laugardagur, júlí 21, 2012

Að rústa miðbæ með steypu


Árið 2008 var tilkynnt um úrslit í samkeppni um byggingu Listaháskólans sem rísa átti við Laugaveg. Samson/Björgólfur Guðmundsson hafði eignast lóðina (eins og skrilljón aðrar ásamt húsum sem átti að rífa eða voru rifin, sbr.Hampiðjuna — sem um skeið hýsti Klink og Bank, Björgólfi til upphafningar — en þar er enn flakandi sár og engin bygging hefur verið reist). Vektakalýðræði ríkti, lúffað var fyrir kröfum þeirra sem áttu peninga og vildu byggja.*

Verðlaunatillagan gerði ráð fyrir að fjöldi húsa yrði rifinn og götumyndin myndi gjörbreytast en fáir settu sig á móti því (nema Ólafur F. borgarstjóri, sem endaði þó á að greiða gróðapungum margfalt verð fyrir Laugaveg 4-6, sem var kostur fyrir ásýnd Laugavegarins en galli fyrir pyngju borgarbúa — og ein ástæða þess að grassláttur er nöldurefni nú fjórum árum síðar). Byggingarmagnið í verðlaunatillögunni, hinu væntanlega húsi Listaháskólans, var langt umfram það sem deiliskipulag sagði til um og byggingin hefði orðið eins og „Berlínarmúr niður hálfan Laugaveginn“**

Þessa verðlaunatillögu teiknaði arkitektastofa með Pál Hjaltason í broddi fylkingar. Nú er þessi sami Páll formaður skipulagsráðs Reykjavíkur og sat í dómnefndinni um verðlaunatillöguna sem nýlega var kynnt*** og snýst um umbyltingu Ingólfstorgs, nýja byggingu við Kirkjustræti og sitthvað fleira.****

Páll Hjaltason hefur aðra sýn á Reykjavík en ég. Bara svo það sé á hreinu.

Ég er svona Torfusamtakatýpan, var á móti því að Fjalakötturinn yrði rifinn, þakkaði mínum sæla fyrir bankahrunið sem forðaði okkur frá Listaháskólabyggingunni á Laugaveginum og vil ekki sjá þessar breytingar sem nú á að gera á elsta hluta Reykjavíkur.

En það er auðvitað vitavonlaust að setja sig upp á móti þeim tilfæringum sem til standa. Okkur verður sagt að þetta komi okkur ekki við, því það er einhver kall sem á'etta og má'etta.

Þessu verður þröngvað í gegn — nema framsóknarskúnkurinn með peningana fari á hausinn.

___
* Það var Hjálmar Sveinsson sem vakti athygli mína á skipulags- málum í Reykjavík og nefndi fyrstur manna verktakalýðræði í mín eyru. Nú situr hann hinumegin borðsins og ver mistökin í miðbænum.
** Úr grein Hallgríms Helgasonar 26. júlí 2008.
*** Lóðirnar á Pétur Þór Sigurðsson, eiginmaður Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins. Hann var svo einstaklega vinsamlegur að láta samkeppni fara fram og sat sjálfur í dómnefndinni, ásamt hr. byggingarmagni.
**** Hér má sjá ágætar myndir af vinningstillögunni eins og hún snýr að Ingólfstorgi. Það þarf varla að taka það fram að ég er ósammála textanum sem fylgir. Það er þó vert að lesa um þetta.
Viðbót: Pétur H. Ármannsson skrifar fína grein um málið og talar þar um „óhóflegt byggingamagn inn í viðkvæmt umhverfi“. Hann hvetur til að samningsskilmálar um úthlutun byggingarréttar verði endurskoðaðir með það í huga að hann verði tímabundinn og með fyrirvara um rétt til endurskoðunar skipulags án fébóta. (Lesa meira hér.)