fimmtudagur, júní 14, 2012

Þjáningarfull hrottameðferð eldisdýra varin í lögum

Það er fín grein í blaðinu í dag um dýraverndunarlögin sem ég fjallaði um í síðasta pistli. Í greininni segir Óskar H. Valtýsson neytandi og félagi í Dýraverndarsabandi Íslands að „ráðherra málaflokksins ásamt ráðgefandi nefnd, að hluta til skipaðri dýralæknum, hefur látið undan þrýstingi hagsmunaaðila um að fá að halda deyfingarlausa hrottaskapnum til streitu.“ Ég birti megnið af greininni hér en stytti eftir eigin hentugleika.

Óskar H. Valtýsson skrifar:
„Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun gildandi laga um dýravernd. Áhugasamir um bætta og siðlega meðferð dýra, ekki síst eldisdýra, hafa gert sér vonir um að ný og endurskoðuð lög bönnuðu alfarið kvalafulla og hrottafengna meðferð þeirra en nú er starfsmönnum eldisbúa heimilt að framkvæma þjáningarfullar aðgerðir á eldisdýrum án deyfingar eða annarrar kvalastillandi meðferðar.

Rökin fyrir þessu siðlausa háttalagi eru að fram að tilteknum aldri sé tilfinninga- og sársaukaskyn dýranna það vanþroskað að slíkar aðgerðir valdi þeim ekki ama svo sennilega sem það kann að hljóma. Nú má t.d. klippa í sundur tennur og hala grísa deyfingarlaust og gelda unggelti á sama máta allt að viku gamla. Þessi mörk gætu allt eins verið tvær vikur eða fimm, jafnvel þrír mánuðir, allt eftir því hvað hentaði eldisiðnaðinum.

Þeir sem purkunarlaust réttlæta siðlausa og ólíðandi meðferð dýra halda því iðulega fram að þeir sem andmæli henni þekki ekki „lífsins gang". Það er nokkuð til í því enda leggur iðnaðurinn mikla áherslu á að sannleikanum um skelfilegan aðbúnað og meðferð eldisdýra sé haldið frá almenningi. Verksmiðjubúin, gluggalaus óskapnaðurinn, eru falin bak við grjótgarða og kyrfilega lokuð óviðkomandi. Myndatökur óheimilar.

Það ætti hverjum þeim sem á horfði að vera ljóst hve skefjalaus illmennska, grimmd og heimska er að fara svona með bjargarlausa vesalingana og réttlæta það með því að verið sé að taka tillit til bragðsmekks neytenda og aðhalds í kostnaði. Það vakna óneitanlega upp spurningar varðandi það hvort mannskepnunni sé ekkert heilagt og hvort bregða megi mælistiku arðsemi á hvaðeina en láta mannúð og manngildi reka á reiðanum.

Þannig er í lögum sem veita eiga dýrum vernd gegn illri meðferð veitt heimild til að beita þau óbærilegu kvalræði til þess eins að þjóna arðsemissjónarmiðum framleiðenda og neytenda.

Að misþyrma dýrum á skipulegan hátt í ágóðaskyni og vegna þess að þau geta ekki varið sig eða eiga sér ekki málsvara, er lítilmannlegt og siðlaust og ekki samboðið íslensku samfélagi. Það er því nöturleg tilhugsun að í allsnægtasamfélaginu verði þjáningarfull hrottameðferð eldisdýra varin í lögum til frambúðar. Það að stjórnmálamenn sem um véla láti sér lynda að bjargarlaus dýr, sem alfarið eru háð náð og miskunn þeirra sem með þau fara, séu kvalin og pínd að þarflausu, einungis til að þjóna hagsmunum framleiðenda og neytenda er ósvinna.

Það er að sönnu tilefni til að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands rannsaki þau samfélagslegu viðhorf sem liggja að baki ákvörðunum eins og þeim að verja með lögum níðingsskap gagnvart varnarlausum dýrum sem eiga sér enga undankomuleið því þau eru svo ólánssöm að verða manninum samferða á skammri lífsleið.“

Félagsvísindastofunun kæmist eflaust að þeirri skoðun að mannskepnan er grimm. Þó er til sú skoðun að maðurinn sé siðferðisvera. Á þeim forsendum, að við séum siðferðisverur, reynum við að halda aftur af grimmd okkar. Þeir sem ekki halda aftur af græðginni hafa verið úthrópaðir, réttilega, en því er ekki lagður steinn í götu þeirra sem sameina græðgi og grimmd?

Efnisorð: