mánudagur, júlí 16, 2012

Annie Mist — heimsmeistari annað árið í röð

Annie Mist Þórisdóttir varð heimsmeistari í CrossFit núna um helgina, annað árið í röð. Sá frábæri árangur kom henni ekki á forsíðu Fréttablaðsins — þar var kálræktun mikilvægari. Ég óska Fréttablaðinu til hamingju með forgangsröðina.

Ef vel var leitað mátti finna örsmáa frétt um sigur Annie Mistar á bls. 2. Alveg svona litla.

Það er spurning hvort íþróttafréttaritarar Fréttablaðsins hafi ráðið því alfarið að þetta smælki birtist sem frétt um heimsmeistaratitil Annie Mistar eða hvort ritstjórnin sé eins og íþróttafréttamann samdauna ÍSÍ yfirgangnum.* ÍSÍ stjórnar því hvaða íþróttafólk kemur til greina í vali á íþróttamanni ársins. Það er fátítt að á íþróttasíðum blaðanna sé fjallað um aðrar íþróttir en þær sem eru innan vébanda ÍSÍ. Þannig er ekki fjallað um vaxtarræktarkeppnir, fitness eða crossfit því þær íþróttir eru stundaðar af fólki sem ekki er í ÍSÍ heldur sérsamböndum.** Svoleiðis íþróttir (sem sjá ekki sóma sinn í að vera boltaíþróttir) lenda á 'fólk í fréttum' síðum eins og skemmtiatriði á þorrablóti.

Ómar Ragnarsson, sem hefur ekki bara skemmt á ótal þorrablótum heldur verið íþróttafréttamaður, hefur efasemdir um að rétt sé að útiloka crossfitkeppendur frá því að koma til greina sem íþróttamenn ársins. En hvort sem sá titill er innan eða utan seilingar eftir því í hvaða íþróttagrein fólk keppir þá er fáránlegt að árangur á heimsmælikvarða tryggi ekki mikla umfjöllun — á forsíðu og á íþróttasíðum.

Það hefði verið nær að Fréttablaðið birti eitthvað í áttina að þessari mynd (sem ég stal samviskulaust). Það hefði verið mun meira viðeigandi en smælkið sem þeim þótti sæma sem frétt um heimsmeistaratitil.

___
* Ég held semsagt ekki bara að það sé verið þagga niður fréttina um Annie Mist vegna þess að hún er kona. Þó ég útiloki það auðvitað ekki. Kynið var þeim allavega ekki til framdráttar, evrópumeisturunum í fimleikum, þegar kom að því að velja íþróttamann ársins.
** Mér skilst að ástæða þess að ÍSÍ tekur ekki þessi sérsambönd inn sé ágreiningur um lyfjapróf. En eins og vitað er þá hefur aldrei nokkur maður innan ÍSÍ eða alþjóðlegra íþróttasambanda sem stunda lyfjapróf verið staðinn að ólöglegri lyfjanotkun — hvað þá þegar komið er á stórmót eins og Ólympíuleika —  sussu nei.

Efnisorð: ,