föstudagur, september 21, 2012

Gengisfelling orða

Pistillinn „Ofbeldiskonur“ eftir Heiðu B. Heiðars vakti athygli mína en innihald hans reyndist annað en ég hélt. Hann fjallar semsé ekki um konur sem beita ofbeldi heldur konur sem meina barnsfeðrum sínum um að hitta börnin. Ástæður þess að þær leyfa ekki umgengni við börnin eru ekki ræddar (stundum er verið að forða börnunum frá því að vera hjá föður sem er í mikilli vímuefnaneyslu eða hefur beitt þau líkamlegu ofbeldi) en því hiklaust haldið fram að fái ekki faðir að ekki að hitta börn sín sé það ofbeldi. Hvernig hægt er að kalla það ofbeldi er mér fyrirmunað að skilja, kannski fá barnsfeðurnir marblett aðra hverja helgi.

Þegar talað er um ofbeldi á fólk oftast við líkamlegt ofbeldi; það er yfirleitt tekið fram þegar átt er við kynferðislegt ofbeldi eða andlegt ofbeldi. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða, en ofbeldi skal það heita samkvæmt greinarhöfundi, sem situr í stjórn Félags um foreldrajafnréttti (áður Ábyrgir feður).*

Í athugasemdakerfinu (úff, DV) ægir svo saman 'allskyns' ofbeldi. Sumir tala um andlegt ofbeldi kvenna gegn körlum, aðrir líkamlegt ofbeldi sem konur beita börn ogsvoframvegis. Fæstir líta sömu augum á ofbeldi og greinarhöfundur. Samkvæmt henni er ofbeldi að leyfa ekki einhverjum eitthvað. Þeirri skilgreiningu deili ég ekki með henni.

___

* Ég er ekki að mæla því bót þegar fólk beitir börnum fyrir sig til að hefna sín á fyrrverandi maka (þann leik leika bæði karlar og konur) en ég mun seint kalla það ofbeldi.

Viðbót: Talandi um félagsskapinn Ábyrga feður (nú Félag um foreldrajafnrétti) og ofbeldi. Hér er pistill um Bjarka Má Magnússon, einn þeirra sem sat í stjórn Ábyrgra feðra. Þeir eru nefnilega ekki allir engilbjartir sakleysingjar, karlarnir sem krefjast aukinnar umgengni eða forræðis yfir börnum sínum, og stundum er bara frekar skiljanlegt að mæðurnar vilji ekki láta börnin í hendurnar á þeim.

Efnisorð: , ,