Saga af þremur dómum
Nú í vikunni féllu tveir dómar í kynferðisbrotamálum sem vöktu athygli mína. Í báðum málum voru karlmennirnir dæmdir sekir en það er það eina sem dómarnir, og málin sjálf, eiga sameiginlegt.
Fyrri dómurinn féll yfir manni sem ráðist hafði á konu sem var að pissa á Austurvelli. Að atburðinum voru að sönnu vitni, áverkar voru á konunni og karlinn sem réðist á hana játaði. Allt eru þetta atriði sem auka líkurnar á að mál fari fyrir dóm og hið síðasta, að karlmaðurinn játaði, hefur líklega ráðið úrslitum um að dómur féll á þann veg að hans bíður 18 mánaða fangelsi.
Það sem er athyglisvert er játning hins dæmda, Ólafs Guðmundssonar (gat maðurinn heitið algengara nafni?) sem fæddur er 1981 og hefur starfað sem leigubílstjóri. Hann var að keyra leigubíl þetta kvöld en skemmt bílinn þegar hann bakkaði honum á stólpa í Pósthússtræti. Við það varð hann reiður og þegar hann skömmu síðar sá konu pissa á Austurvelli ákvað hann að „hrekkja hana“ eins og hann segir á einum stað í dómnum, en á öðrum stað, „fá útrás fyrir reiði“. Og það var þá sem hann réðist á konuna. Til að fá útrás fyrir reiði sína.
Enda þótt hér sé ekki um það að ræða að maðurinn hafi þvælst með tittlinginn á sér inn í þessa sögu þá réðist hann á konuna með þeim tilgangi að reka lúkuna upp í kynfæri hennar. Þar sem kynferðisárás sem á sér stað um endaþarm telst nauðgun er hann því sakfelldur fyrir nauðgun. En maðurinn þurfti ekki tittling til, hann hafði lengi haft óra um þvaglát kvenna og þessvegna varð þessi árásaraðferð fyrir valinu í stað þess að stofna til slagsmála við karlmann og fá þannig útrás fyrir reiði sína.
Hvar skyldi Ólafur helst hafa ræktað þessa óra sína um þvaglát kvenna? Jú, hann hefur verið búinn að dunda sér mikið við að glápa á klámmyndir þar sem konur pissa og þannig æst uppí sér löngun (hvort sem hún var til staðar eða varð til við áhorfið) og þarna náði hann að slá tvær flugur í einu höggi. Svona eins og karlmenn gera þegar þeir a) nauðga konum, eða b) kaupa sér aðgang að konu til að fá útrás fyrir kynóra sína (og reiði). Það er gott að Ólafur fékk dóm fyrir nauðgun, það er gott að það er upplýst um tenginguna milli klámáhorfs og athafna.* Jafnframt er gott að fá það staðfest að karlmenn nauðga ekki konum vegna þess að þeir verði yfirkomnir af greddu í návist kvenna, heldur eru þeir að fá útrás á konum þegar þeir ráðast á þær.
Hitt dómsmálið er skammarlega vægur dómur yfir barnaníðingi. Þar fær karlmaður með barnagirnd afar vægan dóm enda þótt hann hafi þegar níðst á einu barni og hafi orðið uppvís að því að vera með þúsundir klámmynda af börnum í tölvunni — og játar að hafa verið forfallinn barnaklámmyndaáhorfandi frá því að hann var 13 ára.** Barnaníðingurinn, sem ekki bara hefur níðst á barni sem honum var treyst fyrir, heldur hefur um árabil horft á aðra níðast á börnum, sér til skemmtunar, fær vægan dóm. Ástæðan er sögð vera vegna þess að hann er misþroska og að hann sér ægilega eftir öllu saman (lesist: að komst upp um að hann svo að honum verður ekki framar treyst til að passa börn). Þessi maður er auðvitað gangandi tímasprengja, um það ber klámmyndasafn hans vitni. Það er bara slysni að hann var gripinn við ekki grófara brot en raun ber vitni.
Svo virðist sem dómsvaldið hafi ekki nægilegar heimildir til að dæma menn eftir þeim vísbendingum sem fyrir liggja um hugarheim þeirra og hegðunarmynstur. Barnaníðingurinn og barnaklámmyndasafnarinn ætti að fá langvarandi sálfræðimeðferð og/eða vera lokaður inni mjög lengi. Það að honum sé brugðið og geri þetta „örugglega ekki aftur“ er ekki nóg. Hann er hættulegur. Vonandi þyngir Hæstiréttur dóminn yfir honum.
Maðurinn í fyrra tilvikinu er auðvitað líka hættulegur. Hann hefur ekki einu sinni ölvun eða misþroska sér til afsökunar, hann var bara reiður og ákvað að hefna sín á næstu konu. Og ekki þarf hann síður sálfræðimeðferð en hinn.
Ég gaf til kynna að ég ætlaði að fjalla um tvö mál sem lyktaði með því að hættulegir menn fengu dóm (þó of vægir væru), en það var bara í þessari viku. Í síðustu viku féll líka dómur í Hæstarétti, sýknudómurinn yfir manninum sem þrætti bara nógu mikið. Hann fékk engan dóm fyrir að nauðga konu sem lá hálfdauð og gat enga björg sér veitt. Mikið karlmenni sá kappi og fullkomnar draum margra um hvernig réttarfarið eigi að virka fyrir karlmenn.
___
* Hvernig er það annars, er það bara í barnaníðingsmálum sem lögregla skoðar tölvu karlmanna sem sakaðir eru um kynferðisbrot? Ef alltaf væru skoðaðar tölvur í öllum kynferðisbrotamálum fengist kannski raunsannari mynd af orsakatengslum milli kláms og nauðgana (mér er ekki til efs að þær niðurstöður yrðu í eina átt).
** Þarna sjá allir orsakasamhengið milli klámáhorfs og þess að láta til skarar skríða.
<< Home