fimmtudagur, júlí 19, 2012

Íslands Hrafnistumenn

Fyrir nokkrum dögum var í fréttaskýringaþættinum Speglinum fjallað um nýja stefnu í starfsemi öldrunarheimila. Samvæmt þessari hugmyndafræði er lögð áhersla á lífsgæði íbúanna. Í því felst meðal annars að plöntur og gæludýr eru sjálfsögð en ekki útilokuð úr lífi aldraðra. Heppilegt þykir að leikskólar séu í grennd við heimili aldraðra og gamla fólkið geti fylgst með börnum að leik. Þetta hljómar einstaklega indælt og mikil breyting frá þeirri mannfjandsamlegu stefnu sem blasir við þegar öldrunarheimili og þjónustuíbúðir aldraðra eru skoðuð.

Lengi hefur tíðkast að hrúga gamla fólkinu í háhýsi með miklar umferðargötur á báða bóga, svo einangrun frá öðru mannlífi er alger. (Dæmi um þetta eru Árskógar sem standa gegnt Mjódd, þar eru þjónustuíbúðir og hjúkrunarheimili aldraðra). En nú á semsagt að fara að prufa (aftur) að hafa öldrunarheimili inni í byggð (elliheimilið Grund er sannarlega inni í miðju íbúðahverfi en það er þó að mörgu leyti orðið úrelt) og leyfa gamla fólkinu að vera innanum dýr, plöntur og börn.

Skrítnari er sú stefna að gera heimili aldraðra að vínveitingahúsi. Það flokkast undir atvinnustarfsemi* sem ekki á við inni á heimilum, því öldrunarheimili eru vissulega heimili, eins og vel kemur fram í viðtalinu við Brit J. Bieltvedt í Speglinum.

Fyrir nokkrum árum stóð mikill styr um bar sem settur var upp í almenningsrými í blokk sem ætluð er eldri (og efnaðri) borgurum. Einn íbúinn, sá sem bjó næstur barnum, var hreint ekki hrifinn af því renneríi og ónæði sem skapaðist af barnum og staðsetningu hans. Af þessu spruttu málaferli. Kannski var þessi karl bara kverúlant og allt annað aldrað fólk fagnar áfengissölu á öldrunarheimilnum eða þjónustukjörnum fyrir aldraða. SÁÁ hefur einmitt bent á áfengisvanda aldraðra sem bendir til að margir aldraðir séu sólgnir í áfengi.

En hvað þá um alla hina íbúana sem hvorki vilja vínveitingar almennt eða ónæðið sem því fylgir? Það verður kannski þannig að þeir sem kvarta fá framan í sig sömu rulluna og íbúar í 101 heyra sífellt: Ef þú þolir ekki djammið geturðu bara flutt!

___
* Viðbót: Hrafnista fær ekki vínveitingaleyfi, enda er hún á skilgreindu íbúðasvæði en ekki á þjónustu- og stofnanalóð.

Efnisorð: , ,