laugardagur, maí 26, 2012

Miðlun menningarefnis á gervihnattaöld

Þegar margir aðilar leggjast á eitt til að miðla menningarefni, ber að þakka það og virða. Því miður hefur mér þó láðst að þakka druslubókadömunum, sem skrifað hafa bókablogg árum saman, en geri það hér með. Reyndar er óskiljanlegt að ég skuli aldrei hafa á þær minnst áður, eins og mér finnst Druslubækur og doðrantar fín síða. Þar er fjallað um reyfara og bókmenntir, barnabækur, fræðibækur, matreiðslubækur og prjónabækur, svo fátt eitt sé nefnt, og hafa druslubókadömurnar allar gott lag á að gera efnið áhugavert, jafnvel fyndið (þó þær séu örugglega feministar).

Umfjöllun þeirra um bókabúðir og bækur á gististöðum (sumabústöðum, hótelum, gistiheimilum, íbúðum sem teknar eru á leigu) er áhugaverð og vekur örugglega fleiri lesendur en mig til meðvitundar um bækur í umhverfi okkar, hvaða bækur fólk kýs að lesa í fríum og deila með öðrum, hvernig bókunum er stillt upp og hvaða áhrif það hefur á upplifun þeirra sem gista staðinn.

Mig hefur oft dauðlangað að lesa bækur sem druslubókadömur fjalla um (nema prjónabækur, það er bara bilun) og finnst stórskemmtilegt að bera þeirra skoðanir saman við mínar þegar ég hef lesið bók sem er til umfjöllunar. Ekki skaðar að lesendur druslubókasíðunnar eru duglegir að skrifa í athugasemdakerfið og koma þar einatt skemmtilegar athugasemdir og ábendingar um enn fleiri áhugaverðar bækur. Þetta er einhver best heppnaða og langlífasta bloggsíða um menningarefni sem ég veit um hér á landi.

Druslubækur og doðrantar er uppáhalds.

Efnisorð: , ,