sunnudagur, ágúst 05, 2012

Biblíulestur jafngildir ekki trúarþörf

Bergþóra Gísladóttir skrifar ansi skemmtilegt bókablogg. Hún les bækur á fleiri tungumálum en ég skil og skrifar því um bækur sem ég hef aldrei heyrt um og á engan kost á að lesa fyrr en þær eru þýddar á íslensku. Sumar bækur sem hún skrifar um hef ég þó lesið og hef gaman af að bera saman álit okkar, eins og ég geri þegar ég les Druslubókabloggið.

Bergþóra er sannkallaður lestrarhestur eins og einu sinni var sagt um fólk sem er fíkið í bóklestur. Um áramótin ákvað hún að lesa alla biblíuna á þessu ári og þó hún lesi greinilega ýmsar bækur aðrar meðfram biblíulestrinum er hún nú komin „inn í texta Jeremía“, semsagt búin með rúmlega 760 bls.

Um miðjan apríl skrifaði Bergþóra þetta:
„Ég hafði óljóst minni um það að Gamla Testamentið væri grimmt á köflum. En fyrr má nú vera ósköpin. Bókin er eins og sambland af Fornaldarsögum Norðurlanda og Sturlunga. Hún líkist Fornaldarsögunum hvað varðar ýkjurnar og Sturlungu um grimmd og sóðaleg dráp.“

Og núna segir hún:
„Því lengra sem ég les í Ritningunni því meira undrandi verð ég á því að þetta skuli enn í dag vera litið á þetta sem undirstöðu trúarbragða sæmilega siðmenntaðra manna. Sem betur fer hefur Guð aldrei talað til mín og ég veit að ef það ætti sér stað væri ég snarlega sett á viðeigandi lyf.“

Þetta rímar alveg við mína skoðun og upplifun af biblíulestri. Ég las reyndar biblíuna sem unglingur, eins og Bergþóra segir í athugasemdahalanum við bloggfærslu sína að hún hafi gert, þó vildi hún lesa hana aftur. Ég tek til mín sneiðina og hyggst setja það á dagskrá hjá mér fyrr en síðar að lesa biblíuna aftur (og þá Sálmana líka). Efast reyndar stórlega um að ég skipti um skoðun á fyrirbærinu og enn síður á ég von á að finna guð, því ekki var hann þar í fyrra sinnið.

En að athugasemdahalanum hjá Bergþóru. Þar sér hún sig greinilega knúna til að lýsa yfir að hún hafi haft ágæta þekkingu á biblíunni áður en hún hóf lesturinn, því það virðist hafa farið framhjá lesendum hennar að þetta er vel lesin kona. Inn í athugasemdakerfið hafa ruðst kallar sem eru í misjafnlega föðurlegum tón að segja henni til. Þeir segja að hún lesi bókina í vitlausri röð (hún átti semsagt ekki að byrja á byrjuninni!) og að hún eigi frekar að lesa kabbalah fræðin svo hún skilji allt hið leynda í biblíunni. Svo er greinilega gert ráð fyrir að hún, og þá líklega allir aðrir sem taka sér þessa bók í hönd, sé í 'andlegri leit', gott ef ekki gríðarlegri trúarþörf. Mikið að þeir vilja ekki að fólk taki inntökupróf til að lesa biblíuna.

Enn staðfestist fyrir mér hve skynsamleg ákvörðun það var að hafa athugasemdakerfið hjá mér lokað.

Efnisorð: ,