fimmtudagur, september 13, 2012

Lof og last

Lof

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra fær lof fyrir að gefa út reglugerð sem bannar að grunnskólar verði reknir í hagnaðarskyni.*

Vanda Sigurgeirsdóttir fyrir svar við skítakommenti karlkynsfótboltaþjálfara um að menn hans hafi spilað eins og „kellingar“. Eins og kunnugt er (þeim sem fylgjast með fótbolta) er karlalandsliðið afspyrnulélegt samkvæmt styrkleikalista, eða í 130. sæti, en kvennalandsliðið í 16. sæti á lista. Það er því fáránlegt af fótboltakörlum að tala á niðrandi hátt um getu kvenna á fótboltavellinum.

Sif Sigmarsdóttir fyrir fínan pistil þar sem hún líkir mannréttindabaráttu svartra og feminista saman — og viðbrögðum við þeirri baráttu.**

Ritstjórn Knúzzins fyrir samantekt og uppsetningu á hárbeittri ádeilu á hverjir eru skipaðir í nefndir og hverjir ráðnir á fjölmiðla og í Hæstarétt. Sláandi framsetning á kynjamisrétti.

Last

Sama dag og Knúzið birti myndasyrpuna þar sem karlar sátu við hvert borð og einokuðu fjölmiðla með nærveru sinni var tilkynnt að 365 miðlar hefðu ráðið karlmann í vinnu. Engum fréttum fer af því að konum hafi verið boðið starfið.

Björn Zoëga fyrir að nota gamla ég-get-fengið-betri-laun-annarstaðar aðferðina til að heimta hærri laun en háu launin sem voru hærri en hæstu laun ríkisforstjóra eiga að vera.

Og í framhaldi af því: Guðbjartur Hannesson, ráðherrann sem fannst upplagt að halda í svona góðan mann.

Karlanefndin undarlega sem hefur ákveðið að best sé að gera eins og LÍÚ segir.

___

* Reglugerðin er einnig í boði eiganda Menntaskólans Hraðbrautar sem greiddi sér 82 milljónir útúr rekstrinum og fór fram á sífellt hærri fjárframlög frá ríkinu — sem hann og fékk: 192 milljónir króna frá ríkinu umfram það sem honum bar —  á tímum ráðdeildar Sjálfstæðisflokksins í málum þjóðarinnar.

** Aldeilis kostuleg athugasemd er komin við stúf úr pistli Sifjar.

Efnisorð: , , , , , ,