sunnudagur, júlí 22, 2012

Norðmenn mega vera stoltir af Stoltenberg

Ég treysti mér ekki til að horfa á alla dagskrá norska sjónvarpsins í dag en sá þó ræðu danska forsætisráðherrans Helle Thorning-Schmidt sem hún hélt á minningarathöfninni í Útey.* Hún sagði að Norðmenn mættu vera stoltir af Jens Stoltenberg og hvernig hann hefði tekið því áfalli sem hann og þjóðin öll varð fyrir 22. júlí í fyrra. Hann svaraði ofbeldi með kærleika, í stað þess að hóta hefndum grét hann með eftirlifendum.

Það er rétt að Stoltenberg brást við á óvenjulega hófstilltan hátt og hvatti til kærleika fremur en haturs. En öfugt við marga stjórnmálamenn, sem segja eitt og gera annað, þá hefur hann staðið við orð sín. Löggæsla er ekki orðin íþyngjandi fyrir Norðmenn. Það hafa ekki verið framkvæmdar húsleitir og fjöldahandtökur eða lýst yfir stríði gegn einum eða neinum bara til að gera eitthvað. Hryðjuverkamaðurinn var ekki pyntaður til sagna, hann fékk sanngjörn og opin réttarhöld. Hefði þó Stoltenberg verið í lófa lagið að láta ofsóknaræði, líkt og það sem greip Bandaríkjamenn eftir 11. september 2001, leiða för.

Ég er hjartanlega sammála danska forsætisráðherranum um Jens Stoltenberg.
___
* Það var ferlega krúttlegt að sjá hana ganga af sviðinu og setjast á grasflötina þar sem fyrir voru m.a. núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar Noregs, Jens Stoltenberg (sem hún hafði kallað 'Jens' í ræðunni) og Gro Harlem Brundtland. Svo sátu þau öll flötum beinum ásamt hinum meðan á athöfninni stóð. Þetta er alvörufólk.