Láki jarðálfur á þingi
Ég sé að Jenný Anna og Illugi Jökulsson deila með mér ánægju með pistil Margrétar Tryggvadóttur um samstarfsfólk hennar á alþingi „sem vaknar á hverjum morgni eins og Láki jarðálfur og reynir að finna nýjar leiðir til að vera vont, til þess að skemma og eyðileggja.“ Ánægja Margrétar með vinnufélagana er skiljanlega lítil.
Stjórnarandstaðan stundar nú „tröllslegt málþóf“ eins og Illugi orðar það í því eina skyni að skemma og eyðileggja fyrir ríkisstjórninni sem er nú (loksins) að leggja fram stór mál á borð við kvótakerfið. Þar hefði farið betur að sleppa því að koma á móts við sérgæsluliðið í LÍÚ sem hrópar um helför enda þótt við hin sjáum ekki betur en þeir sem þegar hafa grætt gríðarlega á kvótakerfinu hafi forgang um að halda því áfram næstu 20 árin. Málþófið á auðvitað líka að koma í veg fyrir öll hin málin sem lögð eru fyrir, hvort sem þau eru sárasaklaus eins og endurskipulagning ráðuneyta eða brýnni mál, allt skal skemmt og eyðilagt.
Reyndar sýna myndirnar einna best hvað við er að eiga í kvótamálinu annarsvegar og svo almennt (málþófið) á þinginu hinsvegar. En fyrir þá sem ekki vita þá er mikill kostur að hafa þessa ríkisstjórn (þó kvótamálið sé ekki hennar besta útspil), hún hefur margt gott gert. Og sannarlega er betra að hafa vinstri ríkisstjórn við stjórn, eins og Torfi H Tulinius bendir á (og Jóhann Hauksson birtir í læsilegra formi) og tekur þar með undir með Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra, því það skiptir máli hverjir stjórna.
En mikið skil ég Margréti að langa ekki í vinnuna.
Efnisorð: pólitík
<< Home