miðvikudagur, júlí 04, 2012

Umskurður drengja

Það er auðveldlega hægt að segja að nýfallinn dómur í Þýskalandi þess efnis að bannað sé að framkvæma umskurð á sveinbörnum af trúarástæðum sé hreinar og klárar gyðingaofsóknir, gyðingar hafa jú haft þennan sið um ómunatíð. Jafn mikil söguleg staðreynd eru ofsóknir gegn gyðingum í Þýskalandi. Að bannið bitnar líka á múslimum er auðvelt að útskýra sem útlendingafordóma eða íslamfælni. En svo má líka horfa á það sem meira máli skiptir: lítil börn sem látin eru gangast undir ónauðsynlega aðgerð sem nemur brott hluta af líkama þeirra. Aðgerð sem er sársaukafull og getur valdið sýkingum. Aðgerð sem er, eðli málsins samkvæmt, óafturkræf.

Enda þótt gyðingar hafi stundað umskurð á drengjum frá ómunatíð varð siðurinn útbreiddur í Bandaríkjunum um aldamótin 1900 og öðrum enskumælandi löndum, Ástralíu, Kanada, Suður-Afríku, Nýja-Sjálandi og að einhverju leyti í Bretlandi (segir Wikipedia , sjá einnig kort yfir útbreiðslu). Á áttunda áratugnum voru 91% allra bandarískra karla umskornir. Nú er ekki lengur eins almennt að umskera sveinbörn og árið 2010 voru aðgerðin framkvæmd á 'aðeins' 54,7% nýfæddra drengja. Almenningur er því orðinn afhuga umskurði og fyrir því eru góðar ástæður.

Læknasamtök ýmissa landa (Ástralíu, Nýja-Sjálands, Kanada, Finnlands, Þýskalands, Hollands) hafa á síðastliðnum árum hvert í sínu lagi gefið út tilkynningar um að þau leggist gegn því að umskurður sé framkvæmdur á öllum þorra sveinbarna (semsagt nema læknisfræðilegar ástæður séu fyrir hendi).* Hollenskir læknar segja að rök mæli með því að banna umskurð.

Svíar settu lög árið 2001 sem banna umskurð nema læknir eða hjúkrunarfræðingur sé viðstaddur og deyfing sé notuð.** Þau lög munu vera þverbrotin. Hætt var að framvæma umskurði á ríkisspítölum í Ástralíu árið 2007 en engin lög voru sett varðandi einkarekin sjúkrahús. Og svo var það þýski dómstóllinn sem felldi þann dóm nýlega að umskurður, sem ekki er af heilbrigðisástæðum, flokkist sem alvarlegar líkamsmeiðingar.

Ástæður sem eru taldar upp fyrir því að umskurður sé heppilegur fyrir öll sveinbörn er hreinlæti og vörn gegn sýkingum. Það er auðveldara að þrífa tippi sem hefur enga forhúð og með auknu hreinlæti er minni hætta á sýkingum (þessu eru læknar semsagt ósammála).*** Svo er það trúarhefðin hjá gyðingum og múslimum (ég nenni ekki þeirri umræðu). Enn ein ástæðan er að pabbinn vill að tippi sonar síns líti eins út og hans eigið (engin aðgerð tryggir það). Af sama meiði er sú ástæða að ef allir hinir strákarnir eru umskornir sé ekki hægt að vera sá eini í sturtunni sem lítur öðruvísi út (færri eru nú umskornir þannig að einhverjir skólafélaganna eru umskornir, aðrir ekki). Svo á það að vera betra fyrir kynlífið að vera umskorinn (erfitt er að gera samanburðarmælingar á því) og að umskorið tippi sé á einhvern hátt meira sexý.****

Fólk skiptist mjög í tvö horn varðandi umskurð drengja. Annars vegar er þetta hefð (ekki endilega trúarleg) sem sumir vilja halda í heiðri, og telja svo upp allar hinar ástæðurnar fyrir að best sé að umskera litla drengi, hinsvegar er sú skoðun að þetta sé árás á líkama lítils barns sem finnur til. Veigamikil röksemd sem má ekki gleyma er sú að með þessu hafi hinn upprennandi karlmaður ekki val um hvort hann haldi sinni forhúð.***** Því þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að brotið er á sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga sem geta ekki borið hönd yfir höfuð sér.

Það er ekkert sem bannar fullorðnum karlmönnum að láta umskera sig, vilji þeir það, af trúarástæðum eða til að líta betur út og standa sig betur í rúminu (eða líkjast pabba). En að taka af þeim það val er fáránlegt. Að framkvæma umskurð á nýfæddum drengjum getur varla verið réttur foreldranna, það er einfaldlega ill meðferð á börnum.

___
* Aftur á móti mælir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin með umskurði sem forvarnarleið gegn HIV smiti á þeim svæðum þarsem tíðni HIV er hæst. Bandarískir og breskir læknar eru klofnir í afstöðu sinni en niðurstaðan virðist vera sú að þeir vilji að allajafna ráði foreldrarnir.
** Hið sama viljum við að gildi um grísi sem eru geltir. Rökin sem notuð eru gegn deyfingu er að 'þeir eru svo nýfæddir að þeir finna ekki fyrir'. Er það ekki frekar að þeir (drengir og grísir) eru ómálga og geta ekki sagt frá sársaukanum?
*** Hin augljósa lausn er að kenna drengnum að þrífa sig almennilega.
**** Það er ansi magnað að fólk haldi á nýfæddu barni í örmum sér og sé um leið að íhuga hvernig kynferðisleg áhrif það hafi á aðra og hvernig það komi til með að standa sig í kynlífi.
***** Til eru fullorðnir karlmenn sem fara sjálfviljugir í umskurð, oft vegna þess að þeir hafa þrönga forhúð sem plagar þá. Reyndar er aðgerðin líka gerð á ungum drengjum sem eiga erfitt með að pissa eða fá sýkingar af þessari sömu ástæðu. Það flokkast þá undir læknisfræðilega aðgerð sem nauðsynlegt er að gera.

Efnisorð: , ,