laugardagur, september 01, 2012

Lof og last

Stundum hef ég hvorki tíma né nennu til að skrifa um allt það ég vildi eða hef ákveðið að skrifa pistil um ákveðið málefni og hin liggja óbætt hjá garði. Undanfarið hef ég því ekki sagt orð um ýmsar fréttir, greinar og pistla þó ég hafi haft ástæðu til þess. Samt finnst mér ómögulegt að sleppa því alfarið. Þessvegna ætla ég nú að setja tengla á hitt og þetta sem ég hef skoðun á, án þess þó að rökstyðja það sérstaklega. Flokka það þó eftir því hvort mér líkar eða mislíkar efni og efnistök.* Ég hef gert það áður og geri eflaust einhverntímann aftur, þó efast ég um að það verði daglegur siður að birta bara stuttlega álit mitt.

Lof

Helga Þórey Jónsdóttir skrifaði frábæran pistil á Knúzið um hvað þyki þess virði að ræða. Þar koma Egill Helgason og margir karlar sem hata konur við sögu og Helga Þórey rekur hvernig þeir reyna að þagga niður umræðu um feminisma.

Nanna Hlín Halldórsdóttir og Finnur Guðmundarson Olguson gera miklar athugasemdir við hið súra samtal Snorra Páls og Steinunnar (sem ég hnýtti líka í en ekki svona vandlega).

Nanna Hlín og Finnur segja að mannskilningurinn sem kemur fram í viðtalinu „geri ekki ráð fyrir ólíkum styrk gerenda í hvers kyns valdatengslum og þá aðallega í samhengi kynlífssölu; hvernig sumar manneskjur eru undirokaðar/kúgaðar (hvort sem við köllum þær fórnarlömb eður ei) á meðan aðrar hafa dómínerandi stöðu í aðstæðum kynlífssölu í dag.“ Og þau spyrja: „Hvernig er til dæmis hægt að fordæma kapítalíska launavinnu og halda því fram að vændi sé nákvæmlega sömu lögmálum ofurselt í sömu grein og færð eru rök fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að gagnrýna vændi eins og við þekkjum það í dag?“

Þá benda Nanna Hlín og Finnur á það að það sé rangt mat hjá Snorra Páli og Steinunni að fólk sem tekur „afstöðu gegn vændi finnist vændisfólk að einhverju leyti fyrirlitlegt eða óæðra okkur þar eð við fordæmum viðskiptin.“** Eins og ég vildi sagt hafa.

Last

Ögmundur Jónasson, ekki bara fyrir að ráða karl þegar kona var hæfari, heldur fyrir að rífa kjaft þegar hann spurður um málið.***

Finnur.is var borinn heim til mín í vikunni, það er nógu slæmt (þar er ráðhúsið lofað sérstaklega á bls. 2 og vitnað í 'spaugsyrði' þáverandi borgastjóra sem er nú ritstj. Finns, þó er auðvitað alger tilviljun hve hann er sýndur í jákvæðu ljósi í umfjölluninni). Verra var að þar er fjallað um bíómynd og bókina Lolitu undir yfirskritinni ">Barnunga tálkvendið (bls. 8). Þar er sagt að Humbert og hin 12 ára Lolita taki „upp samband“. Til hafi orðið „erkitýpan Lólíta sem táknar vafasöm og daðrandi tálkvendi á barnsaldri sem táldraga veikgeðja menn og steypa þeim í glötun“ (steypa körlum í glötun, það er nú það versta við það). Hinn ónafngreindi blaðamaður klykkir út með að segja: „hefur hin vafasama manngerð fengið kenniheitið Lolita“.

Síminn og önnur símafyrirtæki (a.m.k. Vodafone) sýndu kvenfyrirlitningu í verki þegar lögreglu var neitað um að fá númer sem hefðu getað útilokað eða bent á karlmann sem nauðgaði stelpu á Þjóðhátíð.

Busanir. Mikið hlýtur að vera ógeðfelld tilhugsun fyrir þau börn sem lögð hafa verið í einelti í grunnskóla að sjá framá að verða að gangast undir enn meiri niðurlægingu og ofbeldi þegar í nýjan skóla er komið. Böðlarnir jafnvel gamlir kvalarar þeirra. Hinn valkosturinn er að vera úthrópuð fyrir að taka ekki þátt í 'græskulausa gamninu sem hefð er fyrir og öllum finnst svo skemmtilegt'. Það ætti að taka fyrir busanir með öllu.****

Notkun á orðinu menn. Í Fréttablaði dagsins um tunglferðarsamsæriskenningar: „hópur manna og kvenna“. Auðveldlega hefði verið hægt að segja 'hópur karla og kvenna' eða 'hópur manna' (konur eru líka menn) eða 'hópur fólks'. En það eru semsagt enn til blaðamenn sem telja konur ekki tilheyra mannkyninu.

Þar með lýkur því sem átti — en tókst ekki — að vera stutt yfirferð í stikkorðastíl um nokkuð af því sem ég hef glaðst yfir eða látið pirra mig undanfarið.

___

* Svona dálkar geta haft yfirskriftina plús/mínus, húrra/bjakk, snillingar/fávitar, jákvætt/neikvætt, lof/last. Nú ætla ég að prófa það síðastnefnda, að hætti Vikublaðsins Akureyri. Því blaði ritstýrir karlmaður sem segist vera „femínískur fréttamaður“ (ég er svosem ekkert að draga það í efa), hann gaf út bók fyrir nokkrum árum um reynslu sína af því að vera heimavinnandi faðir. Sú reynsla varð til þess að hann sá allt kynjadæmið í nýju ljósi — sem er ágætt útaf fyrir sig en það er alltaf jafn merkilegt að fólk skuli ekki sjá misréttið fyrr en það rekur sig á það sjálft en hafni fram að því öllum feminima.

** Nú hætti ég að taka snilldardæmi úr grein Nönnu Hlínar og Finns en af nógu er að taka.

*** Þegar karl var ráðinn en ekki kona í Stjórnarráðið var það vegna þess að hann var metinn hæfari(matið hefur síðan verið véfengt en það var þó það sem farið var eftir) en konan. Það á ekki við um sýslumannsstöðuna á Húsavík. Jóhanna Sigurðardóttir varði ráðninguna í Stjórnarráðið en baðst þó afsökunar síðar. Hún fór ekki í Edit Piaf stellingar eins og Ögmundur.

**** Gísli málbein hefur bent á ömurleika busavígslna og fær yfir sig dembu af óþroskuðum krökkum sem finnst hann bara leiðinlegur að vera að tuða þetta.

Efnisorð: , , , , , , ,