fimmtudagur, júní 29, 2006

Vændi

Þegar rætt er um vændi er reynt að láta líta út fyrir að vændi hafi alltaf verið til og karlmenn hafi alltaf sótt í það. Ég man nú svo langt aftur að það þótti meiriháttar skömm að kaupa sér vændiskonu. Allir almennilegir karlmenn gætu náð sér í konu og það væri ókarlmannlegt að þurfa að borga fyrir dráttinn. Nú afturámóti er látið sem það sé náttúrulögmál að menn þurfi að hafa aðgang að vændiskonum (ég tel strippara með þeim enda einkadans ekkert annað en vændi) hér á landi. Ég vil afturámóti meina að sé sænska leiðin notuð – karlmenn verði saksóttir fyrir að kaupa vændi – þá verði það skömm að nást við slíka iðju og smám saman leggist það að mestu af. Og vísa í að hér á landi (enda þótt vændi hafi eflaust verið stundað þá var það þó skammarlegt og ekki í hávegum haft) hafi þetta augljóslega breyst og hljóti því að geta breyst til baka. Vændis’þörf’ er ekki fasti.

Efnisorð:

þriðjudagur, júní 27, 2006

Boston Legal böggar Bush

Einn er sá þáttur á Skjá einum sem mér hugnast betur en aðrir. Það er Boston Legal. Jújú, það er svosem það sama uppá teningnum þar og í öðrum þáttum; allar konurnar ungar grannar og glæsilegar. Og þær eru allar í stuttum pilsum og með skyrtuna fráhneppta. Áreitnin sem þær verða fyrir á vinnustaðnum er svo mögnuð að setja þurfti eldri konu í starf einkaritara Alans Shore, bara til að halda honum á mottunni. En burtséð frá því þá hefur þessi þáttur ýmislegt sér til ágætis. (Allar Hollywood myndir og sjónvarpsþættir eru stappfullir af stereótýpum og hallærislegri framkomu við konur, það er hinsvegar ekki oft sem þeir hafa neitt sér til ágætis.) Í Boston Legal eru nefnilega oft mjög umdeild mál tekin fyrir og reifuð, yfirleitt af Alan Shore sjálfum (sem er unaðslega leikinn af James Spader) og er líklega vandfundinn sá mainstream sjónvarpsþáttur, sem annars gengur út á spé og stelpur í stuttum pilsum, sem tekur slík mál fyrir. (Þess ber að geta að eitt meginþema þáttanna er reyndar ekki sætar stelpur heldur hin blússandi hómóerótík milli Alan Shore og Denny Crane.)

Í einum þættinum var tildæmis kona sem ætlaði í mál við bandaríska herinn fyrir að plata bróður hennar til að skrá sig til herþjónustu, halda honum svo lengur en til stóð í Írak þar sem hann lést við að sinna verkefni sem hann hafði ekki hlotið þjálfun til. Þrátt fyrir góðar röksemdir þá kom í ljós að bandaríski herinn er undanþeginn málsóknum af þessu tagi og málinu var því vísað frá. Samt var þátturinn snilld. Það náðist nefnilega að koma því að (sem Michael Moore hefur líka bent á) að Bandaríkjaher platar illa upplýst ungmenni til að skrá sig í herinn á röngum forsendum. Og það komst vandlega til skila að það sé ekki hægt að kæra herinn fyrir eitt eða neitt.

Reyndar er það svo, í þáttunum, að í hvert einasta sinn sem eldfim málefni eru tekin fyrir (umdeild mál innan Bandaríkjanna og þá oftar en ekki mál sem Bush-stjórnin er gagnrýnd fyrir), þá tapar hinn góði málstaður, sbr. að konan gat ekki farið í mál við herinn. Það er örugglega gert til þess að ekki sé hægt að gagnrýna þáttinn fyrir einhliða áróður því alltaf er hægt að benda á að umdeildu málin fari halloka og Bush og félagar vinni öll mál. Sem er ótrúlega útsmogið og snjallt af þáttagerðarfólkinu.

Í nýjasta þættinum er t.d. kona frá Nepal sem missti fóstur vegna þess að Bandaríkjastjórn dró til baka fjárframlög til heilsugæslu sem hún sótti á þeim forsendum að hvatt hefði verið til fóstureyðinga með auglýsingu á vegg heilsugæslunnar. Kom fram að frá og með Mexíkó ráðstefnu yfirlýsingunni – Mexico City Policy – árið 1984 hefði Reagan stjórnin neitað fjárstyrkjum til þeirra sem annars hefðu hlotið þá utan Bandaríkjanna á sviði ‘fjölskylduráðgjafar' (undir það flokkast víðtæk heilsugæsla til kvenna og ungbarna), væri á nokkurn hátt hvatt til fóstureyðinga eða þær framkvæmdar. Bandaríkjastjórn hefur annars stutt við fjölskylduráðgjöf víða um heim. En hér var fyrirslátturinn sá að með Mexíkó-skilyrðunum væri verið að reyna að koma í veg fyrir skipulagðar fóstureyðingar eins og í Kína. Bush eldri hélt þessari stefnu en Clinton afnam þetta skilyrði 1993 á fyrsta degi sínum í embætti og skiptir þar mestu afstaða hans til fóstureyðinga sem kvenréttindamáls. Fyrsta verk Georg W. Bush var að setja aftur þetta skilyrði í gildi sinn fyrsta dag í embætti í janúar 2001 og það var sömuleiðis vegna afstöðu hans til kvenréttinda og fóstureyðinga en ekki vegna athæfis kínverskra stjórnvalda.

Rúm 30 ár eru síðan hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að fóstureyðingar ættu að vera frjálsar. (Hinn frægi Roe vs. Wade dómur frá 1973) Alla tíð síðan hefur hópur ofsatrúarmanna og andstæðinga kvenréttinda unnið að því að snúa þeim úrskurði við. Nú á seinna kjörtímabili Bush yngri hefur hann sett tvo nýja hæstaréttardómara í embætti og eru þeir báðir harðlínumenn að hans skapi og andsnúnir fóstureyðingum. Nái Bush að koma enn einum af sínum mönnum þar inn má búast við að hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að fóstureyðingar eigi að vera ólöglegar – og eigi að banna þær í öllum fylkjum Bandaríkjanna – og séu þar engin undanskilin enda þótt enginn vilji sé fyrir slíku banni í einstaka ríkjum.

Á þetta var bent í Boston Legal þættinum sem sýndur var nú í vikunni. Ennfremur að Mexíkó-skilyrðið sé kallað „global gag rule“ því með því sé Bandaríkjastjórn að múlbinda önnur ríki til að þegja um fóstureyðingar, og vinni Bandaríkjastjórn þannig gegn tjáningarfrelsi sem þeim sjálfum er svo heilagt. Og hræsnina sem felist í því. Fyrst og fremst var þátturinn afar góð umfjöllun – þó á afmörkuðu sviði væri – um afstöðu Bandaríkjastjórnar til fóstureyðinga.

Í Bandaríkjunum eru eins og staðan er nú „frjálsar fóstureyðingar.“ (Á Íslandi eru fóstureyðingar ekki frjálsar, meira um það seinna.) Í raun er mjög erfitt að komast í fóstureyðingu í mörgum fylkjum enda mikil andstaða við þær og margir læknar þora ekki að framkvæma þær af ótta við að vera drepnir fyrir vikið. Stór sjúkrahús, rekin af trúfélögum, neita sum hver að framkvæma fóstureyðingar og kannski ekki öðrum spítölum að dreifa á stóru svæði. Fóstureyðingar eru þar að auki ekki ókeypis og kostnaðurinn vex mörgum ungum stúlkum í augum, sérstaklega þeim sem ekki treysta sér til að segja nákomnum frá og geta því ekki beðið um fjárhagsaðstoð frá þeim. Verst er þó ástandið í Suður-Dakóta, þar náði kaþólskur ríkisstjóri að banna fóstureyðingar alfarið í öllu fylkinu, var þó aðeins einn staður sem framkvæmdi þær. Engar undantekningar eru leyfðar nema líf konunnar sé í hættu, en ekki vegna nauðgana eða sifjaspella. Með þessari lagasetningu er Suður-Dakóta að knýja fram lögsókn sem svo hæstiréttur verður að úrskurða um og vonast andstæðingar fóstureyðinga til að þá verði Roe vs. Wade dómurinn felldur úr gildi.

Auk þess sem ég finn til með konum í Bandaríkjunum vegna þessa síversnandi ástands, þá hef ég um hríð haft áhyggjur af því að þrengt yrði að rétti kvenna til fóstureyðinga hér á landi. Sú ríkisstjórn – sem er reyndar nýfarin frá völdum – sem vildi allt gera til að ganga í augun á Bush, þar með talið að skrifa uppá stuðningsyfirlýsingu með stríði, finnst mér allt eins líkleg til að ráðast gegn rétti kvenna. En kannski er hættan liðin hjá eins og ríkisstjórnin. Framsóknarflokkurinn sækir nokkuð fylgi til sérstrúarsafnaða og ofsatrúarfólks eins og þess sem sér um sjónvarpsstöðina Omega og Sjálfstæðisflokkurinn á vís atvæði þar á bæ líka. Á Omega er massífur áróður í gangi gegn fóstureyðingum (meira um það síðar) og spurning hvort ríkisstjórnin færi að daðra við trúarnöttarana með því að koma á móts við þá á þeim nótum. En ríkisstjórnin – sú gamla – stóð sig nú sæmilega í að efla réttindi samkynheigðra og það er klárlega ekki eftirsóknarvert fyrir Omega-liðið, svo kannski þarf ekki að hafa áhyggjur. Og kannski þarf ekki heldur að hafa áhyggjur af einstaka frjálshyggjupostula sem alltíeinu og uppúrþurru segir að fóstureyðingar séu slæmar, heldur líta á það sem undantekningu sem sanni regluna að Íslendingar séu almennt og upp til hópa hlynntir réttinum til fóstureyðinga.

Við verðum samt að vera á verði og fylgjast vel með því sem er að gerast í Bandaríkjunum. Við öpum margt upp eftir þeim, bæði gott og slæmt. Eitt af því góða sem við höfum fengið frá þeim er Boston Legal.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júní 20, 2006

Trigger, ekki hesturinn

Mig vantar íslenska þýðingu á „trigger.“ Mér nægir ekki alveg orðabókarútskýringin „hrinda af stað,“ því hún nær ekki að koma því sem ég þarf til skila. Það sem er að vefjast fyrir mér er það sem ég oft sé hjá enskumælandi bloggurum og hljóðar svona: „Warning, may be triggering.“ Eða bara, „Warning. Trigger.“ Á eftir fylgir svo einhver fremur hroðaleg lýsing á atburðum sem einhver lesenda bloggsins gæti hafa reynt á eigin skinni. Slíkt getur orðið til að rifja atburðinn upp fyrir lesandanum og hún jafnvel fallið í þunglyndi eða upplifað PTSD (post traumatic stress disorder) á annan hátt. Trigger-viðvörunin er því mjög mikilvæg ætli bloggari sér að fjalla um hluti sem ekki allar treysta sér til að lesa. Auðvitað geta sumir lesendur, jafnvel þó þær hafi vonda lífsreynslu að baki, alveg lesið slíkar lýsingar og svo aftur aðrar, sem enga reynslu hafa af slíku, alveg farið yfirum við að lesa þær, en betra er þó að vara fólk við. Mér finnst frekar langsótt að skrifa: „Varúð, eftirfarandi bloggfærsla getur hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum,“ og vil því helst finna eitthvað snaggaralegra. En kannski læt ég hina löngu útskýringu duga til að byrja með.

Þó er það ekki svo, að ég ætli núna að skrifa eitthvað sem fólki getur orðið ómótt af að lesa, en þetta blogg mun fjalla að talsverðu leyti um nauðganir, klám og vændi. Það er ekki geðslegt að lesa um slíkt og verður reynt að vara við því eftir föngum. Líklegt er þó að sú sem hér skrifar sé orðin ónæm að einhverju leyti og átti sig ekki alltaf á hvenær mörk geta legið.

Það mættu reyndar vera viðvaranir í fleiri tilvikum. Það hefur ekki ósjaldan gerst á undanförnum árum, að undirrituð hefur farið á leikhús í sakleysi sínu og fengið framaní sig nákvæmar lýsingar, ýmist í orðum eða gerðum, á kynferðislegu ofbeldi sem beitt er gegn konum. Og kom þó hvergi fram í leikskrá eða gagnrýni blaðanna að slíkt væri að finna í verkinu. Það er ekki þægilegt að ætla að eiga upplífgandi og menningarlega stund og vera svo með hjartslátt af ótta og finna hvernig vanmáttartilfinningin breytist í illa hamda reiði, langa til að sparka í sætisbakið hjá kallinum sem situr fyrir framan og hefur örugglega gert svona ógeðslega hluti við einhverja konu. Koma út, miður sín og þurfa að hlusta á velþóknunarsamkvæmishjal í hléinu eða í fatahenginu þar sem fólk talar um hvað þetta hafi nú verið vel lukkað og skemmtilegt.

Annaðhvert leikhúsverk virðist vera um kynferðisofbeldi eða innihalda það á einhvern hátt. Og bíómyndir líka. Það virðist hafa verið skemmtilegasta uppgötvun sem handritshöfundar gerðu á ofanverðri síðustu öld, að hægt væri að skrifa endalausar útgáfur á því hvernig og við hvaða aðstæður væri hægt að ráðast á konur og nauðga þeim. Kynferðisbrot gegn konum höfðu áður legið í þagnargildi konum til skaða, en nú var hægt að nota þau sem fóður í bíómyndir, leikrit og sjónvarpsþætti. Sjáið Law and Order, Special Victims Unit. Sá þáttur fjallar eingöngu um kynferðisbrot (líklega gegn börnum líka, ég hef ekki haft geð í mér að horfa oft á hann) og þar eru þolendur auðvitað alltaf glæstar grannar konur, sem svo áhorfendur fá að sjá limlestar og dauðar, að undangengnu atriðinu þar sem sýnt er hvernig þær enduðu svona limlestar og dauðar. Eða CSI? Þar er eins og það sé verið að ala upp fetishisma í áhorfendum fyrir fögrum nöktum dauðum konum. Í öllu falli er verið að gera kynferðisbrot gegn konum að féþúfu (exploitation). Afar smekklegt.

Eftir að hafa horft á milljón bíómyndir, og þá er ég bara að tala um mainstream Hollywood framleiðslu, þá eru áhorfendur reyndar orðnir nokkuð skilyrtir fyrir hvaða konur eigi að sjást í bíó og sjónvarpi. Þær eiga að vera síðhærðar, hávaxnar, grannar en þó með stór brjóst sem eru klesst saman og uppávið svo þau myndi brjóstaskoru. Þetta eru nánast einu konurnar sem sjást og nú sjáum við þær limlestar, dauðar. Ef við erum orðin svona skilyrt á útlit kvenna, verður þá ekki skilyrði fljótlega að þær verði allar svolítið limlestar í öllum mainstream myndum?

Í klámmyndum er sársauki sem konur finna fyrir, eitt það helsta sem spilað er á, á eftir niðurlægingunni. (Meira um það síðar, ég er ekki komin með nógu lipra þýðingu á trigger-viðvörunni). Og með því að horfa á kvikmyndir, sjónvarpsþætti og leikrit sem fjalla um þetta efni, á mjög misjöfnum nótum – stundum tekst að gera þannig að það dregur athyglina að vandamálinu án þess að níðast á því – þá er verið að gera kynferðisofbeldi gegn konum að daglegum, nánast sjálfsögðum hlut. Með því er gert mjög lítið úr þjáningum fórnarlambanna og hérumbil sagt við þær að þetta sé nú eitthvað sem sé alltaf að ske og óþarfi að gera sér rellu út af því. Sannarlega er kynferðisofbeldi gegn konum daglegt og ótrúlegur fjöldi kvenna verður fyrir því á degi hverjum. En það má aldrei verða þannig að við verðum ónæm fyrir því.

Efnisorð: , , , ,

Manifesta

Ég er hér til að segja álit mitt – ekki til að heyra álit ykkar á mér. Ég kæri mig ekki um gagnrýni. Mig langar ekki einu sinni að hafa síu, sem gefur mér færi á að stoppa sumar athugasemdir en hleypa þeim sem ég er sammála í gegn. Það myndi bara þýða að ég sæti ein uppi með svívirðingarnar. Og ég veit að athugasemdakerfi blogga eru full af svívirðingum. Stundum á ég bágt með að hella ekki úr skálum reiði minnar inná athugasemdakerfi einhvers fávitans, en hingað til hefur mér tekist að halda aftur af mér. Þangað til núna. Nú fáið þið það óþvegið. Og til að bæta gráu ofan á svart ætla ég að dyljast fyrir ykkur, stela efni frá ykkur og níða niður ættingja ykkar. Þó er það ekki svo að mér sé ekkert heilagt. Mér er mjög margt heilagt. En þið hafið gert ykkur sek um að níða það niður, á einn eða annan hátt. Ég er ekki Andri Snær. Ég get ekki skrifað massífa gagnrýni sem er samt jákvæð og uppbyggileg. Þó ég dáist að slíkum eiginleikum er ég algerlega laus við þá sjálf. Ég er bölsýn og bitur og nýt þess að flagga geðillsku minni í hálfa stöng.

Ég hef látið mörg bloggtækifæri fram hjá mér fara. Og líklega mun ég öllum á óvart ræða mál sem öðrum eru gleymd eða nenna ekki lengur að tala um. Hafa jafnvel sagt umræðuna dauða. Umræðan er ekki dauð fyrr en ég segi svo. Ef mér dettur í hug að æsa mig yfir fjárkláðamálinu þá er það aktúelt. Líklega verð ég samt svo æst yfir hverju smámáli sem upp kemur, svo ákveðin í að leggja orð í belg, að ég ofreyni mig og lýsi bloggið dautt. Spurning um hve lengi ég endist. Sko, þarna er ég strax byrjuð á bölsýninni, gott hjá mér. Um að gera að halda yfirlýstri stefnu.

Eitt af því sem mig langaði mjög að blogga um, var danska skopmyndamálið. En þá stóð ekki vel á hjá mér til að hefja bloggskrif – vildi ekki bara skrifa einu sinni og svo aldrei meir – svo ekkert varð úr því. Helvíti óheppilegt, því ég hafði alltaðrar skoðanir á því en flest önnur.

Í stuttu máli.

Mér finnst að prentfrelsi og málfrelsi sé stórlega ofmetið og að myndirnar hefðu aldrei átt að vera birtar. Hef ekki kynnt mér það eins nákvæmlega og ég ætlaði mér, en er nokkuð viss um að hugmyndin um prent-og málfrelsi kom fyrst fram í bandarísku stjórnarskránni – nú eða þeirri frönsku – og að meiningin hafi verið sú að halda aftur af þeirri ágengu tilhneigingu stjórnvalda að þagga niður í þegnum sínum og meina þeim að gagnrýna sig. Málfrelsi og prentfrelsi átti örugglega aldrei að vera til að gefa þegnum leyfi til að níða skóinn af hverjum öðrum á opinberum vettvangi, hvorki einstaklingum né hópum.

Og mér finnst að það megi taka tillit til þess að múslimar hafa aldrei leyft neinar myndir af Múhameð, ólíkt kristni, þar sem kirkjan hefur hvatt til að gerðar séu myndir af Jesú og fjölskyldu frá upphafi. Þannig að það að gera skopmyndir af Múhameð á sér ekki fordæmi í „venjulegum“ myndum af honum, en afturámóti grínmyndir af Jesú hafa viðgengist lengi. Hafa þær þó valdið illdeilum og mörgum finnst þær allar vera guðlast. Aðrir brosa góðlátlega en fara svo á límingunum þegar ádeilan verður grínlaus, eins og gerðist t.d. þegar myndlistarverkið Piss Kristur var sýnt. Mér finnst líka að það sé ekki sama hver deilir á eða gerir grín að.

Kaþólskur listamaður (eins og Andres Serrano) hefur að mínu mati rétt á að gagnrýna kaþólsku kirkjuna – og aðrar kristnar kirkjudeildir – en ætti að sleppa því að hamast gegn múslimum eða þeirra háttum. Eins ættu aðrir trúarhópar að líta í eigin barm en láta vera að gagnrýna aðra.

Við trúleysingjarnir megum hinsvegar hía á alla.

Efnisorð: ,