þriðjudagur, júní 12, 2012

Mínusstig á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Það er heldur nöturlegt að lesa að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skuli finnast eðlilegt að dýrum sé drekkt, grísir séu geltir án deyfingar, dýr séu drepin með útblæstri (s.s. minkar) og þar sé eindregin stemning fyrir því að sumarbeit grasbíta sé bara gamaldags og torfbæjarlegt.

Dýralæknafélag Íslands gagnrýnir ráðuneytið harðlega fyrir þessa breytingu og bendir á markmið laga um dýravernd.
„Markmið laga þessara er stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma. Ennfremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“

Semsagt, það er verið að smíða lagafrumvarp um dýravelferð og sú róttæka tillaga að dýrum væri tryggð sumarbeit, þau yrðu ekki drepin nema á mannúðlegan hátt og að pyntingum væri hætt á nýfæddum grísum, var barasta strikuð út af ráðuneytinu. Þar er fyrst og fremst litið á dýrin útfrá hagsmunum matvælaframleiðenda og pelsaseljenda, en ekki með dýraverndunarsjónarmið í huga. Mikið er það sætt. Og líka einstaklega hugljúft að til að vernda bændastéttina þá er passað uppá að þeir missi ekki ríkisstyrkina sína þó þeir séu uppvísir að því að sýna dýrum skepnuskap.

Ómar Ragnarsson bendir á að í frumvarpi Stjórnlagaráðs er fjallað um dýravernd og hann segir: „Athyglisvert er ef það þarf stjórnarskrár-ákvæði til þess að koma í veg fyrir alls kyns ónauðsynleg níðingsleg meðferð á dýrum sé leyfileg.“ Verði stjórnarskráin samþykkt njóta dýrin þá vonandi þeirrar verndar sem þau eiga skilið. Ráðuneytið ætti þó að sjá sóma sinn í að breyta frumvarpinu til fyrra horfs, þessi breyting er þeim til skammar.

Efnisorð: