mánudagur, nóvember 28, 2016

Glæpsamleg meðferð á dýrum árum saman og enginn fær neitt að vita

Það er ógeðslega vond tilfinning að hafa stutt dyggilega við bakið á Brúneggjaverksmiðjunni. Brúnegg hefur komist upp með árum saman, ÁRUM SAMAN, að fara hræðilega með hænsn og á sama tíma selja eggin úr þeim sem vistvæn egg úr hænum sem njóta frelsis og verpa í hreiður.

Árum saman keypti ég egg frá Brúneggjum, eða allt frá því að ég frétti fyrst af þeim. Þar til í fyrra (eða var það á þessu ári?) keypti ég Brúnegg í þeirri sælu trú að varphænurnar lifðu ívið betra lífi en hænum byðist almennt í eggjaframleiðslu. Og þar sem ég er sólgin í egg þá vildi ég allavega versla við þá sem færu vel með hænur. Hah!

Inni í skáp fann ég gamlan eggjabakka frá Brúnegg sem ég hef keypt í fyrrasumar — þegar ástandið var sem verst í húsum Brúneggja — og á honum eru upplýsingarnar sem seldu eggin árum saman, trúgjörnum vitleysingum eins og mér.

Á eggjabakkanum stendur:
10 vistvæn brún egg
Brúnar hænur eru frjálsar og verpa í hreiður

Inni í eggjabakkanum stendur:
Velferð hænsna er höfðað leiðarljósi hjá Brúneggjum. Fyrir tækið hefur hlotið vistvæna vonttun og má nota merkið Vistvæn landbúnaðarafurð á framleiðslu sína. Til að vistvæna vottun fáist er lögð sérstök áhersla á umhverfistengda þætti við framleiðslu eggjanna auk þess að ekki eru notuð óæskileg hjálparefni.
„Free range“ hænur eru ekki búrum, heldur ganga um gólf og verpa í hreiður.“

Einhvernveginn fær maður ekki þá tilfinningu af að lesa þennan texta, að hænurnar séu þúsund talsins og séu þetta frá 13,75 til 24,4 hænur á hverjum fermetra hússins. Hvað þá að þær vaði blautan skít, grindhoraðar og fiðurlausar. Deyi ýmist úr hungri eða kóleru.

Ég man ekki hvenær ég hætti að kaupa egg frá Brúneggjum. Kannski þegar þau vantaði í búðir í nóvember í fyrra (ef ég skildi Kastljósþáttinn rétt) eða hugsanlega þegar ég rak augun í að fleiri eggjaframleiðendur voru farnir að bjóða egg frá lausagönguhænum. Ég hef helst reynt að kaupa lífrænu eggin frá Nesbú, eða það sem Nesbú allavega heldur fram að séu „lífræn egg frá frjálsum hænum sem fá lífrænt fóður, njóta útiveru og verpa í hreiður“. Þegar ég finn þau ekki í búðum kaupi ég „brúnu vistvænu eggin“ frá Stjörnueggjum, en innan á eggjabakkanum stendur:
Stjörnuegg eru náttúrulegur og næringarríkur orkugjafi
Fyrirtækið Stjörnuegg hf. býr yfir 80 ára þekkingu og reynslu við framleiðslu eggja og hefur ávallt haft það markmið að framleiða fyrsta flokks vöru.
Vistvæn Stjörnuegg eru hágæða afurða frá lausagönguhænum, sem flögra frjálsar um híbýli sín og verpa eggjum í hreiður.
Engin sýklalyf eða önnur óæskileg aukaefni eru notuð við framleiðslu Stjörnueggja.
Stjörnuegg notar einungis óerfðabreytt fóður.
Mér finnst reyndar nett óþægilegt að kaupa Stjörnuegg því ég held að sömu aðilar séu með svínabú, eitt af þessum sem ekki er leyft að heimsækja og taka myndir. En það sama gæti átt við um Nesbú. Kannski kemur það í ljós næstu daga í Kastljósi.

Í Kastljósi kom fram að Brúnegg séu 40% dýrari en egg úr venjulegum búrhænum. Ég sem neytandi hef fúslega borgað meira fyrir þessi egg (og örugglega eru líka „vistvænu og lífrænu“ eggin sem ég nú kaupi líka dýrari en önnur, á þeim er þó vonandi ekki músaeitur einsog á eggjunum frá Brúneggjum) því ég hef viljað stuðla að betra lífi fyrir þessi hænugrey sem verpa eggjunum. Nú kemur í ljós að Brúnegg hafa ekki bara staðið fyrir hræðilegu dýraníði í margvíslegum myndum, heldur hafa neytendur eins og ég verið blekktir til að kaupa vöru sem þeir hefðu aldrei annars keypt, og það á okurprís.

Kristinn Gylfi Jónsson framkvæmdastjóri Brúneggs sem salírólegur talaði við Tryggva Aðalbjarnarson játaði í sjálfu sér allt hvað varðaði aðbúnað hænsnanna, og svaraði ítrekað að „slíkt gæti komið fyrir“ og „það má vel vera“. En var samt alveg harður á því að í raun hefði ekkert verið að og að þetta hefði allt verið eðlilegt (líka að fara svona ansi hressilega fram úr vistvæna viðmiðinu 8 hænur á fermetra, auðvelt sé að þrífa húsin og þau séu þurr og vel loftræst). Í hans huga er það lítilvægt að hafa þurft að slátra 14.000 fuglum að kröfu MAST. Hann er samt ekkert reiður útí MAST, helst að það sé þeim að kenna að hafa komist upp með þetta svona lengi. Engin iðrun í gangi. Ánægður með að vera að stækka enn meira við sig.

Og talandi um Matvælastofnun. MAST telur neytendur hafa verið blekkta, segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins. En samt er það MAST sem vissi um ástandið í húsum Brúneggs allt frá árinu 2007 en upplýsti ekki neytendur. Að Brúnegg hafi ekki verið svipt rekstrarleyfi og öll dýrin tekin frá þessum dýraníðingum er auðvitað hneyksli. Að MAST hafi ekki upplýst neytendur um að verið væri að svindla á þeim er hneyksli.* Að MAST hafi ekki látið fjölmiðla vita (nafnlaust þessvegna) til þess að neytendur hefðu getað hætt að kaupa egg frá Brúnegg — og þarmeð kippt fótunum undan rekstri fyrirtækisins — er stórfurðulegt.

Hafi Tryggvi Aðalbjarnarson fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins þökk fyrir rannsóknarblaðamennsku í þágu dýra og neytenda.


___
* Vegna þess að ég er á móti illri meðferð á dýrum reyni ég að haga innkaupum mínum eftir því. Það má auðvitað búast við því að einhverjir framleiðendur merki vörurnar ranglega (vel sé farið með varphænur, varan sé ekki prófuð á dýrum) en það þýðir ekki að maður eigi að hætta að kaupa vörur með slíkri merkingu. Hætta að kaupa af þeim framleiðanda sem verður uppvís að svindli og dýraníði jú, en ekki hætta að trúa því að sem neytandi geti maður ýtt framleiðendum í þá átt að selja vöru sem þar sem dýraníð kemur hvergi við sögu. Vegna þess að enginn einn einstaklingur getur fylgst með hvort yfirlýsingar á umbúðum séu réttar verður hann að kaupa vörurnar í góðri trú, og vona að ekki sé verið að ljúga að sér. Í þessu efni er því mjög mikilvægt að neytendur geti treyst á eftirlitsiðnaðinn til að fá upplýsingar um framleiðsluhætti og innihald vöru eftir því sem við á. Þá og ekki fyrr getur neytandinn tekið upplýsta ákvörðun um að kaupa — eða sniðganga vöruna. Eða í þessu tilfelli framleiðandann.

Efnisorð: ,

laugardagur, nóvember 26, 2016

Ágengni fjölmiðla

Um daginn þegar rjúpnaskyttan, sem fannst eftir tveggja nátta leit, gerði athugasemd við ágengni fjölmiðla þegar þyrla Landhelgisgæslunnarlenti með hann við Borgarspítalann þar sem nánustu aðstandendur hans biðu, varð mér hugsað til nýútgefins bæklings sem ber heitið Ef fjölmiðlar hafa samband: Leiðbeiningar fyrir brotaþola og aðstandendur. Bæklingurinn er gefinn út af Rótinni, félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, og er ætlaður til að styðja fólk í að taka afstöðu til þess hvort og hvenær eigi að tala við fjölmiðla sem vilja fá viðtal um atburði sem hafa haft mikil og erfið áhrif á viðkomandi. Fjölmiðlarnir vilja ekki bíða heldur upplýsa lesendur/áhorfendur sína strax um það sem gerist hverju sinni, svo að manneskjan sem um ræðir er undir nokkrum þrýstingi um að koma í viðtal enda þótt hún sé enn í áfalli. Um þetta hugsaði ég þegar rjúpnaskyttan Friðrik Rúnar Garðarsson gekk spölinn frá þyrlunni að spítalanum og varð fyrir spurningaflóði fréttamanna á milli þess sem hann faðmaði ástvini sína sem voru að heimta hann úr helju.

Sjálfur segir hann þetta:
„Annað sem stendur upp úr sem ekki er jafn jákvætt er aðgangsharka fjölmiðla við og eftir komu mína á Landspítalann. Ég verð að viðurkenna að ég leiddi hugann ekki að því fyrr en eftir á hvað það var í raun óviðeigandi að stilla sér upp við þyrlupallinn og taka nærmyndir af því þegar tilfinningaþrungnir endurfundir áttu sér stað hvort sem ég var að knúsa mömmu mína og systur eða kyssa kærustuna,“ skrifar Friðrik og heldur áfram.

„Í aðstæðunum reyndi ég auðvitað að bera mig vel og svara spurningum þeirra eftir bestu vitund en mér finnast mörk fjölmiðla hljóta að eiga liggja utan við formlega læknismeðferð eftir svona hrakningar og að fjölskyldur megi sameinast á ný án þess að það sé myndefni frétta.“

Nú í morgunsárið les ég svo leiðara Kristínar Þorsteinsdóttur í Fréttablaðinu, undir yfirskriftinni „Munum flugeldana“ og þar er hún að hnýta í Friðrik fyrir að þessa gagnrýni á fjölmiðla.

„Því skaut skökku við þegar rjúpnaskyttan sem heimt var úr helju ásakaði fjölmiðla um ónærgætni. Slíkri ásökun er hvergi hægt að finna stað. Þegar þyrla Gæslunnar lenti og hann steig út á þyrlupallinn við sjúkrahúsið í Reykjavík var sjálfsagt og eðlilegt að taka myndir. Þær sýndu ekkert niðurlægjandi og ekkert ósiðlegt heldur gleðistund, sem deilt var með þjóðinni. Enginn var neyddur í viðtal. Þvert á móti fékk maðurinn sem bjargað var tækifæri til að þakka fyrir sig, sem hann gerði kurteislega. Sýndur var endir sigurgöngu, sem að vísu kostaði tugi milljóna og mikla fyrirhöfn. En enginn sá eftir peningunum. Enginn taldi eftir sér fyrirhöfnina.“

Mér finnst það ansi lélegt af Kristínu að blanda fjáröflun björgunarsveita inn í gagnrýni sína á aðfinnslur Friðriks. Sannarlega má ræða endalaust um samhengið milli þess að fara vanbúinn til fjalla og mannaflsfrekra leita sjálfboðaliða sem selja flugelda til að fjármagna rekstur björgunarsveitanna, en þetta er ekki rétta tilefnið til að ræða það. Kristín er að verja myndatökur af ástvinum að sameinast og að tekin séu viðtöl við mann sem er rétt nýsloppinn úr lífsháska. Hún segir að hann hafi ekki verið neyddur í viðtal, það er eflaust rétt. En fólk í geðshræringu á erfiðara með að verjast beiðni um viðtal, hvað þá þegar þeim gefst „tækifæri til að þakka fyrir sig“, sem Friðriki hefur eflaust verið mjög ofarlega í huga á þessari stundu. Það er þó ekki fyrr en eftirá sem hann hefur náð að átta sig á að þessa stund átti hann að fá að eiga í friði, og að hann hefði kannski heldur viljað eiga samtal við fjölmiðla síðar — eða ekki.

Kristín gagnrýnir Landspítalinn einnig í þessu sambandi.
„Sérkennilegt var, að Landspítalinn skyldi taka undir gagnrýni rjúpnaskyttunnar. Fáir kunna betur að nýta sér fjölmiðla til að vekja athygli á bágri aðstöðu sinni en einmitt Landspítalinn. Fjölmiðlar bregðast við þeirra góða málstað.“
Hér er reyndar ekki ráðist á einstakling heldur stofnun. En jafn ósmekklegt fyrir því. Það að vakin sé athygli á bágri aðstöðu Landspítalans þýðir ekki að þarmeð eigi spítalinn að samþykkja að sjúklingar sínir (eða starfsmenn) fái ekki frið fyrir fjölmiðlum þegar þeir renna í hlað eða lenda á þyrlupallinum. Það má jafnvel líta á þessi orð Kristínar sem hótun um að hér eftir skuli Landspítalinn ekki búast við að 365 miðlar fjalli um vanda spítalans.

Það sem stakk mig þó mest af öllu í leiðara Kristínar var orðalagið „sýndur var endir sigurgöngu“. Það er engin sigurganga að ráfa um villtur á fjöllum. Kannski hugsar hún um gönguna frá þyrlupalli að spítalanum sem sigurgöngu. En fyrir mér minnti þetta orðalag „endir sigurgöngu“ á orðið sem notað er yfir hápunkt klámmynda (afsakið samlíkinguna). Því fyrir fjölmiðlum snýst jú allt um „moneyshot“ í máli eða myndum: að kreista fram eftirminnileg augnablik sem svo standa áhorfendum eða lesendum fyrir hugsskotssjónum — og auka aðsókn að fjölmiðlinum. Útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla skrifar þennan leiðara eins og varnarræðu sölustjóra sem þolir ekki gagnrýni á söluaðferðirnar. Það væri henni hollt, og öllum ritstjórum og blaðamönnum, að lesa ofangreindan bækling, og reyna að skilja aðstæður þeirra sem eiga í vök í verjast gegn ásókn fjölmiðla á erfiðum og tilfinningaþrungnum stundum lífs síns.

Efnisorð:

sunnudagur, nóvember 20, 2016

Stífluð klósett, fossar og fantafínt sjónvarpsefni

Sitt lítið af hverju sem rekið hefur á fjörur.

Heilsuvera
Frúin á Hálsi kynnti fyrir mér möguleikann á að endurnýja lyfseðla á netinu. Á Heilsuveru er einnig hægt að láta vita um hvort maður heimili að nota líffæri sín til ígræðslu, fylgjast með bólusetningum og panta tíma á heilsugæslunni. Takk fyrir ábendinguna, Ásta!

Ríkisfjölmiðillinn
Ríkissjónvarpið sýnir nú um stundir þætti um eða undir stjórn kvenna, sem eru allir ólíkir en mjög fínir. Reimleikaþáttur Bryndísar Björgvinsdóttur er mjög flott gerður, viðmælendur fróðir og Bryndís sýnir að henni tekst vel upp í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Edda engum lík“. Ég hélt að þetta væri sjónvarpsgerð á leikritinu „Eddan“ sem Edda Björgvinsdóttir sýndi í fyrra en þá er þetta um lífshlaup hennar með viðtölum við starfsfélaga, vini, ættingja og aðra aðdáendur, auk allskonar atriða úr ferli Eddu. Sem er auðvitað skemmtilegt.

Af eintómum fordómum hef ég aldrei horft á „Stiklur“ eða „Ferðastiklur“. Ekki haft nokkurn áhuga. En þeir tveir þættir sem ég óvart hef slysast til að sjá af Ferðastiklum (og þá kom mér á óvart að það var Lára en ekki Ómar pabbi hennar sem var í aðalhlutverki, svona fylgist ég nú vel með) hafa verið mjög áhorfsvænir og Ísland verið einstaklega fallegt. Í seinni þættinum sem ég sá var talað við Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur bónda í Bárðardal sem var svo bráðskemmtileg að litlu mátti muna að ég rifi mig uppúr sófanum og brunaði norður Sprengisand í heimsókn til hennar. Og svo sá ég loksins Aldeyjarfoss, þennan umtalaða foss sem greinilega nýtur sín ekki á ljósmyndum en sjónvarpsmyndavélin sýnir allar hliðar hans. Ég segi eins og konan (sem þó var ekki í þættinum):
„Hugsa sér þrælmennin sem ætluðu að eyðileggja þetta!“

Ég vissi ekki Illugi Jökulsson væri aftur byrjaður með „Frjálsar hendur“ í Ríkisútvarpinu. Ég er heltekin af forsetakjörinu í Bandaríkjunum svo ég byrjaði á þætti um Bandaríkjaforseta, hef hlustað á þann fyrri (frá 6. nóvember) af þeim tveimur sem komnir eru á hlaðvarpið, hann lofaði góðu.

Illugi Jökulsson skrifar einnig í Stundina og þar hvetur hann fólk á að vera stolt af því að vera vinstri sinnað, og rekur hversvegna í stuttum pistli.

Skandinavíusjónvarp
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata varð sér til skammar í skandinavískum sjónvarpsþætti. Breskur aðalsmaður sem heimsfrægur er orðinn fyrir að vera handritshöfundur Downtown Abbey þáttanna sýndi henni reyndar talsverðan yfirgang og greip frammí fyrir henni, en viðbrögð hennar voru að svara með hávaða og dónaskap.

Ég hef ekki séð alla Skavlan-þættina frá upphafi en ég efast um að nokkur gestur þar hafi sett upp slíkan reiðisvip áður eða komið svona fram við aðra gesti. Maður æpir ekki á fólk í rabbþætti að það eigi að skammast sín þótt maður sé ósammála því. Væri ég þáttastjórnandinn myndi líða langur tími áður en nokkrum öðrum Íslendingi (óuppdregið pakk sem kann sig ekki) yrði boðið inná gafl hjá sjónvarpáhorfendum á Norðurlöndum.

Umhverfis lúpínuna
Lúpínan er umdeild planta. Úrsula Jüneman hefur vakið athygli á eiturefnahernaði sem meðal annars beinist gegn lúpínunni. Skaðræðiseitrið Roundup hefur verið notað í því skyni, meðal annars af Vegagerðinni. Nú berast hinsvegar þau jákvæðu tíðindi að land sem grætt hefur verið upp með alaskalúpínu að tuttugufalt fleiri fuglar þrífist þar en á óuppgræddu landi.
„Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna,“ segir á skogur.is.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu.
Lúpínan fóstrar mikið mófuglalíf — hættum að eyða henni.

Blautklútar í salerni - eða öllu heldur enga blautklúta í salerni
Ég get ekkert umorðað þetta, vitna bara beint í frétt á rúv.is.
„Í rauninni er kannski einfaldara að segja bara hvað má fara í klósettið, það er auðvitað kúkur og piss og svo klósettpappír. Allt annað fer frekar illa með lagnirnar okkar og fráveitukerfið,“ segir Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum.
Þar með talið tannþráður, túrtappar, eyrnapinnar, dömubindi og bómull. Íris segir svokallaðar blautþurrkur sérstakan skaðvald fyrir lagnirnar, Veitur þurfi að senda fólk út af örkinni mörgum sinnum í viku til að losa stíflur vegna þeirra, en viðhaldið er greitt með almannafé.
„Og við höfum fundið mjög mikla aukningu já síðustu ár, hvort sem fólk er að nota meira, það er kannski aðeins meiri markaðssetning á alls konar svona blautþurrkum. Eða hvort fólk er að kasta meiru í klósettið,“ segir Íris.
Hún segir það villandi að margir þessara blautklúta eru á umbúðum sagðir leysast upp.
„En það gerir það bara alls ekki og fráveitur um allan heim eiga við þetta vandamál að stríða,“ segir Íris. „Ef fólk sér þörf fyrir að nota blautþurrkur þá bara gerir það það, bara að henda henni í ruslatunnuna.“

Að lokum er vert að minna á þessar safnanir:
Unicef safnar fyrir sveltandi börn í Nígeríu og Stígamót til að styrkja rekstur samtaka sem hafa létt þungum byrðum af herðum þúsunda þolenda kynferðisofbeldis.


Efnisorð: , , , ,

föstudagur, nóvember 18, 2016

Tunnufólk er ekki allstaðar eins

Nærri tvær vikur eru liðnar síðan ég sá auglýsingu sem kollvarpaði heimsmynd minni, gerði mig órólega og olli því að nú óttast ég aðkomufólk.

Heilsíðuauglýsing frá Kópavogsbæ með yfirskriftinni Kópavogur flokkar lýsir því í máli og myndum að nú geti íbúar Kópavogs flokkað allt endurvinnanlegt plast með pappírnum í bláu tunnurnar. PLAST MEÐ Í BLÁU TUNNURNAR? Hvaða villimennska er þetta? Hér í höfuðstaðnum er svoleiðis búið að banna manni að setja neitt annað en pappír í bláu tunnurnar að aldrei fer svo gluggaumslag útí tunnu án þess að umslagið sé augnstungið. Plasthimnan sem rifin er af umslaginu fer svo auðvitað í græna tunnu - með hinu plastinu! En svo kemur í ljós að nágrannasveitarfélög leyfa sér að vera með allt annað flokkunarkerfi!

Hvað á svo að gera ef einhver þessara illa uppöldu Kópavogsbúa flytja (flýja) yfir til Reykjavíkur? Munu þeir aðlagast siðmenningunni? Þarf að senda þá á námskeið? Eða er eina ráðið að neita að taka við 'þessu fólki' í heiðvirð fjölbýlishús?

Ekki það, það eru auðvitað smávægilegir gallar á þessu stranga kerfi hér í höfuðstaðnum. Það væri tildæmis ágætt ef einhver vildi útskýra fyrir mér hvenær brúsi með hárnæringu telst nægilega vel skolaður til að mega fara í grænu plasttunnuna. Eða segja mér hversvegna tunnum undir plast var valinn grænn litur. Þetta vefst fyrir mér. Þó ekki eins mikið og hin furðulega staðreynd og að í næsta sveitarfélagi megi blanda plasti og pappír saman í eina tunnu.


Efnisorð:

þriðjudagur, nóvember 15, 2016

Parísrafmagnsmetan

Eyjólfur hresstist þegar Bjarni Ben gafst uppá að reyna að mynda ríkisstjórn. Það er afar ánægjulegt að svo virðist sem allir flokkar hafni samstarfi við hann (a.m.k. í stjórn þar sem hann hefur tögl og haldir). Nú fær Katrín stjórnarmyndunarumboðið, sem er enn eitt ánægjuefnið. Eftir allan bömmerinn með þingkosningarnar og svo forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þá veitti ekki af smá gleði í hjartað.

Og skal nú haldið áfram þar sem frá var horfið við bloggskrif.

Í þarsíðustu viku tók Parísarsamkomulagið gildi, okkur þessum sem höfum áhyggjur af ofhitnun loftslagsins til nokkurs léttis.

Fyrirfram var ég ekki bjartsýn, en það var aðallega vegna þess að ég átti von á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar myndi skemmileggja fyrir árangri í loftslagsmálum. Þá grunaði mig ekki að næsti forseti Bandaríkjanna yrði maður sem beinlínis hefur það að markmiði að draga Bandaríkin út úr samkomulaginu. Reyndar sagði ég að „íslenska ríkisstjórnin verður örugglega ekki sú eina sem snýr þessum samningi uppá andskotann“ — en þá grunaði mig ekki að andskotinn sjálfur yrði einn valdamesti maður heims.

Fyrirsögn Fréttablaðsins endurspeglar viðhorf Trumps til loftslagsbreytinga, sem hann hafnar: „Endi olíualdarinnar frestað“.
„Trump sagði ítrekað í kosningabaráttu sinni að yrði hann kosinn forseti þá myndi hann kljúfa þjóð sína frá samkomulaginu sem leiðtogar 196 ríkja undirrituðu og taka fyrir alla fjármögnun loftslagstengdra verkefna úr bandarískum sjóðum. Eins vill hann gera allt sem í hans valdi stendur til að auka framleiðslu á olíu, gasi og kolum á leið sinni til að tvöfalda hagvöxt í Bandaríkjunum. Það loforð endurtók hann síðast í sigurræðu sinni“.

Trump er með öðrum orðum líklega hættulegasti maður heims.

Ekki það, við mannskepnurnar yfirleitt, allavega þau okkar sem ferðast um í farartækjum knúnum jarðefnaeldsneyti, erum auðvitað öll ógn við lífríki jarðar.

Notkun jarðefnaeldsneytis til að knýja vélar flugvéla, skipa og allskyns ökutækja er sérstakur skaðvaldur. Það verður að skipta um orkugjafa, hætta að framleiða farartæki sem eingöngu notast við jarðefnaeldsneyti. Fyrir nokkrum árum var talsvert talað um metan sem orkugjafa (einn helsti kosturinn er að það verður til við endurvinnslu) og var nokkrum bílum breytt þannig að þeir gengu fyrir metani í stað bensíns (eða díselolíu) áður. Þessir breyttu bílar vöktu ekki mikla lukku (farangursrýmið var tekið undir tankinn) en nú framleiða bílaframleiðendur metanbíla sem eru fluttir hingað til lands — og til er metanstrætó og metansorphirðubílar— en gallinn er sá að aðeins örfáar bensínstöðvar selja metan og aðeins ein metanstöð er utan höfuðborgarsvæðisins og hún er á Akureyri. Það er því lítt hægt að nota metanbíla til langferða eða trassa að fylla á tankinn í trausti þess að alltaf sé hægt að renna inná næstu bensínstöð til að fylla á.

Reyndar eru líka til metan-tvinnbílar, sem bæði hafa metan- og bensíntank, sem þýðir að það er þá hægt að nota bensínið þegar metanið þrýtur og komast þannig að minnsta kosti til Akureyrar og tilbaka (ef ekki hreinlega stíga bensínið í botn og keyra hringinn). Þá er auðvitað verið að nota andsvítans bensínið, en þó sjaldnar en áður, og aðeins þegar önnur úrræði eru ekki í boði. Vonandi verður samt gerð gangskör í því að setja upp metanstöðvar um landið svo metanbílar verði alvöru valkostur fyrir þá sem ekki ætla alfarið að halda sig innan höfuðborgarsvæðisins.

Flestum líst best á rafmagnsbíla sem framtíðarvalkost. Engin mengun, hægt að nota rafmagnið úr þessum vatnsaflsvirkjunum sem þegar er búið að reisa. Eini gallinn — og hann verður að bæta fyrr eða síðar með einhverju móti — er að það er eiginlega ekki nema fyrir fólk í einbýlishúsum eða blokkum með bílskýli að eiga rafmagnsbíl. Fólk sem ekki á bílskúr eða getur sett upp sína einka-hleðslustöð við sitt eigið bílastæði, á mjög erfitt með að hlaða rafmagnsbíl. Hraðhleðslustöðvar eru jú komnar upp hér og þar, en það er bara fyrir fólk sem hefur góðan tíma fyrir sér eða umburðarlynda vinnuveitendur að setja bíla þar í samband og þurfa svo að annaðhvort bíða í bílnum eða sækja hann úr hleðslu þegar hann er fullhlaðinn.

Um daginn auglýsti bílaumboð vistvæna daga þar sem var rætt um metanbíla og rafmagnsbíla og allskonar þeim tengt. Ekki mætti ég og varð ekki vör við að fjölmiðlar upplýstu neytendur um helstu niðurstöður, það gæti komið síðar. Einnig var haldinn fundur um rafbílavæðingu Íslands á vegum banka og samtöku orku- og veitufyrirtækja. Einn forsvarsmanna fundarins segir að rafbílar séu aðeins tvö prósent af öllum seldum bílum á Íslandi. Það er fáránlega lág tala, en að einhverju leyti má eflaust kenna um hve fáir hafa aðstæður til að hlaða rafbíla heima hjá sér (og hve fáir af þeim sem hafa þannig aðstæður hafa áhuga á að eiga mengunarsparandi bíl).
„Það er fljótt að tínast úr eftirspurninni. Ef fólk þarf að fara út á land oft, ef það býr í blokk og getur ekki hlaðið heima hjá sér, eða ef það er flókið að hlaða bílinn framan við húsið, dregur það úr vilja fólks til að kaupa rafbíl.“
Rafmagnstvinnbílar eru auðvitað möguleiki einsog metantvinnbílar, og ættu að henta fleirum en þeir eru 2,9 prósent seldra bíla núna. Í Noregi „eru rafbílar að slaga í 30 prósent af öllum seldum fólksbílum,“ segir í frétt um rafbílavæðingu í Markaðnum.

Litlu skrefin í átt að því að nota endurnýtanlega orkugjafa sem ekki menga eru betri en að gera ekki neitt. Ef allir keyra um á tvinnbílum (hybrid) í stað bíla sem eingöngu nota bensín eða dísel minnkar útblástur til muna. Næsta skref verður svo að fara á bíla sem nota ekkert jarðefnaeldsneyti. Og auðvitað verður að vinna að því að skip og flugvélar notist við aðra orkugjafa, það eru farartæki sem menga ekkert smáræði.

Er ekki annars Trump að fara að leggja einkaþotunni?

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, nóvember 09, 2016

9.11.

Kvíði minn var ekki ástæðulaus. Niðurstaða kosninganna í Bandaríkjunum er ótrúleg og vond.

Donald Trump verður forseti. Repúblikanar hafa báðar þingdeildirnar. Það þýðir að allir hæstaréttardómarar sem skipaðir verða næstu fjögur árin verða harðlínumenn sem eru á móti fóstureyðingum og samkynja hjónaböndum. Mikilvæg mannréttindi — sem Bandaríkjamenn hafa öðlast með blóði, svita og tárum — verða afturkölluð.

Fyrir heimsbyggðina alla, eða allavega Vesturlönd (Pútín er kátur) er þetta sjokk. Fyrir íbúa í Bandaríkjunum sem tilheyra minnihlutahópum, hvort sem það eru múslimar eða innflytjendur frá löndum sunnan við Bandaríkin, eru þetta afar vond tíðindi svo vægt sé til orða tekið. Þegar KKK fagnar er fokið í flest skjól fyrir stóran hluta þeirra sem búa og starfa í Bandaríkjunum.

Eftir Brexit, þegar Bretar bjánuðust til að velja að skella í lás á evrópusamstarf og innflytjendur, hafa samkynhneigðir og minnihlutahópar af erlendum uppruna orðið fyrir ógnunum og ofbeldi í meira mæli en áður í Bretlandi. Ofbeldismennirnir eru rasistar sem þykir sem þeirra málstaður ('burt með alla útlendinga sem stela störfunum okkar’) hafi fengið hljómgrunn og lögmæti með niðurstöðu Brexit kosninganna. Þegar ljóst var hvert stefndi eftir því sem leið á talningu í forsetakosningunum í nótt hlýtur að hafa runnið kalt vatn milli skinns og hörunds á fólki sem tilheyrir ýmsum minnihlutahópum í Bandaríkjunum.

Stjórnmálaskýrendur segja, réttilega, að þetta hafi verið sigur hinna ómenntuðu láglaunastétta sem finnst kerfið hafa svikið sig. En það má ekki líta framhjá þeirri staðreynd að höfuðandstæðingur Trumps var kona. Nógu erfitt hafa margir átt með að þola að hafa svartan karlmann sem forseta (lögregluofbeldi gegn svörtu fólki hefur verið mjög áberandi í forsetatíð Obama, sem ekki var af virðingu við hann; ef Hillary Clinton hefði orðið forseti hefðu konur kannski verið myrtar í meira mæli?) en tilhugsunin um konu sem æðsta yfirmann landsins, það mátti greinlega ekki gerast. Frekar ómennið Trump en konu. Frekar vanstilltan og dónalegan kall en konu. Allt frekar en konu.

Og nú sitjum við öll uppi með Trump.

Jesúsminn.

Efnisorð:

laugardagur, nóvember 05, 2016

Kvíðakast sem nær yfir tvær heimsálfur

Enda þótt ég hafi sveiflast undanfarna daga milli vonar og ótta; vonað að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins renni út í sandinn og óttast að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra, þá er það óðum að snúast uppí eitt allsherjar kvíðakast. Því hvað ef hér verður sterk hægri stjórn með Engeyinga við stjórnvölinn - eða það sem verra er: ef nú VG missir vitið og fer í stjórn með Sjöllum?

Svo ekki sé minnst á hin kosningaúrslitin sem eru kvíðvænleg fyrir alla heimsbyggðina: hvað ef klikkhausinn Trump verður forseti Bandaríkjanna?

Þetta er óþolandi óvissa.

þriðjudagur, nóvember 01, 2016

Hugmyndafræðilegt stolt og stöðugleiki

Undanfarið hafa (hægri) menn verið óðir og uppvægir að fá Vinstrihreyfinguna - grænt framboð í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Leiðari Fréttablaðsins í dag snerist t.a.m. um þá hugmynd, og endaði á orðunum:
„Vera kann að lausnin á vandanum [að mynda ríkisstjórn] felist í samtölum VG og Sjálfstæðisflokksins. Menn þurfa stundum að kyngja hugmyndafræðilegu stolti til að tryggja frið, stöðugleika og sátt í samfélaginu.“

Við þetta er margt að athuga.

1) Sjálfstæðisflokknum þykir það eflaust heppilegt að nýta sér persónulegar vinsældir Katrínar til að vekja traust á sér og ríkisstjórn undir stjórn Bjarna Benediktssonar.

2) Það er ekki átt við hugmyndafræðilegt stolt Sjálfstæðismanna, heldur Vinstri grænna. Sjálfstæðismenn ætla ekki í neitt vinstra-bandalag við einn eða neinn eða gera neitt sem stríðir gegn þeirra hagsmunum/sannfæringu til að koma til móts við VG. Heldur ætlast þeir til að VG „kyngi stoltinu“ eins og það sé það eina sem kemur í veg fyrir að vinstrimenn fari í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

3) Það er himinn og haf milli hugmyndafræði VG og Sjálfstæðisflokksins. Félagshyggja og frjálshyggja eru tveir andstæðir pólar, sem kristallast í muninum á hvernig á að reka innviði samfélagsins. Annar flokkurinn vill að opinberan rekstur á t.d. mennta- og heilbrigðiskerfinu og að allir eigi jafnan aðgang með litlum tilkostnaði, meðan hinn vill einkavæða og forgangsraða í þágu þeirra efnameiri.

4) Stöðugleikinn. Hinn meinti stöðugleiki — og þá efnahagslegur — sem Sjálfstæðisflokkurinn hrósaði sér af í kosningabaráttunni var stöðug uppsveifla fyrir þá efnameiri og algjör ládeyða fyrir þá lægst launuðu og bótaþega. Með splúnkunýjum launahækkunum sem Kjararáð var að útdeila (og er það rétt að Bjarni hafi látið þegja yfir þessu framyfir kjördag?) er útséð með þennan meinta stöðugleika. Samningar eru lausir fljótlega og það verður ekkert elsku mamma í samningum við ríkisvald sem skammtar þingmönnum og ráðherrum af svo miklu örlæti. Aðrar launþegahreyfingar munu einnig leitast við að taka mið af þessum gríðarlegu launahækkunum sem útvaldir fengu. Og nei, það verður engin sátt í samfélaginu meðan svona tryllingslegt óréttlæti blasir við.

Til að bæta gráu ofan á svart lætur Brynjar Níelsson, sem hlýtur að vera einstaklega mikið fífl, hafa það eftir sér að honum þyki þessi launahækkun eðlileg og „hið besta mál“. Fyrir það fyrsta þá hlýtur hann að hafa vitað að almenningur allur brást mjög reiður við þessum Kjararáðs-hækkunum. Í öðru lagi þá ætti það ekki að hafa farið framhjá honum að yfir standa stjórnarmyndunarviðræður og að Sjálfstæðisflokkurinn á í basli með að fá aðra flokka til að vinna með sér, hvað þá Vinstri græn. Eða eru þetta útpæld ummæli? Er hann viljandi að reyna að fæla burtu alla þá sem standa með hinum almenna launamanni þessa lands? Því varla verður þetta til þess að VG kasti frá sér „hugmyndafræðilega stoltinu“ og komi þjótandi í samstarf með flokki sem hefur Brynjar Níelsson og hans viðhorf innanborðs.

Ekki vil ég líkja Brynjari við eina af mínum uppáhalds persónum í Íslendingasögunum. En mér varð nú samt hugsað til Skarphéðins Njálssonar sem átti allt sitt undir því að sætt tækist í máli hans og bræðra hans, en í hvert sinn sem virtist sem menn væru að snúast á þeirra band sneri Skarphéðinn uppá sig og var með stæla, var orðljótur og meinyrtur og talaði um rassgarnarendann merarinnar. Gerði hann menn vægast sagt afhuga því að leggja málstað hans lið. Nema þeim ríkasta sem líkaði vel að Skarphéðinn hafði niðurlægt höfuðóvin sinn og bauðst til að veita Njálssonum lið.

Brynjar er enginn Skarphéðinn (hann var töffari og harmræn hetja), en hitt er víst, að eingöngu þeir sem meta auðsöfnun umfram annað hafa nokkurn áhuga á að leggja lag sitt við annan eins þingmann eða flokkinn hans.

Það eina sem er gott við blaðrið í bjánanum er að nú hlýtur hann endanlega að hafa gert útaf við allar spekúleringar um að Sjálfstæðisflokkurinn fái Vinstrihreyfinguna - grænt framboð til liðs við sig.

Efnisorð: , , ,