að með því móti er tryggt að þau fái hlutdeild í arfinum. Karlinn er nefnilega sterkefnaður og er lykillinn að fjárhagslegri afkomu næstu kynslóðar (með öðrum orðum: til að öðlast fjárhagslegt öryggi þarf að spila leik þar sem karlveldið setur reglurnar).

Þetta er að mörgu leyti áhugaverð bíómynd og sýnir ágætlega hvernig karlveldið — eða feðraveldið — virkar og er skaðlegt fyrir alla þá sem neyðast til að taka þátt í því.** Það á við um okkur öll því öll samfélög eru gegnsýrð af þessu karlveldi, og sumir karlar (vegna kynhneigðar tildæmis***), þjást ekki síður undan því en konur.****

Kannski að ég skelli mér í leikhús að sjá Dagleiðina löngu. Brot úr Ketti á heitu blikkþaki má sjá hér.
___
* Karlveldið hefur mun fleiri myndir en þær sem hér eru nefndar sem aðallega birtist í stigveldi ýmiskonar þar sem sumt er álitið kvenlegt en annað karlmannlegt og þá er hið karlmannlega ætíð talið merkilegra og verðugra (sem sýnir sig í hvaða störf eru merkileg og hverjir njóta betri launa, hvaða hegðun er æskileg fyrir hvort kynið, í stuttu máli hver má gera hvað og afhverju og hver fær verðlaun og hver skammir). Að auki má nefna ýmsar fyrirbæri eða stofnanir sem styrkja völd karlveldisins og sem karlveldið nærir á móti: trúarbrögð (þ.m.t. talibanar, páfinn og kirkjan), löggjöf (flestra ríkja að einhverju leyti og sumra algerlega), kapítalisminn og kynlífsiðnaðurinn.

** Ashley Judd (sem leikið hefur hlutverk Maggie í Cat on a Hot Tin Roof á svið) útskýrði karlveldið á þennan hátt, en kallaði það feðraveldi uppá ameríska vísu: „Feðraveldið er kerfi sem konur gangast undir rétt eins og karlar. Þetta kerfi setur, meðal annars, hagsmuni karla og drengja ofar líkamlegum heilindum, sjálfsstjórn og sjálfsvirðingu stúlkna og kvenna.“

*** Kári Emil Helgason skrifaði mjög áhugaverðan pistil um einelti sem hann varð fyrir vegna þess að hann hegðaði sér ekki á þann hátt sem staðalmyndir um stráka segja til um, en ádeila hans á karlveldið í því sambandi virtist fara fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum, ef marka má athugasemdahalann þegar greinin var tekin upp og endurbirt á DV.

**** Svo má ekki gleyma því að enda þótt við öll tökum þátt í karlveldinu að einhverju leyti þá er til fólk — feministar — sem berst gegn því, og jafnframt að til eru konur sem vilja ekkert frekar en styðja það. Ég skrifaði langan bálk um styðjandi kvenleika sem lesa má frá byrjun hér.

Efnisorð: , , , , ,