sunnudagur, ágúst 26, 2012

Dekkjaskipti kynjanna

Fyrir mörgum árum var kunningi minn farþegi í rútu ásamt samstarfsmönnum sínum, eintómum karlmönnum, í vinnustaðadjammferð. Þegar sprakk á rútunni bað bílstjórinn, karlmaður á miðjum aldri, farþegana að aðstoða sig við að skipta um dekk. Þetta þótti viðstöddum fjarstæðukennd hugmynd og hlógu stórkarlalega. Bílstjórinn var hjartveikur og treysti sér ekki í að lyfta rútudekki, og þegar hann hafði útskýrt það voru loks einhverjir sem sáu sóma sinn í að skipta um dekk fyrir hann.

Fyrir álíka mörgum árum var ég ásamt vinkonu minni á ferð í húðarrigningu þegar sprakk að framan hjá mér. Þegar ég var nærri hálfnuð að skipta um dekk stöðvaði lögreglubíll fyrir aftan mig og út steig lögga sem spurði hvort hann gæti aðstoðað.* Enda þótt ég hafi margsinnis verið í þeim aðstæðum að lögregluhjálp hefði verið vel þegin (og stundum beðið um hana og ekki fengið) þá fannst mér þetta fjarstæðukennt tilboð. Leit ég ekki út fyrir að geta þetta sjálf? Stóð ég ráðalaus útvið vegarkant og veifaði á hjálp? Ef svo hefði verið hefði auðvitað öðru máli gegnt. En löggan gerði umsvifalaust ráð fyrir að kona væri ófær um að sinna jafn einföldu verki og að skipta um dekk á fólksbíl.

Það er stór munur á því að treysta sér ekki í eitthvert verk, s.s. dekkjaskipti, heilsu sinnar vegna eða vegna vankunnáttu** eða líta svo á að karlmenn geti alltaf og við allar aðstæður skipt um dekk og konur geti aldrei við neinar kringumstæður gert það. Biðji fólk um hjálp á hinsvegar að vera sjálfsagt að veita hana.

Mér finnst ekkert fallegt við gamlar kreddur um hlutverk kynjanna.

En svo ég botni nú söguna um lögguna sem bauð mér aðstoð sína í rigningunni, þá svaraði ég honum svona: þú gætir lánað mér regnstakk.

___
* Þetta var í íbúðargötu og ég var ekki fyrir neinum, svo að ástæðan fyrir hjálpseminni var ekki sú að ég teppti umferð.
** Sumt fólk kann ekki að skipta um dekk (þó hélt ég að allir lærðu það í ökunáminu) frekar en önnur verk sem það hefur ekki unnið áður, þá er ekki skrítið að það þurfi einhverskonar aðstoð í fyrsta sinn. ( Einar Karl benti á bloggfærslu þar sem t.d. má sjá karlmenn sem ætla að skipta um dekk og þurfa að lesa leiðbeiningabæklinginn með bílnum því þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera.) Svo er til fólk sem er óhandlagið og hefur sannreynt að það getur ekki unnið ákveðið verk, gerir t.d. gat á stærð við hamarshaus á vegginn þegar það ætlar að hengja upp mynd; þá er lítið annað að gera en biðja um hjálp í næsta sinn frekar en eyðileggja húsið. Úr því að ég er farin að vitna í þessa grein (sem er reyndar tilefni skrifa minna) þá kom mér á óvart að hún var ekki grín. Mér hafði ekki dottið annað í hug en að þetta væri ádeila á forn kynhlutverk.

Efnisorð: