mánudagur, ágúst 13, 2012

Vændi og mansal þrífst vegna karlmanna

Nú er því haldið fram að sænska leiðin svokallaða hafi haft öfug áhrif við það sem til var ætlast, vændi og mansal aukist bara. Þetta er svipuð röksemdafærsla og Páll Scheving reyndi um árið með Stígamót sem svoleiðis spönuðu saklausa karlmenn uppí að nauðga öllu sem fyrir varð: að það sé vegna laga gegn vændiskaupum að kenna sem vandamálið grasserar. Það mætti kannski að skoða hve algengt vændi, mansal og nauðganir eru í öðrum ríkjum — þar sem á annað borð er fylgst almennilega með því — heldur en láta eins og slíkt aukist við það að reynt sé að sporna við slíkri meðferð á konum.

Norðurlöndin, Ísland þarmeðtalið, eru í fararbroddi í jafnréttismálum í heiminum. Þar er mesta kvenfrelsið, mesta félagslega réttlætið. En eins og við vitum öll þá er ekki þarmeð sagt að allt sé fullkomið, síður en svo. Langt er í land með það. Eins og Stieg Larsson benti á í bókum sínum og sjá mátti í myndum gerðum eftir þeim og einnig í Lilya 4 ever, þá eru karlmenn sem eru aldir upp í fyrirmyndarríki Svía ekki undanskildir því að vilja umfram allt svala hvötum sínum á konum og skiptir þá engu vilji kvennanna sjálfra. Þetta eiga þeir sameiginlegt körlum allra landa. Norðurlandabúar eru ekkert betri en aðrir.

Lög gegn vændi eru skref í rétta átt en vændi verður líklega til meðan enn eru karlar sem hafa geð á að stunda kynlíf með konum sem vilja þá ekki. Nauðganir fylgja sömu lögmálum. Mansal, sem er sérlega hörmuleg útgáfa vændis, er stundað af þeim sem vilja 'uppfylla kröfur markaðarins' um tiltækar vændiskonur. En þar sem konur almennt og yfirleitt vilja ekkert stunda vændi og þarafleiðandi fást fáar til verka, þá er konum rænt eða þær lokkaðar til að flytjast milli landa (eða í næstu borg) þar sem þær eru neyddar til starfa. Karlarnir sem kaupa aðgang að þeim láta sér þetta í léttu rúmi liggja og því heldur mansalið áfram.

Karlar sem búa í löndum þar sem sænska leiðin hefur verið farin virðast vera algerlega tilbúnir að lenda í klóm lögreglunnar (ekki að löggan nenni að standa í að halda uppi lögum og reglu í þessum málum, a.m.k. ekki hér á landi) bara ef þeir fá að ríða enn einni ókunnugri konunni í viðbót. Alveg sama hvernig á því stendur að hún er í vændi, alveg sama hvernig henni líður á meðan, alveg sama um hana yfirleitt. Lögin hafa ekkert með afstöðu þeirra til kvenna að gera.

Rétt eins og með nauðganir þá er stendur uppá karlmenn að stöðva vændi og mansal. Ef karlmenn hætta að sækjast eftir vændi þá verður ekkert vændi. En meðan þeir heimta nýtt og nýtt kjöt, þá verður þeim skaffað það, með góðu eða illu.

___
Viðbót: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir Smuguritstjóri skrifar fínan pistil um málið.

Efnisorð: , ,