laugardagur, ágúst 11, 2012

Karlar sem hata klám

Á dagskrá útvarps um daginn var ágætur þáttur sem bar yfirskriftina Karlar sem hata klám. Þar töluðu Stefán Máni, rithöfundur; Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og Thomas Brorsen Smidt, nemi í kynjafræði. Það er afar mikilvægt að karlmenn sem fíla ekki klám stígi fram og láti þá skoðun sína í ljós á opinberum vettvangi. Það er ekki síður jákvætt að þekktur, tattúveraður spennusagnahöfundur komi fram með slíka afstöðu (reyndar ekki í fyrsta sinn).

Það hefur verið gríðarleg áhersla á það í samfélaginu að allir karlmenn horfi á klám og allir karlmenn fíli klám. Klám sé gríðarlega sjálfsagt og eðlilegt. Hver sá — eða ölluheldur hver sú — sem andæfir því er öfgafeministi og á allt illt skilið. Við þekkjum ræðuna.

Þess þá heldur eiga þessir karlmenn, Stefán Máni, Ólafur Páll og Thomas, þakkir skildar fyrir að stíga fram fyrir skjöldu og segja frá andúð sinni á klámi.

Efnisorð: ,