1. maí 2012
Það rifjaðist harkalega upp fyrir okkur árið 2008 að til væri fyrirbæri sem heitir kreppa. Okkur rámaði reyndar í Kreppuna miklu en héldum að við værum ónæm fyrir slíkum manngerðum hamförum, enda höfðum við úrval manna í viðskiptalífinu sem ekkert gátu gert rangt. Kreppan sem átti upptök sín í Bandaríkjunum árið 1929 var líka skipuð úrvals mönnum (þó krosseignatengslin þar hafi varla náð sama flækjustigi og hér og ekki höfðu þeir Excel eða Tortóla) en þar á ofan bættist að þurrkar í Mið- og Suðvesturríkjunum gerðu ekki bara út um uppskeru þúsunda bænda heldur fauk jarðvegurinn út í buskann. Þegar bændurnir gátu ekki greitt af lánunum sem þeir höfðu tekið til að kaupa jarðirnar, tól og tæki, eða til að framfleyta sér, þá hirtu bankarnir jarðirnar af þeim og ráku burt og tóku landið til stórreksturs.
Mikill fjöldi manna átti sér því engan samastað en bjargræðið virtist handan hornsins, í Kaliforníu vantaði fólk í vinnu. Harðduglegir bændur seldu skepnurnar og stóran hluta búslóðarinnar, hrúgaði því nauðsynlegasta á bílskrjóð og hélt til fyrirheitna landsins þar sem næga vinnu var að fá fyrir vinnufúsar hendur. Eða það héldu þeir.
Gallinn við vinnuna sem boðin var í Kaliforníu var sú að það var ekki vinna allt árið með föstum tekjum heldur lauk henni þegar búið var að tína ávextina eða baðmullina á hverjum jarðskika fyrir sig; svo var hægt að fara á aðrar jarðir og vinna við uppskeruna þar þangað til henni var lokið. Meðan á uppskerutíma stóð (vissulega er veður gott í Kaliforníu en þó er uppskera árstíðabundin) þurfti fjölda manns í vinnu en eftir það var fólkið jafn atvinnulaust og áður. Það var heldur ekki mikið uppúr þessari ákvæðisvinnu að hafa því að auglýsingarnar um að vinnu væri að fá í Kaliforníu bárust víða um Bandaríkin og í stað þeirra hundruða eða þúsunda sem þurfti í vinnu flykktist fólk í þúsundatali; talið er að 200 þúsund manns hafi mætt með allt sitt hafurtask, flestir á þeim forsendum að þeir væru komnir til að vera og gætu komið undir sig fótunum að nýju.
Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck segir frá þessu fólki og þá sérstaklega Joad fjölskyldunni (Sjód fjölskyldunni eins og hún heitir í þýðingu Stefáns Bjarman) sem flæmd er af landi sínu og leitar betra lífs í Kaliforníu. Draumar um hús og betri tíð verða þó að martröð þegar þau hrekjast milli tjaldbúða og vinna erfiðisvinnu á ökrum þar sem kaupið verður sífellt lægra eftir því sem fleiri bjóða fram starfskrafta sína. Tommi, elsti sonurinn, hittir í tjaldbúðunum menn sem ekki vinna á ökrunum heldur hafa fundið vinnu hjá bónda og bjóða nú Tomma að vinna þar með sér.
Rauðliðarnir eru menn sem krefjast betri kjara fyrir verkamenn og samninga sem ekki er hægt að svíkja. Þeir eru menn sem hvetja verkamenn til að ganga í verkalýðsfélög eða stofna þau þegar svo ber undir. Verkalýðsfélög á Vesturlöndum, t.a.m. hér á landi (en mun síður í Bandaríkjunum), náðu stórkostlegum árangri (sem kostaði miklar fórnir) á síðustu öld og uppskeran er hóflegur vinnutími, veikindaréttur, atvinnuleysisbætur og orlofsréttur, svo fátt sé talið.
Á síðustu áratugum góðæris og einstaklingshyggju var grafið undan verkalýðsfélögum hér sem annarstaðar og þau breyttust í sumarbústaðaleigur. Verra var þó að þau boðuðu að kjarasamningar væru úreltir og nú ætti hver og einn að semja sjálfur um sín laun. Augljóst er á öllu hverjir græddu mest á því (bankastjórar) og hverjir minnst (láglaunastéttir og konur).
Verkalýðsfélög þurfa að hysja upp um sig, en brýnasta verkefnið er ekki að bylta ríkisstjórninni, heldur að andæfa ofurvaldi skammstöfunarfélaga sem hafa ekki hag almennings í huga, heldur fjármagns sem svífst einskis nú sem endranær.
Mikill fjöldi manna átti sér því engan samastað en bjargræðið virtist handan hornsins, í Kaliforníu vantaði fólk í vinnu. Harðduglegir bændur seldu skepnurnar og stóran hluta búslóðarinnar, hrúgaði því nauðsynlegasta á bílskrjóð og hélt til fyrirheitna landsins þar sem næga vinnu var að fá fyrir vinnufúsar hendur. Eða það héldu þeir.
Gallinn við vinnuna sem boðin var í Kaliforníu var sú að það var ekki vinna allt árið með föstum tekjum heldur lauk henni þegar búið var að tína ávextina eða baðmullina á hverjum jarðskika fyrir sig; svo var hægt að fara á aðrar jarðir og vinna við uppskeruna þar þangað til henni var lokið. Meðan á uppskerutíma stóð (vissulega er veður gott í Kaliforníu en þó er uppskera árstíðabundin) þurfti fjölda manns í vinnu en eftir það var fólkið jafn atvinnulaust og áður. Það var heldur ekki mikið uppúr þessari ákvæðisvinnu að hafa því að auglýsingarnar um að vinnu væri að fá í Kaliforníu bárust víða um Bandaríkin og í stað þeirra hundruða eða þúsunda sem þurfti í vinnu flykktist fólk í þúsundatali; talið er að 200 þúsund manns hafi mætt með allt sitt hafurtask, flestir á þeim forsendum að þeir væru komnir til að vera og gætu komið undir sig fótunum að nýju.
Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck segir frá þessu fólki og þá sérstaklega Joad fjölskyldunni (Sjód fjölskyldunni eins og hún heitir í þýðingu Stefáns Bjarman) sem flæmd er af landi sínu og leitar betra lífs í Kaliforníu. Draumar um hús og betri tíð verða þó að martröð þegar þau hrekjast milli tjaldbúða og vinna erfiðisvinnu á ökrum þar sem kaupið verður sífellt lægra eftir því sem fleiri bjóða fram starfskrafta sína. Tommi, elsti sonurinn, hittir í tjaldbúðunum menn sem ekki vinna á ökrunum heldur hafa fundið vinnu hjá bónda og bjóða nú Tomma að vinna þar með sér.
Tommi sagði: „Ég skal segja ykkur, áður en við fórum að heiman, þá heyrðum við að það væri nóg vinna hér. Við sáum auglýsingaskjöl þar sem fólk var eggjað á að flytja vestur.“
„Jú, jú,“ sagði Timmoþý. „Við sáum þau líka. En sannleikurinn er að hér er mjög lítið um vinnu. Og kaupir hrapar stöðugt. Ég er orðinn dauðþreyttur á að brjóta heilann um hvernig við fáum fyrir næsta málsverði.“
„En þið hafið vinnu núna,“ andæfði Tommi.
„Já, en það stendur ekki lengi. Við erum að vinna hjá ágætis manni. Hann á litla jörð hérna rétt hjá, og vinnur sjálfur með okkur. En því er nú andskotans verr, vinnan er búin áður en varir.“
Tommi sagði: „Því í fjandanum eruð þá að reyna að koma mér að? Það gerir vinnuna ennþá styttri fyrir ykkur. Hvers vegna ættuð þið að vera að skera ykkur á háls fyrir aðra?“
Timmoþý hristi höfuðuð hálf skömmustulega. „Ég veit það varla sjálfur. Af tómum asnaskap, býst ég við. Við vorum búnir að ætla okkur að kaupa nýja hatta til að fullkomna klæðnaðinn. Það verður nú líka að bíða betri tíma. Þarna er staðurinn, rétt til hægri handar við veginn. Við fáum þrjátíu sent á tímann. Allra skemmtilegasta verk líka, og húsbóndinn er ágætis maður.“
Þeir beygðu út af þjóðveginum og gengu niður malborinn stíg, er lá gegnum lítinn trjágarð, og á bak við garðinn komu þeir að litlu, hvítu íbúðarhúsi, með nokkur hávaxin linditré til skjóls gegn vindáttinni, og hlöðu og gripahús til hliðar; bak við hlöðuna tók við víngarður og baðmullarakur. Um leið og þeir gengu fram hjá húsinu heyrðist hurð skella, og þrekvaxinn, sólbrenndur maður kom út um bakdyrnar. Hann hafði sólhjálm úr pappa á höfði, og bretti upp ermarnar á skyrtunni á leiðinni yfir hlaðið. Þungar, sólsviðnar augnabrúnir hans voru hnyklaðar í reiðilega garða, og kinnarnar voru dökkrauðar eins og nýslátrað kjöt.
„Góðann daginn, herra Tomson,“ sagði Timmoþý.
„Daginn,“ ansaði hinn öngulega.
Timmoþý sagði: „Þetta hér er Tommi Sjód. Okkur var að detta í hug hvort þér munduð geta bætt honum á?“
Tomson ýgldi sig framan í Tomma. Og svo hló hann stutt og snöggt, en augnabrúnir hans voru ennþá hnyklaðar. „Jú, blessaðir verið þið! Ég skal bæta honum á. Því ekki það. Komið þið bara með fleiri. Kannski bæti ég hundrað mönnum á.“
„Við hugsuðum bara sem svo - - “ byrjaði Timmoþý afsakandi.
Tomson greip fram í fyrir honum. „Já, ég hef líka verið að hugsa.“ Hann sneri sér snögglega við og leit beint framan í þá. „Það er dálítið, sem ég þarf að segja ykkur. Þið hafið fengið þrjátíu sent á tímann hjá mér hingað til— er það ekki rétt?“
„Jú, herra Tomson, það er alveg rétt, en - - “
„Og ég hef fengið fyllilega þrjátíu senta virði af vinnu hjá ykkur.“ Hann læsti hörðum krumlunum saman, svo það brakaði í liðamótunum.
„Við höfum reynt að vinna eins vel og við höfum getað.“
„Jæja, djöfullinn í heitsteiktu helvíti hafi það, frá í dag fáið þið tuttugu og fimm sent á tímann, og nú ráðið þið hvað þið gerið.“ Eirrauðar kinnar hans dökknuðu af reiði.
Timmoþý sagði: „En við höfum unnið fyrir kaupinu okkar. Það hafið þér sjálfur sagt.“
„Ég veit það. En það lítur ekki út fyrir að ég hafi leyfi til að ráða mér sjálfur fólk lengur.“ Hann kingdi með erfiðismunum. „Sjáið þið til,“ sagði hann. „Ég á sextíu og fimm ekrur lands hérna. Hafið þið nokkurn tíma heyrt getið um Landbúnaðarfélagið?“
„Já, auðvitað.“
„Jæja, ég er meðlimur í því. Við héldum fund í gærkvöldi. En vitð þið hver ræður öllu í Landbúnaðarfélaginu? Ég skal segja ykkur það. Það er Vesturlandsbankinn. Hann á meirihlutann af dalnum, og það sem hann ekki á hefur hann að veði fyrir lánum. Svo að í gærkvöldi sagði umboðsmaður bankans við mig: ,Mér er sagt að þú borgir þrjátíu sent á klukkutímann. Það er ráðlegra fyrir þig að lækka það niður í tuttugu og fimm sent,’ sagði hann. Ég sagði: ,Ég hef afbragðs verkamenn. Þeir eru fullkomlega þrjátíu senta virði.’ Og hann segir ,Það er ekki það,’ segir hann. ,Tímakaupið er tuttugu og fimm sent núna, og ef þú borgar þrjátíu, kemur það bara óeirðum af stað. Og meðal annarra orða,’ segir hann, ,þarftu ekki að fá þessa venjulegu upphæð að láni hjá okkur út á uppskeruna í haust’?“ Tomson þagnaði. Hann andaði þungt gegnum munninn. „Þið sjáið hvernig það er? Kaupið er tuttugu og fimm sent — við því er ekkert að gera.“
„Við höfum unnið ykkur vel,“ sagði Timmoþý ráðaleysislega.
„Hefur ykkur ekki skilist það ennþá? Bankinn hefur tvö þúsund verkamenn í þjónustu sinni, ég aðeins þrjá. Ég þarf að fá rekstrarlán hjá bankanum. Ef þið sjáið einhverja færa leið, þá veit hamingjan að ég er reiðubúinn að nota mér hana. Þeir hafa steinbítstak á mér.“
Timmoþý hristi höfuðið. „Ég veit ekki hvað segja skal.“
„Bíðið þið augnablik.“ Tomson gekk í skyndi heim til hússinns. Hurðin skall aftur á eftir honum. Eftir örstutta stund kom hann til baka með dagblað í hendinni. „Hafið þið séð þetta? Bíðið þið, ég skal lesa það fyrir ykkur:
Borgarar brenna Húvervillhverfi,
í réttlátri reiði yfir æsingastarfsemi rauðliða.
Í gærkvöldi réðist hópur borgara inn í Húvervillhverfi hér í nágrenninu, þar sem rauðliðar hafa haldið uppi harðvítugum æsingaáróðri, brenndi tjöldin og skúrana, og skipaði rauðliðum að hafa sig á brott úr héraðinu.““
Tommi byrjaði: „En ég var sjálfur - -“ og svo lokaði hann munninum og þagnaði.
Tomson braut blaðið vandlega saman og stakk því í vasa sinn. Hann var nú búinn að ná valdi á skapsmunum sínum aftur. Hann sagði hljóðlega: „Þessir menn voru útsendarar Landbúnaðarfélagsins. En ef það fréttist, að ég hafi ljóstrað því upp, þá megið þið reiða ykkur á, að ég á ekki jörðina mína lengur um næstu áramót.“
„Ég veit ekki hvað segja skal,“ sagði Timmoþý aftur. „Ég get náttúrlega skilað að þeir hafi orðið reiðir, ef rauðliðar hafa varið með uppreisnaræsingar þar.“
Tomson sagði: „Ég er búinn að fylgjast með þessu í langan tíma. Það gýs ævinlega upp orðrómur um áróðursstarfsemi rauðliða rétt áður en kaup er lækkað. Ævinlega. Djöfullinn hafi það allt, ég er bundinn á höndum og fótum. Jæja, hvað ætlið þið að að gera? Tuttugu og fimm sent á tímann?“
Timmoþý leit niður. „Ég geng að því.“
Tommi sagði: „Auðvitað geng ég að því. Þetta er hreinasta hundaheppni fyrir mig.“
Tomson dró rúðóttan klút upp úr rassvasa sínum og þurrkaði sér um munn og höku. „Ég veit ekki hve lengi þetta getur gengið svona. Ég get ekki skilið hvernig þið farið að fæða fjölskyldu á þessu kaupi.“
„Við getum það svo lengi sem við höfum vinnu,“ sagði Vilkí. „Það eru atvinnuleysistímabilin inn á milli, sem alveg fara með okkur.“
Tomson leit á úrið. „Jæja, kannski að við förum og gröfum skurðspotta.“
[Úr 22. kafla]
Rauðliðarnir eru menn sem krefjast betri kjara fyrir verkamenn og samninga sem ekki er hægt að svíkja. Þeir eru menn sem hvetja verkamenn til að ganga í verkalýðsfélög eða stofna þau þegar svo ber undir. Verkalýðsfélög á Vesturlöndum, t.a.m. hér á landi (en mun síður í Bandaríkjunum), náðu stórkostlegum árangri (sem kostaði miklar fórnir) á síðustu öld og uppskeran er hóflegur vinnutími, veikindaréttur, atvinnuleysisbætur og orlofsréttur, svo fátt sé talið.
Á síðustu áratugum góðæris og einstaklingshyggju var grafið undan verkalýðsfélögum hér sem annarstaðar og þau breyttust í sumarbústaðaleigur. Verra var þó að þau boðuðu að kjarasamningar væru úreltir og nú ætti hver og einn að semja sjálfur um sín laun. Augljóst er á öllu hverjir græddu mest á því (bankastjórar) og hverjir minnst (láglaunastéttir og konur).
Verkalýðsfélög þurfa að hysja upp um sig, en brýnasta verkefnið er ekki að bylta ríkisstjórninni, heldur að andæfa ofurvaldi skammstöfunarfélaga sem hafa ekki hag almennings í huga, heldur fjármagns sem svífst einskis nú sem endranær.
Efnisorð: Verkalýður
<< Home