Jóhanna og tilkynningin
Það er eiginlega ómögulegt að ræða um þá tilkynningu Jóhönnu Sigurðardóttir að hún ætli að hætta í stjórnmálum án þess að síðustu ár hennar sem forsætisráðherra yfirgnæfi allan þingmannsferilinn þar á undan. Jafn ómögulegt virðist vera að aðskilja forsætisráðherraferilinn frá störfum núverandi ríkisstjórnar.
En svo það sé á hreinu þá hefur Jóhanna alltaf verið framúrskarandi þingmaður og er greinilega í stjórnmálum af hugsjón en hvorki í hagsmunagæslu fyrirtækja né til að skara eld að eigin köku. Hún hefur haldið heilindum sínum alla þá áratugi sem hún hefur verið á þingi, en þar eru eins og kunnugt er þingmenn sem þessi lýsing á ekki við um. En þó Jóhanna standi styrkum fótum sem stjórnmálamaður hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir hana að taka að sér að stýra ríkisstjórn sem fyrirsjáanlegt var að yrði óvinsæl. Skítmokstur er ekki skemmtilegur og þeir sem er verið að þrífa upp eftir kunna greinilega ekki að meta hreinsunarstarfið.
Ríkisstjórninni, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur þó tekist fjandi margt og sumt framar vonum. Hver hefði til dæmis trúað að vinstristjórn hefði góð tök á fjármálum? Jón Steinsson hagfræðingur sagði t.a.m. nýlega að henni hafi gengið vel að koma hagkerfinu aftur á rétta braut eftir hrunið. Miðað við hve silkifóðrið í ríkiskassanum var illa farið og með snýtuförum, þá er merkilegt að sjá að hér er að mestu leyti allt í góðum gír.
Það er líklega rétt ákvörðun hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að hætta. Hún tók við einhverju erfiðasta búi sem um getur og hefur staðið sig afar vel þrátt fyrir óvægna gagnrýni frá stjórnarandstöðu í tilvistarkreppu, kvótastyrktu málgagni ritstj. og öðrum hrunvöldum og hrunverjum. En nú er hún að verða sjötug og enda þótt hún hafi fullt starfsþrek og langlífi ættingja hennar bendi til þess að hún eigi mikið eftir, þá er skynsamlegt af henni að hætta núna. Hún er heldur ekki ómissandi fremur en aðrir (betur væri ef forsetinn gæti skilið þau einföldu sannindi).
Seta Jóhönnu í embætti er söguleg fyrir marga hluta sakir, hún hefur leitt fyrstu hreinu vinstristjórnina á Íslandi og er fyrsti forsætisráðherra (líklega í heimi) til að vera opinberlega samkynhneigð, auk þess sem hún er fyrsta konan til að gegna því embætti á Íslandi.
Þó Jóhanna hafi enn ekki látið af störfum er henni hér með þakkað allt hennar óeigingjarna starf sem þingmaður og nú síðast forsætisráðherra.
<< Home