miðvikudagur, mars 29, 2017

Örugglega rangur Ólafur

Álytun eftir blaðamannafund rannsóknarnefndar Alþingis á aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum Búnaðarbankans:

Ingibjörg Kristjánsdóttir eiginkona Ólafs Ólafssonar er sest við lyklaborðið og innan tíðar birtist harmagrátur og yfirlýsing um sakleysi Ólafs í blekkingarleiknum við kaupin á Búnaðarbankanum.

„Hann Ólafur minn er saklaus Ólafur. Minn Ólafur er ofsóttur Ólafur. Rannsóknarnefndin á við hagsmunatengsl að stríða og er haldin samfélagslegri reiði. Þjáðar eiginkonur saklausra manna sameinist!“

Efnisorð:

mánudagur, mars 27, 2017

Mývatn

Um árabil hefur allt slæmt verið að frétta af Mývatni. Lífríki vatnsins hefur verið ógnað í áratugi af mannavöldum. Að vísu er deilt um hve mikinn skaða mannana verk gera og hvað sé hægt að flokka undir náttúrulegar sveiflur eða önnur uppátæki náttúrunnar. En okkur ber að láta náttúruna njóta vafans, og hreinsa upp eftir okkur það sem er sannarlega okkar, og forðast eftir megni að gera illt verra. En í staðinn hefur gistirýmum fjölgað um á annað hundrað herbergi við Mývatn.

Lífríki Mývatns undir miklu álagi, eins og segir í frétt Svavars Hávarðssonar síðastliðið vor:
- Óhemju magn blábaktería í Mývatni tvö síðastliðin sumur er skýrt merki ofauðgunar í vatninu af mannavöldum.
- Niðurstöður mælinga í fyrrasumar sýndu tólffalt það magn sem talið er óhóflegt í leiðbeiningum WHO.
- Engum vafa er talið undirorpið að athafnir manna hafi aukið bakteríuvöxtinn svo óhóflega með losun næringarefna í Mývatn – og þar komi meðal annars til frárennsli frá þéttbýli, áburðargjöf og iðnrekstri.
- Kúluskítur sem er friðlýst tegund virðist vera horfinn úr Mývatni.
- Bleikja er á undanhaldi á svæðinu – stofninn er svo gott sem horfinn.
-Hornsílastofn Mývatns mældist afar lítill í fyrrasumar.
- Mikill ferðamannastraumur setur aukaálag á vistkerfi svæðisins bæði hvað varðar fráveitur og ágang á náttúruverndarsvæði.*

Í fimm ár hefur ár hefur Umhverfisstofnun hvatt til þess að gripið sé strax til aðgerða, en ekkert hefur verið að gert. Á síðasta ári kom í ljós að frárennslismál voru til skammar, fráveituvatn og skólp látið gossa útí vatnið eins og enginn væri morgundagurinn. En vegna þess að ferðamenn sækja Mývatn heim í stórum stíl þá eru helstu framkvæmdir við vatnið ekki þær að laga frárennslismál heldur fleiri og stærri hótel.

Jafnvel þótt búið sé að skilgreina hve nálægt vatninu má byggja – ekki nær bakkanum en tvö hundruð metra — heimtuðu Icelandair Hotels sem eiga hótel Reykjahlíð sem stendur nær vatninu en það, að fá að byggja meira, stærra. Það átti að sjöfalda gistiplássið þarna alveg við vatnsbakkann. Sveitarstjórnin var tilbúin að breyta aðalskipulaginu til að koma til móts við þessar fyrirætlanir (reyndar var sveitarstjórnin klofin í málinu) og lóðaeigendur sitthvoru megin við hótelið voru líka alveg til í að leyfa að aukið byggingamagn á vatnsbakkanum en undirskriftalisti íbúa Mývatnssveitar** og úrskurður Umhverfisstofnunar komu í veg fyrir það. Það að hóteleigendur hafi ætlað að leggja í þessa framkvæmd ber auðvitað fyrst og fremst gullgrafaræði ferðaþjónustunnar vitni, en erfiðara er að átta sig á hvað sveitarstjórn og landeigendum gekk til.

Aðeins eitt hótel á svæðinu er sagt vera með fullkomna skólphreinsun – Hótel Laxá, nýjasta hótelið við vatnið (það er reyndar hótelið sem fjallað var um í Kastljósi þar sem afrennslismál hótelsins sérstaklega rædd en þau eru í algjörum ólestri og svindlað á reglugerð):
„Öll önnur hótel og önnur gistiaðstaða uppfyllir ekki þessi skilyrði, og að óbreyttu verður ekki annað séð en þau verði að leggja niður starfsemi sína. Gróft sagt er bara eitt löglegt gistiúrræði í Mývatnssveit,“
— og það er semsagt ekki Hótel Reykjahlíð sem uppfyllir kröfur um fráveitu, en samt átti að leyfa eigendum þess að stækka hótelið.

Í Kastljósþætti tók Helgi Seljan viðtöl við mann og annan og kom þá eitt og annað uppúr dúrnum, svosem einsog hagsmunaárekstrar oddvita Skútustaðahrepps sem einnig er hóteleigandi, og er síst með sín mál í betri farvegi en önnur hótel á svæðinu.*** Kannski skýrir það eitthvað linkindina gagnvart stækkunaráformum og nýjum hótelbyggingum sem fara á svig við reglugerðir eða hunsa þær alveg.

Sif Sigmarsdóttir súmmeraði stöðu Mývatns upp svona:
„Síðustu mánuði hafa borist fregnir af bráðri hættu sem stafar að lífríki Mývatns. Skútustaðahreppur hefur unnið að því að setja upp hreinsistöð við vatnið til að takmarka mengun í fráveitu sem rennur í náttúruperluna. Svo virðist hins vegar sem sveitarfélagið ráði ekki fjárhagslega við verkið. Landvernd hefur því skorað á ríkisstjórnina að aðstoða Skútustaðahrepp við að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í ásættanlegt horf svo koma megi í veg fyrir að lífríkið þurrkist út.

Ómar Ragnarsson skrifaði grein í Fréttablaðið í vikunni þar sem hann sendi út neyðarkall fyrir hönd lífríkisins í Mývatni. Þar varaði hann við „kyrkingu einstæðs og heimsfrægs lífríkis“ sem hann sagði komna vel á veg. Hætta er þó á að neyðarkalli Ómars verði ekki svarað. Í grein sinni rifjaði hann upp að fyrir fjórum árum hefði hann sent út sams konar neyðarkall í sama blaði. Hann spyr: „Heyrir enginn? Hlustar enginn?“

Flestar þær greinar sem hér hefur verið vitnað til eru úr greinaflokki Svavars Hávarðssonar um Mývatn (hann var fyrir vikið tilnefndur til blaðamannaverðlauna) og voru flestar skrifaðar í maí í fyrra (t.d. þessi sem heitir „Staðreyndir öskra á aðgerðir við Mývatn“). Þá var stutt í að þáverandi umhverfisráðherra skilaði skýrslu um „viðbrögð stjórnvalda við þeim djúpstæða vanda sem kominn er upp við Mývatn“, í sömu frétt segir að á þinginu hafi komið fram
„þverpólitískur vilji til þess að stjórnvöld brygðust tafarlaust við, og sú krafa að tafarlaust kæmi til fjárveiting til handa Skútustaðahreppi til að hefja umbætur á fráveitumálum sveitarfélagsins – einum af þeim þáttum sem mannshöndin getur sannarlega haft áhrif á í hinu flókna samspili sem sambúð manns og náttúru er við Mývatn.“
Magnús Helgason spurði í leiðara hvort sérlögin um Mývatn og Laxá væru ekki afdráttarlaus um að stjórnvöldum beri einfaldlega skylda til að bregðast við strax. Það var í maí í fyrra.

Í dag segir svo frá því að enginn þeirra þriggja ráðherra — Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Jón Gunnarsson ráðherra sveitarstjórnarmála — sem hafa völdin í hendi sér gagnvart fráveitumálum við Mývatn, hafi tekið af skarið. Ekkert fé hefur verið lagt til umbótanna en Skútustaðahreppur ræður ekki við það verkefni einsamalt. Það er því ekkert að gerast sem bætir ástandið. Og í sumar er von á fleiri túristum og meira skólpi frá hótelunum við Mývatn.

Pistill Sifjar, sem vitnað var til hér að ofan, endar svona:
„Það er rangt hjá vísindamönnunum í Oxford að helstu hættur sem stafa að mannkyninu séu vélmenni, kjarnorkusprengjur eða farsóttir. Mesta ógn sem fyrirfinnst á jörðinni nú um stundir er okkar eigið andvaraleysi. Spyrjið bara Ómar Ragnarsson og lífríkið í Mývatni.“

___

* Úr frétt Svavars Hávarðssonar 13. maí 2016: „Fráveitumál í Mývatnssveit og ofauðgunarástand í Mývatni hefur verið á dagskrá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands Eystra (HNE) um árabil. Í fundargerð heilbrigðisnefndar HNE frá 7. maí 2014 er að finna ályktun sem er að stórum hluta sú sama og birtist á þriðjudag. Var hún skrifuð eftir málþing um þann vanda sem við er að glíma, en áður en óhemju magn blábaktería mældist í Mývatni tvö síðastliðin sumur, þar sem niðurstöður mælinga sýndu tólffalt það magn sem talið er óhóflega mikið í leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
„Í erindi Árna Einarssonar líffræðings kom fram að mjög stór breyting hefur orðið í Mývatni undanfarin ár; þörungamotta á botni vatnsins er algerlega horfin; líklega vegna næringarefnamengunar af mannavöldum. Ástæða þessa er líklega að það vantar birtu í vatnið; bakteríur í vatninu grugga það og skyggja þannig á botninn […] er nauðsynlegt að byggja vönduð hreinsivirki fyrir skólp fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð, Voga og Skútustaði og víðar þar sem byggð er þétt á vatnasvæði Mývatns.“

** Á svipuðum tíma og íbúar við Mývatn söfnuðu undirskriftum gekkst Landvernd fyrir undirskriftasöfnun þar sem farið var fram á að stjórn Landsvirkjunar stöðvaði framkvæmdir við fyrirhugaða Bjarnarflagsvirkjun og vinni nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Andri Snær skrifaði þetta í mars 2013:
„Hvernig eru áhyggjur manna af borunum Landsvirkjunar of nærri Mývatni, áhrifum á ferksvatnsstrauma inn í vatnið, áhrif á grunn lífríkisins sem gerir Mývatn að einhverju sérstæðasta vatni í veröldinni? Hvernig haga menn sér nærri slíkri perlu – er von á næstu dánartilkynningu eftir 10 ár: Mývatn er dautt?

Nú liggur fyrir risavaxin meðgjöf af hálfu ríkisins til Kísilverksmiðju á Bakka. Hún þarf aðeins 10% af orku sem álver þyrfti á að halda en samt sem áður þarf að taka gríðarlega áhættu nærri bökkum Mývatns, til að ná í þessa litlu orku.“

*** Kastljósþáttinn má sjá hér, og hér má lesa uppskrifaðan texta hans. Daginn eftir kom forstjóri Umhverfisstofnunar í Kastljós. Einnig er vert að skoða aðrar fréttir af Mývatni á ruv.is. Þess má geta að sveitarstjórnarmaður í Skútustaðahreppi var mjög óánægður með Kastljósþáttinn, og gerði við hann miklar athugasemdir.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, mars 22, 2017

Fátæktarumræðan

Útvarpsþáttaröð Mikaels Torfasonar um fátækt er ekki hálfnuð en hefur nú þegar skapað mikla umræðu, sem því miður snýst meira um skoðanir þingmanna og ráðherra á þáttastjórnandanum og hvernig þeim líður undir skömmum hans heldur en hvernig eigi að taka á efnahagslegri og félagslegri mismunun. Í útvarpsþáttunum (sem nálgast má í Sarpinum og á hlaðvarpinu) ræðir Mikael við fátækt fólk um hvernig það varð fátækt og hvernig það sé að lifa við fátækt. Sumir viðmælenda hans eru í láglaunastörfum, einhverjir á bótum, sumir í félagslegu húsnæði, aðrir á almennum leigumarkaði.*

Egill Helgason bauð Mikael í Silfrið á sunnudaginn en fyrir í settinu sátu Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur, Gunnar Smári ritstjóri Fréttatímans, og Bjarkey Olsen þingmaður Vinstri grænna, en Jón Steindór Valdimarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og nú þingmaður Viðreisnar hvarf af vettvangi til að rýma fyrir Mikael. Umræðan hafði snúist um húsnæðismál en Jón Steindór var mjög á skjön við aðra, vildi ekki „félagsvæða allt kerfið“ (þ.e. félagslega uppbyggingu húsnæðis), fannst við hafa það „býsna gott“ og vildi tala um upptöku evrunnar (drepa málinu á dreif) meðan hin þrjú höfðu haldið uppi skynsamlegum málflutningi: Gunnar Smári ræddi m.a. fátækt; Bjarkey talaði fyrir mannsæmandi húsnæði og algildri hönnun; og Ragnar var með ágætar pælingar um kverktaka annarsvegar og viðlagasjóðshús hinsvegar auk þess að mæla með norrænu velferðarkerfi og blönduðu hagkerfi.

Þegar þeirri annars ágætu umræðu (að undanskildu öllu því sem Jón Steindór sagði) lauk var Jóni Steindóri skipt út fyrir Mikael Torfason. Sá síðarnefndi var greinilega snöggreiður yfir ummælum Jóns og fannst greinilega óþarfi að bjóða honum í þáttinn. Síðan brast á með ræðu svo enginn annar komst að (ekki er ljóst hvort Egill ætlaðist til að samræður héldu áfram eða hvort Mikael var eingöngu kominn til að kynna þáttinn) enda lá Mikael mikið á hjarta. Hann skammaðist tildæmis útí ríkisstjórnina, réttilega:
Mikael var mjög harðorður í garð ríkisstjórnarinnar, sem hann kallaði „ríkisstjórn atvinnulífsins“, og þá sérstaklega Þorsteins Víglundssonar, félagsmála- og jafnréttisráðherra. „Hann vill engin lög á leigufélög. Vegna þess að rétturinn til að græða á fátæku fólki er svo ríkur. Það er eignarréttur kvótakóngsins, sem græddi tvö þúsund milljónir í fyrra á því að leigja fátæku fólki sem hefur ekki efni á að kaupa sér íbúð,“ sagði Mikael. „Íslenskir kjósendur eiga líka bara að skammast sín, fyrir að kjósa verstu ríkisstjórn sem við höfum kosið.“ (úr frétt á rúv.is)
Líklega vegna þess að Mikael skammaðist bæði útí Þorstein Víglundsson félagsmálaráðherra og Jón Steindór sárnaði launuðum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar enn meir og í kjölfar þáttarins hrökk Nichole Mosty í vörn (einsog þegar hún varði Bjarna Ben eftir að hann hafði sjálfur játað í skýrslufeluleiksmálinu) og talaði einsog hinir fátæku viðmælendur Mikaels í útvarpsþáttunum væru ekki eins illa staddir og þeir vildu vera láta (ég lýsti vanþóknun minni á Nichole í síðasta pistli og náði ekki að hækka í áliti hjá mér við þessi viðbrögð hennar). Pawel Bartoszek skammaðist líka útí Mikael og félagsmálaráðherrann tók einnig þátt í að skjóta sendiboðann (meira um það síðar), í stað þess að leggjast yfir málefni fátæks fólks eða lofa bót og betrun. Hið síðarnefnda er sennilega óþarfa bjartsýni, Stundin bendir á að ekki er stakt orð um fátækt í stjórnarsáttmálanum.

Fátækt er semsagt komin á dagskrá, enda þótt flestir vilji heldur einbeita sér að sendiboðanum, en í þarsíðasta pistli hér á blogginu var einmitt meðal annars rætt um fátækt og hér hefur einnig verið rætt um og vísað í ótal greinar Björgvins Guðmundssonar um bág kjör aldraðra. Mikael Torfason er heldur ekki fyrsti fjölmiðlamaðurinn til að fjalla um fátækt frá ýmsum sjónarhornum (ekki að ég vilji vanþakka framtak hans). Fréttatíminn hefur t.a.m. mikið skrifað um málefnið. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði leiðara síðastliðið sumar um „gamla bitra konu“ sem missti vinnuna og getur ekki framfleytt sér á lífeyrisgreiðslum, „þrátt fyrir að hafa greitt í sjóðinn lungann úr starfsævinni“. Í nóvember síðastliðnum fjölluðu fjölmiðlar um skýrslu Rauða krossins (sem olli nokkru uppþoti og skýrsluskrifarinn mikið skammaður; kunnuglegt stef) þar sem fram kom að hundruð barna í Reykjavík búa við fátækt og bága félagslega stöðu.

Breiðholt (þar tekur Mikael útvarpsviðtöl sín) var sérstaklega nefnt í skýrslu Rauða krossins en í framhaldinu var gagnrýnt að hverfið væri „talað niður“. Bent var á að margt er vel gert af hálfu borgaryfirvalda í Breiðholti og sérstaklega rætt um fjölskylduverkefnið Tinnu sem er úrræði fyrir unga einstæða foreldra sem hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu til lengri tíma (við þetta verkefni ku Nichole Mostly hafa unnið áður). Og auðvitað er það ekki þannig að Breiðholtið sé slæmt þótt þar búi hæst hlutfall fátækra.**

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra kvartaði semsagt undan Mikael og þá sérstaklega því að:
„Mátti helst á máli hans skilja að ríkisstjórn sú sem tók við fyrir tveimur mánuðum síðan bæri ein ábyrgð á því velferðarkerfi sem hér hefur verið byggt upp á undanförnum áratugum.“
Þarna tekst Þorsteini að skauta framhjá því að á undanförnum áratugum hafa nánast alltaf (nema á versta krepputímanum) verið hægri stjórnir, og þær hafa verið afar áhugalausar um að bæta kjör láglaunafólks og bótaþega. En Þorsteinn er trúr hugmyndaheimi sinnar últra-hægri ríkisstjórnar og getur ekki fest hugann lengi við fátækt þótt hún sé umræðuefnið, og þessvegna fer hann með möntruna sem sífellt heyrist úr þeim herbúðum um að:
„kaupmáttur hafi aukist mikið á undanförnum árum, launajöfnuður sé mikill hér á landi, atvinnuleysi lítið og að skuldir heimilanna hafi lækkað verulega."***
Hann sleppir auðvitað þessu með gríðarlega hækkun húsaleigu, og matarskattinn sem síðasta ríkisstjórn hækkaði jafnframt því sem hún lækkaði bætur.

Nei, þá líst mér betur á hvatningu Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna sem skrifaði pistil undir yfirskriftinni: Gætum við sameinast gegn fátækt? Þar segir hún:
„Fátækt er birtingarmynd kerfis sem ýtir undir misskiptingu. Kerfis þar sem tölurnar sýna svart á hvítu að sköttum hefur verið létt af hinum tekjuhæstu en skattbyrði hinna tekjulægri hefur þyngst á síðustu árum. Kerfis þar sem félagslegt húsnæði hefur verið sett á markað með þeim afleiðingum að venjulegt fólk, hvað þá fátækt fólk, á í vandræðum með að koma sér þaki yfir höfuðið sem samt eru skilgreind mannréttindi. Kerfis þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga hefur aukist á undanförnum árum og áratugum og er nú hærri hér en til að mynda í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Kerfis þar sem fullorðnu fólki yfir 25 ára aldri er nú gert erfiðara fyrir að sækja sér menntun.

Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi.Stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn og aðgerðaáætlun um útrýmingu hennar og vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfið og bótakerfið – við vitum öll að þeir eru til.“

Leiðari Gunnars Smára, sem hann skrifaði í nóvember eftir útkomu skýrslu Rauða krossins, er of langur til að birta hér í heilu lagi, en hann er sögulegur og greinandi að hætti hússins, lausnamiðaður og hvass: í stuttu máli sagt alveg frábær.
„Við höfum ekki um langan tíma viljað ræða um fátækt sem afleiðingu félagslegrar stöðu. Það var gert af tillitssemi við hina auðugu svo þeir gætu lifað í þeirri trú að auður þeirra væri afleiðing persónulegra yfirburða þeirra. Og ef hinn ríki er ríkur fyrir eigin verðleika, en ekki vegna þess að samfélagsgerðin færir til hans auð; þá er hinn fátæki ekki fátækur vegna veikrar félagslegrar stöðu heldur vegna persónulegra veikleika; hann er ekki nógu duglegur, útsjónarsamur og fylginn sér.“
Þarna kristallast munurinn á þeim sem eru einstaklingshyggjusinnar (sem ég kalla yfirleitt frjálshyggjumenn í stíl við áherslur þeirra á frelsi markaðarins) og svo félagslega þenkjandi fólks sem lítur til samfélagsgerðarinnar, og vill þá helst bæta hana til hagsbóta fyrir alla í samfélaginu, ekki síst þau verst settu. Við í seinni hópnum höfnum því að auðmenn séu bara svona flinkir og að fátækt fólk sé bara aumingjar, en lítum svo á að kökunni sé vitlaust skipt.

Og nei, þjóðarkökunni er ekki best skipt þegar kökuskreytingarmeistarinn kemst með puttana í hana.


___
* Leigumarkaðurinn, undir stjórn hrægammaleigufélaga á borð við Gamma og Heimavelli (sjá orð Mikaels um kvótakónga), þrautpínir leigjendur svo ráðstöfunartekjur fólks fara nánast allar í húsnæðiskostnað og aðrar nauðþurftir sitja jafnvel á hakanum.

** Fréttatíminn hefur fjallað um Efra-Breiðholt og fólkið sem þar býr, og í viðtali Fréttablaðsins við Önnu Láru Orlowska fegurðardrottingu Íslands ber stöðu hverfisins á góma.
„[Anna Lára] segir Fellahverfið fyrst og fremst fjölskylduhverfi. Það eigi ekki skilið það orðspor sem það hefur fengið á sig í gegnum tíðina. Þar sé ekki meira um afbrot og ofbeldi en í öðrum hverfum borgarinnar þótt margir íbúa séu af öðrum uppruna og hafi ekki jafnmikið á milli handanna og aðrir. „Ég upplifi þetta hverfi sem öruggt hverfi. Hér er mikið af fjölskyldufólki og hér búa afar mörg börn. Því er alltaf slegið upp í fréttum þegar það kemur eitthvað fyrir í Breiðholtinu en á meðan er lítið fjallað um það góða og uppbyggilega sem gerist hér,“ bendir hún á. „Hér í grenndinni er öll þjónusta til staðar, skólar, verslanir og stofnanir. Þetta er gott hverfi og það mætti oftar veita því góða athygli.“


*** Ég segi eins og Þórður Snær í hlaðvarpsþættinum Kvikunni: „Mikael Torfason, af öllum mönnum, er orðinn Hrói höttur fátæka fólksins á Íslandi, mætir í Silfrið og heldur eldmessu um fátækt og gott og vel, málið er komið á dagskrá. Á sama tíma er alltaf sama jarmið: „Fátækt? Á Íslandi? Sjáið jöfnuðinn, sjáið jöfnuðinn í tekjunum! Sjáið skuldastöðuna, hvað hún hefur batnað skuldastaða heimila, fyrirtækja!“

Efnisorð: , , , , , , , , ,

föstudagur, mars 17, 2017

Við þurfum að ræða um Bjarta framtíð

Nichole Leigh Mosty hefur valdið miklum vonbrigðum eftir að hún settist á þing. Hún bar af sér mikinn þokka meðan hún var leikskólastjóri í Fellunum og formaður hverfisráðs Breiðholts, og virkaði mjög traustvekjandi. Sem þingkona Bjartrar framtíðar hefur hún staðið sig hörmulega.

Nokkur dæmi.

Nichole dregur í efa að Bjarni Benediktsson hafi raunverulega frestað birtingu aflandseignaskýrslunnar þótt hann hafi viðurkennt það sjálfur.

Hún er einn flutningsmanna áfengisfrumvarpsins, sú eina úr sínum flokki, sem staðsetur hana meðal frjálshyggjumanna.

Nú síðast fagnar Nichole virkjunaráformum á miðhálendinu og telur þau samræmast vel stefnu ríkisstjórnarinnar um verndun miðhálendisins.

Björt Ólafsdóttir þingkona Bjartrar framtíðar virðist ætla að feta sömu slóð og furðu margir umhverfisráðherrar á undan henni, og hleypa í gegn eða beinlínis mæla fyrir stórkostlegum umhverfisskaða. Og enn er vitnað í Stundina:
„Við í Bjartri framtíð viljum umfram allt vernda miðhálendið og hafa þjóðgarð þar,“ sagði Björt Ólafsdóttir rétt fyrir kosningar. Hún gagnrýndi þá sem væru „áfjáðir“ í að virkja. Nú er Björt orðin umhverfisráðherra og vill gefa grænt ljós á Skrokkölduvirkjun á miðhálendinu.
[…]
Björt leggur til í þingsályktun sinni um rammaáætlun að Skrokkalda á Suðurlandi verði færð úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk svo unnt verði að ráðast þar í virkjanaframkvæmdir á næstu árum. Skrokkalda er á miðhálendinu og samkvæmt greinargerð þingsályktunartillögunnar mun fylgja virkjuninni hlaðhús, spennir, 1 kílómetra skurður vestan við Sprengisandsleið og jarðstrengur.“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, eins og Nicole, ber líka blak af Bjarna og finnst núna ekkert erfitt að sitja í ríkisstjórn með manni sem hann fordæmdi fyrir að vera „tengdur aflandsfélagi“. Svo er hann enn ekki búinn að gefa upp afstöðu sína gagnvart brennivín-í-búðir frumvarpinu eða hvort hann ætli að láta skattfé almennings styðja við rekstur Klíníkurinnar. Það síðasttalda, ákveði hann að taka skrefið að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, er jafn óafturkræft og ferlegt og ef Björt lætur virkja á miðhálendinu.

Fyrir kosningar fékk Björt framtíð fremur jákvæða umsögn hér á blogginu, jafnvel þótt ég hafi sett fyrirvara við jákvæða afstöðu þeirra til „fjölbreytilegs rekstrarforms“ og hugmynda um raforkusölu um sæstreng. Stór hluti kjósenda Bjartrar framtíðar lítur þó sennilega svo á að flokkurinn hafi reynst úlfur í sauðagæru. Alla vega væri ég ekki sátt hefði ég stuðlað að því að þetta fólk er komið í ábyrgðarstöður.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, mars 15, 2017

Að leggja velferð barna lið

Ætlar enginn að hugsa um börnin, er stundum sagt háðslega þegar einhver hefur vogað sér að ræða velferð barna. Það þykir nefnilega í sumum hópum afar hallærislegt að hugsa um annað en eigið skinn, eigin langanir og knýjandi þörf fyrir að vera laus við vesen.

Á blogginu er það hinsvegar fagnaðarefni að lesa ekki einn heldur tvo pistla á sömu opnu Fréttablaðsins þar sem rætt er um velferð barna. Eins og oftast þegar velferð barna ber á góma er jafnframt hjartaskerandi að heyra um aðstæður þeirra, og svo er einnig nú.

Magnús Guðmundsson skrifar leiðara um börn í Sýrlandi og hvetur fólk til að leggja UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lið. Það er t.d. hægt að gera með því að millifæra upphæð að eigin vali eða senda sms-ið STOPP í númerið 1900 (1.900 kr.).
„Á síðasta ári voru fleiri börn drepin, særð og þvinguð til þess að taka þátt í borgarastríði þar í landi en nokkru sinni áður frá því skráning hófst á slíkum ósköpum árið 2014. Neyð þessara barna og áþján er ólýsanleg. Sorg þessa fólks óbærileg [...]

Þrátt fyrir fjarlægðina má það því heita döpur mannssál sem telur börnin í Sýrlandi ekki koma sér við. Og skömm er þeim sem segja að við skulum fyrst og síðast huga að okkar eigin vandamálum fremur en að leggjast á árar með börnunum í Sýrlandi. Misskipting auðs í ríki velsældar og friðar á ekki að standa í vegi fyrir því að rétta hjálparhönd í slíkri neyð [...]

En hvað getum við þá gert sem hér búum í landi heilags hagvaxtar? Jú, hver sá sem er aflögufær getur lagt UNICEF lið, það er einfalt og hver og einn getur gefið af sinni getu. Ríkisvaldið og fjöldi fyrirtækja sem vel ganga ættu líka að hafa til þess raunverulega getu og gætu látið að sér kveða með rausnarlegum hætti.

Kjörnir fulltrúar okkar allra gætu líka séð sóma sinn í því að taka við mun fleiri stríðshrjáðum flóttamönnum og veitt þeim hér öruggt skjól. Séð til þess að fleiri börn geti gengið í skóla og farið út að leika sér án þess að eiga það á hættu að vera skotin á færi, sprengd í loft upp eða tekin af stríðandi fylkingum til brúks við sjálfsmorðsárásir.“

Margrét Júlía Rafnsdóttir hjá Barnaheillum (Save the Children á Íslandi) skrifar grein um gjaldfrjálsa grunnmenntun. Í 31. grein grunnskólalaga segir að „opinberum aðilum [er] ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír“ sem þýðir að heimilt er að krefja foreldra um greiðslu á námsgögnum.
„Í landi sem hefur lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um gjaldfrjálsa grunnmenntun senda flestir skólar árlega út innkaupalista til foreldra.

Í nýútkominni skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla kemur fram að sterk tengsl eru á milli efnislegrar fátæktar og skorts á menntun og tækifærum. Því sé menntun og jöfnun tækifæra ein öflugasta leiðin til að uppræta fátækt. Fram kemur að með stuðningi skólakerfisins hafi börn sem búa við fátækt alla burði til að standa sig vel og brjótast úr fátæktinni. Eitt lítið lóð á þær vogarskálar er að gera grunnskólann gjaldfrjálsan í raun.“

Margrét Júlía bendir á að „allt að 11.000 börn eða 14% barna á Íslandi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun,“ og segir einnig:
„Skólinn getur ekki breytt efnahagslegri stöðu foreldra, en hann getur með starfi sínu og aðgerðum minnkað aðstöðumun barna. Kaup á námsgögnum eru baggi á mörgum barnafjölskyldum. Vafalaust myndu margar þeirra kjósa að nota það fjármagn til annarra hluta, svo sem í tómstundir fyrir börn sín, eða annars sem göfgar líf og eykur samveru og samkennd fjölskyldna.

Barnaheill hafa ítrekað sent áskorun á stjórnvöld um að breyta grunnskólalögum svo óheimilt verði að krefja foreldra um greiðslu á námsgögnum.

Barnaheill stendur fyrir undirskriftasöfnun og „í næstu viku afhendum við nýjum menntamálaráðherra listann og þrýstum á hann og þingheim að breyta lögunum. Stuðlum að samfélagi þar sem öll börn búa við jöfn tækifæri og er ekki mismunað vegna efnahags foreldra.“

Við skulum leggja þessum þörfu málefnum lið.

Efnisorð: ,

laugardagur, mars 11, 2017

Fyrir fiskana

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las um átakið „Lyfjaskil-taktu til“ (sem lauk reyndar í gær) þar sem Lyfjastofnun hvetur fólk til að skila ónotuðum lyfjum í apótek, að ekki alls fyrir löngu var mér verkjapilla þar sem ég var gestkomandi og kvartaði yfir hausverk. Þegar ég afþakkaði fór gestgjafinn að skoða betur á pakkningarnar og sá þá að verkjatöflurnar voru næstum runnar út og sagði sisvona að þetta yrði sennilega ekki notað fyrir þann tíma og tilkynnti að hann myndi bara sturta þessu í klósettið. Ég bað hann að gera það ekki og minnti hann á fiskana í sjónum sem fengju líklega fullmikið af lyfjum nú þegar. Og nú sé ég að Lyfjastofnun segir einmitt um slíka óábyrga förgun: „Það eru t.d. hormónalyf sem að hafa haft áhrif á þroska kynfæra í fiskum og rannsóknir hafa sýnt fram á þetta oft og víða.“

Átakið um lyfjaskil snýr ekki síst að öryggi í meðferð lyfja (svo börn komist ekki í þau) en það er líka mikilvægt að koma því á framfæri að apótek taka við lyfjum til eyðingar. Líklega er aðalástæða þess að fólk hendir lyfjunum í ruslið eða sturtar þeim í klósettið einfaldlega sú að það hefur ekki verið almenn vitneskja að apótekin taki við þeim.

Við mættum örugglega öll taka okkur á með þetta. Það er stutt síðan ég byrjaði að skila lyfjum og tómum lyfjapakkningum í apótek; hingað til hef ég alltaf hent þeim í ruslið — en reyndar aldrei í vaskinn eða klósettið. Fiskarnir sko.



Efnisorð:

miðvikudagur, mars 08, 2017

8. mars : Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Kvennasamtök í Bandaríkjunum hafa boðað til allsherjarverkfalls í dag, 8. mars. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig til tekst. Mig grunar sterklega að það verði ekki (miðað við höfðatölu) nærri eins tilkomumikið og fyrsta íslenska kvennaverkfallið 1975. Vonandi verður það þó fjölmennt og víðtækt svo að hrikti í karlrembustjórnmálum þar vestra.

Staða kvenna í heiminum er misslæm en hvergi í heiminum er þó fullu jafnrétti náð. Ekki í Svíþjóð og ekki hér. Það sem vantar uppá er tildæmis að enn hefur ekki tekist að vinna bug á launamun, niðrandi viðhorfi til gáfna og hæfni kvenna, kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi, og hlutgervingu kvenna. Konur fá enn ekki sömu tækifæri og karlar sem lýsir sér tildæmis í því að aðeins fáar konur komast í háar stöður.

Kjarninn skoðaði nýlega stöðu kvenna á Íslandi og komst að því að enda þótt konur séu
„49,7 prósent landsmanna. Þær stýra samt einungis fimmtungi allra fyrirtækja landsins og sitja í fjórðungi stjórnarsæta. Í efstu lögum fjármálageirans eru þær enn ákaflega sjaldséðar.“
Sex af 50 stærstu fyrirtækjum landsins er stýrt af konum. Það gera tólf prósent. Hlutfallið í fjármálakerfinu er 9% og hjá ríkisstofnunum 39%. Rúmlega níu af hverjum tíu æðstu stjórnenda sem stýra peningum eru karlar. Litlar sem engar breytingar hafa orðið á hlutfallinu árum saman.

Konur eru 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins. Hlutfallið hefur hækkað úr 37 prósentum í fyrra og 29 prósentum árið 2009. Konur eru nú samtals 60 talsins meðal 154 forstöðumanna hjá ríkinu.
„Ef jafnræði hefði verið á milli kynja á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokks landsins, væru konur í meirihluta á Alþingi. Af 21 þingmanni flokksins eru hins vegar einungis sjö konur. Sterk staða kvenna á þingi er þó ekki endurspegluð við ríkisstjórnarborðið. Af ellefu ráðherrum eru sjö karlar en fjórar konur.“*
Í stuttu máli sagt: Karlar stýra peningum og halda völdum.

AUGLÝSINGABIRTINGARMYND KVENNA
Hér að ofan var vísað í fróðlega úttekt Kjarnans á stöðu kvenna í stjórn fyrirtækja og opinberra stofnana. Einnig hefur komið í ljós að „Auglýsingabransinn er karllægur og hefur verið lengi,“ einsog segir í frétt á Vísi.
„Þrátt fyrir að kynjahlutfall á stofum innan SÍA sé jafnara nú en fyrir fimm árum hallar mjög á konur eftir því sem hærri stöðugildi eru skoðuð. Grafískir hönnuðir eru 40 prósent konur innan veggja SÍA, 26 prósent eru hönnunarstjórar og 23 prósent eru listrænir stjórnendur. Hafa þessi hlutföll ekki breyst síðustu ár, ekki frekar en framkvæmdastjórastöðurnar sem allar eru skipaðar karlmönnum.“
Það skildi þó ekki vera að fjölmenni karla á auglýsingastofum endurspeglist í þeirri áherslu sem er oft á konur sem viðföng í auglýsingum, útlit þeirra og kynþokka?

LÍKAMSVIRÐING
Sigrún Daníelsdóttir skrifaði undir lok árs 2016 um „af hverju það er mikilvægt að hafa frelsi til að velja hvernig þú vilt birtast öðrum, með eða án farða“. Með öðrum orðum, um þessa „ósögðu kröfu um að konur þurfi að vera með varalit til að geta talað“. Fín lesning.

Af því tilefni er gott að rifja upp það sem Eliza Reid, sem þá var ekki orðin forsetafrú, sagði:
„Ég vil heldur ekki að börnin mín fái þá hugmynd að konur megi ekki láta sjá sig utandyra án þess að vera málaðar og uppstrílaðar þannig að ég vil alls ekki gera það að einhverju aðalatriði.“

KVENMORÐ
„Kvenmorð (e. femicide) eiga sér stað um allan heim. Hugtakið er skilgreint með þeim hætti að rekja megi morðið til kynferðis, þ.e. kona er myrt vegna þess að hún er kona. Í vestrænum ríkjum er yfirleitt um að ræða morð í nánum samböndum en kvenmorð geta tekið á sig aðrar birtingarmyndir, dæmi um það eru kynferðisglæpir, svokölluð „heiðursmorð“, morð tengd heimanmundi, þvinguð sjálfsmorð og kerfisbundin eyðing kvenkynsfóstra. Hér í okkar fámenna landi deyr kona af völdum kynbundins ofbeldis u.þ.b. þriðja hvert ár."
Svona hefst grein eftir Freydísi Jónu Freysteinsdóttur dósent í félagsráðgjöf og Halldóru Gunnarsdóttur kynjafræðing, og verður ekkert meira upplífgandi eftir þetta. Þessar upplýsingar vöktu þó furðu:
„Á Íslandi er gögnum um kvenmorð ekki safnað sérstaklega og þær upplýsingar ekki að finna í útgefnum gögnum ríkislögreglustjóra.“
Freydís og Halldóra taka þátt í evrópsku verkefni sem miðar að því að finna leiðir til að fyrirbyggja að kvenmorð eigi sér stað, og þær leggja áherslu á að það sé mikilvægt að breyta skráningu „þannig að umfang vandans sé ljóst því þá er frekar við honum brugðist.“

FJÓRÐA BYLGJAN OG STÖRF SEM SKIPTA MÁLI
Í fróðlegri grein eftir Öldu Lóu Leifsdóttur í Fréttatímanum mátti lesa um bandarískar kvenréttindakonur og segir þar að þær boði 4. bylgju feminisma.
„Mótmælin [sem þær boða til í dag] eru viðbragð við kapítalisma og nýfrjálshyggju og viðbragð við femínisma sem þróaðist á tímum nýfrjálshyggjunnar og hvatti konur áfram í keppni um forstjórastóla frekar en samstöðu gegn ofríki fyrirtækja og hnattvæðingu.“
Það er þó mikilvægt að mínu mati að konur keppist um „forstjórastóla“ því hver einasta kona (og helst fjöldi kvenna) sem tekur sér sess þar sem áður voru eingöngu karlar á fleti fyrir, er annarsvegar mikilvæg fyrirmynd (að konur geti allt) og sýnir einnig körlum að sú hugsun sé úrelt að þeir einir geti og megi stjórna heiminum. Að því sögðu stend ég auðvitað líka með „verkakonum og konum í þjónustu- og umönnunarstörfum, konum í engum störfum og konunum sem gátu aldrei tekið þátt í rússíbanareiðinni um best launaða starfið“.

Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu (margir karlmenn sjá rautt þegar þeir heyra nafn hennar og starfsheiti og sitja um að níða niður allt sem hún segir) bendir á að:
„Launamunur kynjanna haggast lítið (hvað sem hver segir) en hann felst ekki aðeins í því að fólki sem vinnur jafn verðmæt störf sé mismunað eftir kyni heldur einnig í því hvernig störf eru metin. Þau störf sem fluttust út af heimilunum endur fyrir löngu eru enn metin til færri fiska en þau sem t.d. tengjast vélum að ekki sé nú talað um peninga. Verðmætamat samfélagsins elur á launamisrétti.“

Af því tilefni er ágætt að rifja upp gamlan pistil sem Erla Björg Gunnarsdóttur skrifaði um móður sína sjúkraliðann. Þá var verkfall sjúkraliða (og annarra heilbrigðisstétta) í uppsiglingu, en í pistlinum eru talin upp ýmis verk móður hennar:
„Í fjörutíu ár hefur mamma mín farið í vinnuna á kvöldin og á nóttinni. Um helgar og á páskunum. Á afmælinu mínu og þegar það er opið hús í skólanum. Við höfum haldið jól á öllum tímum og stundum fengið okkur snarl á miðnætti. Þegar mamma kemur heim úr vinnunni.

Í vinnunni hjálpar hún alls konar fólki. Sem er veikt og hrætt. Ráðherrum og kennurum. Ógæfufólki og óperusöngvurum. Hún hjálpar þeim í föt og á klósettið. Að borða og þvo sér. Hlustar á áhyggjur þeirra. Klappar á öxlina og gerir grín til að létta lundina. Hún hughreystir áhyggjufulla aðstandendur. Segist ætla að hugsa vel um fólkið þeirra. Og hún breiðir yfir þá sem tapa baráttunni.“
Það eru svona konur sem við eigum að heiðra. Bæði með hærri launum og mikilli virðingu.

FÓSTUREYÐINGAR/ÞUNGUNARROF

Nefnd sem unnið hefur unnið að heildarendurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir hefur komið með margar tillögur um breytingar á lögunum, og m.a. lagt til að ekki þurfi lengur tveir fagaðilar að gera greinargerð til að heimila fóstureyðingar. Reyndar vill nefndin ekki lengur tala um fóstureyðingu heldur nota orðið þungunarrof.

Ítarlegri upptalningu og skýringar á tillögum nefndarinnar má lesa hér, og fagna innilega á meðan.

___

* Orðrétt samantekt en mikið niðursoðin úr fjórum pistlum (1, 2, 3, 4) beggja ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar og Þórunnar Elísabetar Kjartansdóttur.

Eldri pistlar sem birtir hafa verið á blogginu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna:
2008, 2010, 2011, 2013,2014, 2015.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

laugardagur, mars 04, 2017

Holland, Ísland, Kongó

Hvernig stendur á því að til er fólk sem er endalaust til í að níðast á öðrum? Borga svo léleg laun að vart er hægt að skrimta á þeim. Láta fólk vinna við ómannúðlegar aðstæður. Hrúga starfsmönnum í húsnæði sem er ekki mönnum bjóðandi og draga fokdýra leigu af laununum þeirra. Pína fólk til að vinna án hvíldar. Berja fólk hreinlega áfram. Halda fólki í þrældómi. Fólk sem býr og starfar við þessar aðstæður býr til eða flytur vörur sem við hin (hvíta millistéttarfólkið í neyslukapphlaupinu) kaupum og notum, jafnvel þótt við heyrum einhvern ávæning af því að ekki sé alltaf svo vel farið með verkafólkið sem býr til vöruna. Við reynum að gefa því ekki gaum að við götuna sem við förum daglega er að rísa bygging þar sem unnið er fleiri daga vikunnar og lengri vinnudaga en okkur þætti boðlegt sjálfum.

Það stakk mig að heyra í gær um vörubílstjóra frá ríkjum Austur Evrópu sem keyra fyrir Samskip í Hollandi og eru á skítakaupi og fá hvorki yfirvinnulaun eða helgarálag. Starfsmaður stærsta verkalýðsfélags Hollands „segir hundruð vöruflutningabílstjóra vera fórnarlömb lögbrota skipafélagsins Samskipa í Hollandi“, og bendir á að þar í landi eru lög um keðjuábyrgð* og því ber fyrirtækið lagalega ábyrgð.

(Hér heima er svo eiginkona forstjóra Samskipa meira upptekin af að styðja eiginkonu annars refsifanga þegar hún vælir út viðtal hjá forseta Íslands. Báðar eiginkonurnar tala um mannréttindabrot og ég veit ekki hvað og hvað.)

Það er ekki bara Samskip sem fremur „félagshagfræðilegan glæp“, því Fréttatíminn skýrir frá því að pólskir rútubílstjórar sem starfa hér á landi, þurfi stundum að sofa í bílunum og fái 5000 kall á dag í laun. Svona fyrir utan að þetta eru ólögleg undirboð þá er þetta ill meðferð á mönnunum og djöfuls skítakaup. En það er auðvitað svo mikilvægt að græða á ferðamönnum að ferðamannaiðnaðurinn getur ekki stillt sig um að græða á fólkinu sem vinnur við ferðaþjónustuna líka.

Allra versta dæmið um hræðilega meðferð á fólki sá ég þó í vikulegu fréttayfirliti á Sky News sjónvarpsstöðinni í gær. Þar var sýnt frá námuvinnslu á kóbalti í Kongó þar sem börn allt niður í fjögurra ára að vinna. Aðaláherslan í fréttinni* var á hinn 8 ára Dorsen. Fyrir utan að vera yfirleitt í vinnu, hvað þá erfiðisvinnu, var hann hrakinn og skammaður linnulaust (hótað barsmíðum) svo hann var bæði hræddur og ringlaður.

Þetta gráðuga helvítis mannkyn.

___
* Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru á móti reglum um keðjuábyrgð hér á landi, og segja „engin haldbær rök fyrir íþyngjandi ábyrgð verkkaupa á launum starfsmanna íslenskra verktaka – verði vanefnd á launum starfsmanna íslenskra fyrirtækja geti þeir beint kröfum að Ábyrgðarsjóði launa auk þess sem þeir séu félagsmenn í stéttarfélögum sem geti aðstoðað þá við innheimtu vangoldinna launa“. Mjög óvænt afstaða eða þannig.

** Þetta er örlítið lengri útgáfa myndskeiðsins sem sýnt var í gær; með viðtali við Dorsen og 11 ára vinnufélaga hans. Textaútgáfa fréttarinnar er hér.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, mars 02, 2017

Þarf ekki háskólapróf, of margir óæskilegir einstaklingar með svoleiðis

Kjarninn skýrir frá því að samkvæmt nýjum reglum Fjármálaeftirlitsins þurfi nú stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækja ekki lengur að hafa háskólapróf.

Það má auðvitað ekki bitna á klárum körlum ef þeir eru alveg sjálflærðir í bisness eða kláruðu aldrei háskólanám. Það verður auðvitað að greiða götu þeirra. En ekki mismuna þeim í þágu einhverra kerlinga. Mikilvægt nefnilega að passa að konur brussist ekki til að troða sér í æðstu stöður, flaggandi háskólagráðum í gríð og erg. Háskólagráður hvað.

Því einsog ég hef sagt a.m.k. tvívegis áður, þá er það engin tilviljun að háskólagráður missa gildi sitt þegar mikill fjöldi kvenna hefur lokið langskólanámi. Þá er bara reglunum breytt: þarf ekki háskólapróf!

Fyrsta skipti sem birtist hér pistill um hvernig leikreglum er breytt til að útiloka konur var árið 2007.
Annar pistill var skrifaður fyrir ári.

Því miður gefst mér eflaust tilefni til að benda á þetta oftar.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, mars 01, 2017

Byttusamfélagið, eða hvernig það er stefnt að því leynt og ljóst að fá okkur til að finnast áfengisneysla alla daga hið eðlilegasta mál

Heilsíðuauglýsing óskaði lesendum Fréttablaðsins í dag til hamingju með bjórdaginn. 1. mars er semsagt dagurinn sem farið var að selja bjór á Íslandi eftir áratuga bjórbann. Einhverjum finnst að þá hafi verið stigið einhverskonar framfaraskref. Það er ekkert beðið fram að helgi með að fagna afnámi bjórbannsins, enda er ein helsta breytingin á íslensku þjóðlífi sem varð í kjölfarið einmitt sú að nú þykir það eðlilegt að drekka áfengi í miðri viku, sem áður þótti órækur vitnisburður um alkóhólisma. En semsagt, í heilsíðuauglýsingunni var kynnt nýjung, bjórís, sem seldur verður í ísbúð í tilefni dagsins.

Um áratugaskeið hefur ísbíltúr verið fastur liður í tilveru höfuðborgarbúa jafnt sumar sem vetur en þó vinsælli alltaf á sumrin af náttúrulegum ástæðum. Eflaust eru til fjölskyldur sem aldrei hafa farið saman að kaupa ís en það er örugglega fátítt. Ég þori að fullyrða að næstum allir sem eru hér á annað borð uppaldir hafa farið að kaupa ís með fjölskyldu sinni. Innifalið er samvera og almenn ánægja.

Vinsældir íss fara síst minnkandi og ólíklegt að einhver sérstök trix þurfi til að vekja athygli á honum; og varla þarf að bragðbæta hann umfram allt sælgætið og sósurnar sem nú þegar er sturtað yfir ísinn. En samt virðist einhver markaðsdúddinn hafa séð tækifæri í því að bæta við valkostinum bjór á ís, eða ís bragðbættur með bjór, hvernig sem það snýr.

Mér finnst mjög undarlegt að eigendur ísbúðarinnar hafi ákveðið að það væri sniðugt að selja bjórís, alveg burtséð frá því að fá athygli útá það. Finnst þeim það ekki vera í andstöðu við að selja börnum ís alla daga? Vilja þeir aldrei aftur fá börn þarna inn eða finnst þeim eðlilegt að foreldrarnir fái sér bjórís (og keyri svo heim með hvað-það-er-nú-mikið magn af alkóhóli í blóðinu) og börnin fái ís með dýfu í sömu andrá. Vara bönnuð börnum annarsvegar og barnagómsæti hinsvegar. Er þetta kannski einn liður í því, sem mér hefur fundist bera æ meira á undanfarið, og má líklega kalla normalíseringu áfengisdrykkju, eða upphafningu „áfengismenningar“. Alltaf þarf að hafa alkóhól um hönd með einhverjum hætti, meira segja í ísbíltúr með börnunum.

Það hefur annars lengi farið í taugarnar á mér að sterkir drykkir (sem eru að mér er sagt aðallega drukknir sem skot) séu með sælgætisbragði og beri nöfn sælgætis: Tópas, Ópal. Börn í dag kynnast heimi þar sem þetta saklausa sælgæti er eins og dyragátt inn í heim áfengisdrykkju; sama bragð meiri áhrif. Eða er það öfugt; hinir fullorðnu á fylleríinu finnst þeir vera að stíga í heim bernskunnar þegar þeir dúndra í sig hverju skotinu á fætur öðru? Mér finnst undarlegt og eiginlega óþægilegt að áfengir drykkir beri sælgætisnöfn. Og aftur finnst mér að verið sé að gera áfengisdrykkju svo sjálfsagða að hún fylgi okkur svo að segja frá vöggu til grafar.

Um daginn var í Fréttatímanum smá dálkur undir mynd af ketti þar sem sagt var frá því að „nú geta kettir og hundar dreypt á víni með eigendum sínum“. Um er að ræða óáfengt (gvuðisélof) vín og sagt er að „hugsunin á bak við þennan óvenjulega dykk er að við mennirnir getum notið þess að eiga ljúfa stund með vínglas við hönd og boðið loðnum vinum okkar að vera með“. Útaf því að það er svo áberandi annars að þú situr einn að sumbli? Eða vegna þess að það er vitavonlaust að eiga samskipti við einhvern sem er ekki 'með í glasi'? Afhverju er verið að blanda vesalings dýrunum í vínsull eigenda sinna? Þetta átti kannski að vera furðufrétt til gamans en mér finnst þetta enn eitt dæmið um upphafningu hinnar svokölluðu áfengismenningar.

Þarf alltaf að vera áfengi?


Efnisorð: , ,