miðvikudagur, júní 20, 2012

Þrjár

Erla Hlynsdóttir skrifaði pistil í gær þar sem hún vekur lesendur til umhugsunar um hve margar konur verða fyrir kynferðisofbeldi án þess að þær endilega segi frá því. Að við þekkjum öll einhverjar konur sem hefur verið nauðgað, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki.

Eftir að ég las hinn ansi magnaða pistil Erlu hef ég mikið velt fyrir mér spurningunni sem hún kastar fram í lokin: Hvað þekkir þú marga sem hefur verið nauðgað?

Ég hef farið aftur og aftur yfir það, niðurstaðan er ætíð hin sama. Ég man bara eftir þremur konum sem ekki hafa orðið fyrir neinu slíku. Ég hef auðvitað ekki spurt allar konur sem ég þekki* og ekki rætt kynferðisbrot við allar konur sem ég hef hitt. En í trúnaðarsamtölum hafa aðeins þrjár konur sem ég man eftir beinlínis sagt beint út að þeim hafi aldrei verið nauðgað og aldrei hafi verið gerð tilraun til að nauðga þeim.

Ég þekki eins og Erla konur sem hefur verið nauðgað oftar en einu sinni. Ég þekki konur sem hafa aldrei kært (ég þekki líka konur sem hafa kært). Ég þekki konur sem hefur verið nauðgað af vinum sínum,** ég þekki konur sem hefur verið nauðgað þegar þær voru áfengisdauðar. Ég þekki lesbíur sem hefur verið nauðgað, ég þekki gagnkynhneigðar konur sem hefur verið nauðgað. Ég þekki konur sem hafa orðið fyrir nauðgunartilraunum þegar þær fengu far hjá strákum í bíl, ég þekki konu sem var nauðgað í bíl. Ég þekki konur sem voru fullar þegar þeim var nauðgað, konur sem var byrlað lyf, ég þekki konur sem voru edrú. Ég þekki konur sem hafa farið í Stígamót, ég þekki konur sem hafa hvorki farið þangað né á Neyðarmóttökuna. Ég þekki konur sem reynt hafa að fyrirfara sér eftir að þeim var nauðgað, ég þekki konu sem varð ólétt eftir nauðgarann. Ég þekki konur sem hefur verið nauðgað á útihátíð og ég þekki konur sem hefur verið nauðgað af hópi karlmanna. Sumar þessar konur vita ekki hvað nauðgarinn heitir, sumar vita það en segja engum eða fáum.

Það vill svo til að nauðganir eru framdar af nauðgurum. Konum er ekki bara nauðgað, þeim er nauðgað af nauðgurum. Það er merkilegt, eins og Sóley Tómasdóttir bendir á, hve fólk er tilbúið að sýna konum samúð þegar þær segja frá að þeim hafi verið nauðgað (helst ef það hefur gerst fyrir löngu síðan) en samúðin hverfur ef konan nafngreinir nauðgarann og sérstaklega ef hún kærir hann. Þá breytist hún í lygakvendi sem vegur að mannorði glæsimennis.

Sóley bendir á að líklega þekkjum við öll nauðgara enda eru þeir fjölmargir. Þeirri spurningu hennar, hvað þekkir þú marga sem hafa nauðgað, er ekki fljótsvarað. Ég veit nöfn margra nauðgara og eflaust á ég það líka sameiginlegt með fjölmörgu fólki að þekkja karlmenn sem hafa nauðgað án þess að ég viti neitt um það.*** En ef ég tel bara þá sem ég er málkunnug og veit að hafa nauðgað, þá er svarið svona: Þeir eru tvöfalt fleiri en konurnar sem hafa sloppið.

___
* Enda spyr maður ekki að slíku, annaðhvort segja konur frá því af fyrra bragði og sjálfviljugar eða sleppa því.
** Ég þekki konur sem hefur verið nauðgað af ættingjum, ókunnugum og kunningjum, tengslin geta verið margvísleg eins og aðstæðurnar.
** Nýlega komst ég að því að kunningi minn frá unglingsárum stundaði á þeim tíma sem ég þekkti hann að nauðga stelpum (ég segi 'stundaði' því þær voru nokkrar en ég veit ekki hve margar). Hann var aldrei kærður og það var engin stelpa að ljúga þessu uppá hann, heldur sagði hann sjálfur frá. Það var ekki fyrr en nýlega sem kunningjar hans voru að rifja upp gamlar sögur og báru þá kennsl á hvað hann hafði í rauninni verið að segja. Þeir áttuðu sig því að þeir eru nú öllu upplýstari um nauðganir (þökk sé feministum) en þegar þeir hlustuðu á hann stæra sig af afrekum sínum.

Þessi pistill er skrifaður á 6 ára bloggafmælinu.

Efnisorð: , ,