sunnudagur, maí 06, 2012

Megrunarlausi dagurinn 2012

Í dag er megrunardagurinn og af því tilefni er komin upp þessi skemmtilega myndasíða með fólki sem er hlynnt hverskonar líkamsvirðingu (það þarf að smella á myndirnar til að sjá skilaboðin frá hverri og einni manneskju). Þarna má meðal annarra sjá knúzaða hlaupagarpa, aldna þuli og velskrifandi blaðakonur. Frábært að sjá hve margt fólk hefur lagt góðu málefni lið.

Að aðhyllast líkamsvirðingu er meira en bara að hætta í megrun. Það er að samþykkja fjölbreytileika líkamsvaxtar, frá mjóu fólki til feita fólksins — án þess þó að aðhyllast átraskanir. Það er að hafna útlitsdýrkun. Það er að samþykkja öldrun líkamans, hvort sem hún birtist í hrukkum, gráum hárum, hármissi, breyttum líkamsvexti, minni viðbragðsflýti eða minnkandi heyrn. Það er að líta ekki á hárvöxt á líkamanum með hryllingi. Það er að líta ekki á það sem áfall að fatlaður einstaklingur fæðist. Það er að líta á líkama sem ber þess merki að hafa gengið með barn með velþóknun og án þess að vilja troða í hann silíkoni. Það er að dást að eigin líkama, útliti hans og getu, og leyfa engum að tala illa um hann — og tala ekki illa um líkama annarra. Það er að samþykkja útlit fólks sem fæðst hefur annarstaðar á jörðinni. Það er að gagnrýna staðalímyndir sem kveða á um hið eina rétta útlit, hinn eina rétta aldur, og hinn eina rétta húðlit. Það er að vilja heilbrigði umfram kílótölur. Það er að vera sæl í eigin skinni.

Efnisorð: , , ,