miðvikudagur, ágúst 15, 2012

Ökuþórur og umferðaröryggi þeirra

Í góða veðrinu í sumar fór skyndilega að bera á litlum rafknúnum farartækjum sem geysast hljóðlaust um allar trissur. Það sem er skemmtilegt við rafknúnu vespurnar er að mörgum þeirra er stýrt af stelpum. Áður fyrr voru strákar á skellinöðrum þeir einu sem óku vélknúnu ökutæki áður en bílprófsaldri er náð en nú má sjá fjölda stelpna þeysa um á sínum eigin forsendum. Þær eru greinilega komnar af því stigi að sitja og bíða eftir að einhver strákur komi og sæki þær, heldur fara bara sjálfar þangað sem þeim sýnist, þegar þeim sýnist. Það þykir mér ánægjuleg þróun.

Það er ekki eins skemmtilegt að sjá þegar allt uppí þrjár stelpur eru saman á einni vespu, þaraf ein aftaná og ein til fóta, allar hjálmlausar. Það fer um mig að sjá svo kæruleysislega farið með líf sitt og heilsu. Ekki skánar það þegar rafmagnsvespurnar geysast um göngu- og hjólastíga borgarinnar og skjóta öðrum vegfarendum skelk í bringu þegar þær birtast hljóðlaust aftanað fólki.* En meðan lög og reglugerðir ná ekki yfir þessi farartæki þá er allt umferðaröryggi látið lönd og leið af handhöfum tækjanna, svona eins og slys geti ekki orðið ef enginn hefur bannað gáleysislega notkun.

Þessvegna vil ég, þrátt fyrir þá ánægju sem vespurnar greinilega veita hinum ungu og bjartsýnu ökuþórum, að settar verði reglur um hver megi nota þessi tæki, hvernig og hvar.



(Mynd fengin af Flick my life en sjálf hef ég séð annað hjól með annað og jafn fjölmennt föruneyti.)
___
* Viðbót: Ekki skánar ástandið á göngu- og hjólastígunum við að ökumönnum skellinaðra og jafnvel fjórhjóla þykir nú sem þeir geti líka notað stígana, og bætist þá hávaða- og hljóðmengun ofan á slysahættuna.

Efnisorð: