laugardagur, maí 12, 2012

Álfur vikunnar

Það þarf ekki að hanga inná Flick my life til að finna skemmtilegheit. Það var tildæmis bráðfyndið að lesa grein sem birtist nú í vikunni frá áfengisframleiðanda (Unnsteini Jónssyni verksmiðjustjóra Vífilfells). Þar fer hann mikinn vegna þess að innanríkisráðherra vill herða bann gegn áfengisauglýsingum (og segir að fái Ögmundur að ráða muni störfum fækka, einsog það hljóti að vera markmiðið), en það hefur ekki farið fram hjá neinum að um árabil hafa verið birtar bjórauglýsingar undir því yfirskini að um 'léttöl' sé að ræða og bannið þannig virt að vettugi. Það kallar áfengisframleiðandinn að fá að „minnast á vörumerki sín“.
Nú á semsagt að útiloka þann möguleika, láta áfengisauglýsinga- bannið standa. Þá skrifar áfengisframleiðandinn þetta:
„Almenn skynsemi mælir með því að samkeppni framleiðenda um hylli neytenda haldi áfram, enda skaðar hún engan.“
Skaðar engan.
Greinin birtist í þeirri viku sem SÁÁ selur Álfinn. Að þessu sinni er álfurinn seldur til styrktar unglinga- og fjölskyldustarfi SÁÁ. Það hefur lengi verið ljóst „að þegar einn fjölskyldumeðlimur verður áfengis- eða vímuefnasjúkur þá dregur það niður lífsgæði annarra í fjölskyldunni og hefur áhrif á heilsu þeirra.“
Skaðar engan.
Þetta bara hlýtur að hafa átt að vera fyndið.

Efnisorð: ,