laugardagur, júní 16, 2012

Kvennaflóttinn af landsbyggðinni

Þrátt fyrir einlægan áhuga kvenna á að vinna í álverum fækkar konum stöðugt á Austurlandi. Þegar hugað er að atvinnuuppbyggingu á svæðinu dettur mönnum helst í hug jarðgangagerð — meiri vinna fyrir karlana. Sú vinna er bara tímabundin, svona eins og við Kárahnjúkavirkjun, en það hljómar alltaf vel að skaffa vinnu fyrir karla. Þó virðist engum detta í hug að huga að atvinnuuppbyggingu í þágu kvenna, heldur verða kvennavinnustaðir (s.s. sjúkrastofnanir) fyrir niðurskurði eða störf kvenna eru lögð niður (já.is).

Ómar Ragnarsson skrifaði um þessa úreltu atvinnustefnu nýlega.
„Þegar "bjarga" á byggðarlögum og skapa störf eru það oftast að mestu karlastörf sem reynt er að skapa og þá helst tímabundin störf eins og við vegagerð eða virkjanir.

Þegar sparað er eru það hins vegar oftast kvennastörf sem lenda undir niðurskurðarhnífnum og ekkert er hugað að innbyrðis tengslum vinnustaða, þar sem konur eru í meirihluta.

Dæmi: Ákveðið er að leggja niður leikskóla í þorpi og flytja starfsemina yfir á annan leikskóla í 40 kílómetra fjarlægð.

Þetta veldur því að í heilsugæslustöðinni eða fiskvinnslunni á staðnum fást ekki konur til starfa.“

Fiskvinnsla í landi hefur líka minnkað vegna frystitogaranna og kvótabrasksins. Þá eru konur meirihluti háskólastúdenta og að menntun lokinni vilja þessar konur störf sem reyna á menntun þeirra. Meðan þau eru ekki í boði munu konur halda fjarri byggðarlögum þar sem körlum er tryggð vinna en kvennastörf lögð niður.

Ómar bendir á að
„Þetta virðist stjórnmálamönnum að mestu fyrirmunað að skilja og virðist einu gilda hvort þeir eru vinstrimenn eða hægrimenn. Þeir lifa enn í því gamla mynstri að höfuðáherslan sé lögð á karlastörf, rétt eins og allt sé með svipuðum kjörum og fyrir 60 árum.“

Það er því ekki mikil ástæða til fagnaðarláta þegar samið er um jarðgöng, sama í hvaða landsfjórðungi það er.

Efnisorð: ,