mánudagur, apríl 27, 2009

Kvíðakast vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Ég greiddi ekki atvæði með Evrópusambandið í huga og mér finnst þarafleiðandi undarlegt að heyra talað um að kjósendur hafi fyrst og fremst verið að greiða atkvæði með eða gegn ESB. Fyrir mér snerust kosningarnar um allt annað. Uppgjör við fortíðina og ósk um breytt þjóðfélag þar sem félagshyggja kæmi í stað frjálshyggju.

En þar sem að nú í stjórnarmyndunarviðræðum virðist ESB aðild vera sett sem skilyrði þá finnst mér að Vinstri græn eigi að samþykkja að gengið verði til aðildarviðræðna. Meðan á því ferli stendur — eða a.m.k. þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir — verði þjóðin rækilega upplýst um hverjir séu kostir og gallar við inngöngu. Þá kjósum við og niðurstaðan verður annaðhvort Evrópusinnum í hag eða ESB andstæðingum.*

Fram að því að ríkisstjórn verður mynduð verð ég áfram með hnút í maganum. Ég er skíthrædd við að annaðhvort Samfylking eða Vinstri græn setji einhver þau skilyrði varðandi þetta mál að hinn flokkurinn hætti við alltsaman. Úff.

Kvíðinn er svo mikill að ég er ekki einu sinni farin að gleðjast yfir því að fjöldi kvenna á þingi sé kominn í 43%. Og ætti það þó venjulega að kæta mig stórlega.

___
* Niðurstaðan verður aldrei gæfuleg þegar svona margir vitleysingar hafa atkvæðisrétt. Nærri fjórðungur þjóðarinnar kaus Sjálfstæðisflokkinn núna á laugardaginn — eftir hrun og spillingarafhjúpanir. Og næstum 15% kusu Framsóknarflokkinn. Er þessu fólki sjálfrátt?

Efnisorð: , ,

föstudagur, apríl 24, 2009

Landlausir Sjálfstæðismenn

Það hefur verið lengi vitað að Sjálfstæðisflokkurinn gengi erinda auðmanna og fyrirtækja. Sömuleiðis var einkavinavæðingin við einkavæðingu bankana öllum ljós. Það að Sjálfstæðismenn áttu sök á flestu því sem orsakaði hrunið — beint eða óbeint — sjá flestir sem vilja. Aðeins þeir kjósendur flokksins sem kusu hann af vana og af því að pabbi gerði það létu sér koma á óvart þegar spillingarmálin fóru að hrannast upp og þáttur flokksins í hruninu varð lýðum ljós. En svo eru þeir kjósendur sem vissu þetta allt og þetta kom þeim ekki á óvart en urðu miður sín yfir viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins þegar eftir skýringum var leitað.

Viðbrögð sem gengu útá að láta eins og ekkert hefði í skorist: getum við ekki farið að tala um eitthvað annað. Og afsökunin fyrir hruninu var að fólk hefði brugðist (samt megnið af því áfram í forystu) en ekki stefnan og svo ákveðið að halda stefnunni sem flest sæmilega gefið fólk áttar sig á að var röng. Það er þessi ótrúlegi skortur á sjálfsgagnrýni og samvisku sem hrekur restina af kjósendunum frá — það er að segja þá sem ekki sitja við kjötkatlana eða vilja vera nærri þeim.

Margir þessara fyrrum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins ætla að skila auðu í örvæntingu sinni.

Merkilegt er, eins og Páll Ásgeir segir, hvað þeir eru blindir á aðra möguleika.

En það var svosem ekki vegna frumlegrar eða gagnrýninnar hugsunar sem þeir kusu flokkinn upphaflega.

__
Ps. Lýsing Láru Hönnu á Framsóknarflokknum er eins og töluð úr mínu hjarta.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 23, 2009

VG og Samfylkingu takk

Ég hef miklar áhyggjur af kosningunum á laugardaginn. Reyndar er stjórnarflokkunum spáð miklu fylgi en ég hef áhyggjur af því að of margir skili auðu og að á síðustu metrunum sæki Sjálfstæðisflokkurinn á. En þó að t.d. Samfylkingin verði sigurvegari kosninganna (hversu tæpt sem það stæði*) þá óttast ég að í stað þess að halda áfram samstarfinu við Vinstri græn þá verði tekin sú stefna að kippa Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum — eða þeim báðum — með í ríkisstjórn. Vinstri græn hafa gefið út yfirlýsingar um að vilja halda stjórnarsamstarfinu áfram (þrátt fyrir æsing sumra Samfylkingarmanna útaf ESB) svo ekki þarf að óttast að sá flokkur kúvendi þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum.

Mér finnst semsagt algerlega nauðsynlegt að Samfylking og Vinstri græn haldi áfram ríkisstjórnarsamstarfinu, helst án aðkomu annarra flokka.** Ég skil samt vel að fólk sé ekkert of hrifið af Samfylkingunni vegna ýmissa spillingarmála sem hún hefur tengst (og langvinnra ásakana um að hafa gengið erinda Baugs - sem hún virðist reyndar hafa gert). Þá var ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn síst til að hreykja sér af og óskiljanlegt afhverju því var ekki slitið fljótlega eftir bankahrunið.*** Svikin við náttúruverndarstefnu flokksins eru líka minnisstæð. Reyndar mátti varla á milli sjá á köflum hvor flokkurinn væri meiri frjálshyggjuflokkur, Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn, en þó var og er innan Samfylkingarinnar gegnheilt félagshyggjufólk sem virðist ekki hafa látið neitt hagga sér. Fer þar fremst í flokki núverandi forsætisráðherra sem stundum er kölluð heilög Jóhanna — en það verður ekki háðsyrði þegar það er sagt um hana.

Vinstri græn hafa þá sérstöðu að hafa talað gegn græðgisvæðingunni, klámvæðingunni, ójöfnuðinum í þjóðfélaginu, neysluhyggjunni, ofurlaununum, bankasölunni og svo mætti lengi telja. Í stuttu máli sagt: vöruðu við og tóku ekki þátt. Fyrir þetta var hlegið að þeim og gert lítið úr þeim en þau héldu samt sínu striki án þess að láta afvegaleiðast og taka þátt í spillingunni. Vinstri græn voru ekki í klappliði útrásarvíkinganna og þáðu ekki „styrki“ frá þeim eða bönkunum.

Samfylkingin er því ekki alveg með hreinan skjöld en besta fólkið innan hennar er líka eðalfólk. Besti kosturinn í ríkisstjórn er því Samfylkingin í samstarfi við Vinstri græn. Saman gera þessir flokkar hina erfiðu tíma sem framundan eru vonandi sem bærilegasta fyrir okkur öll.

En fari svo að Samfylkingin taki aftur upp samstarf við Sjálfstæðismenn, þá verður frjálshyggjan ofaná.*** Ég fyllist skelfingu við tilhugsunina. Þá er bara svartnættið framundan.

___
* Því tæpar sem Samfylking vinnur því meiri líkur á að tína upp fleiri litla flokka með sér.
** Samt finnst mér allt í lagi að hafa fólk í ríkisstjórn sem situr ekki á þingi, sbr. núverandi dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra.
*** Sökina á hruninu er samt ekki að finna hjá Samfylkingunni, heldur hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, en sannarlega var megnið af Samfylkingunni í klappliðinu auk þess að snúa blinda auganu að því sem var að gerast.
*** Eftir kosningarnar 2007 hafði ég efasemdir um að Samfylkingin næði að halda aftur af Sjálfstæðisflokknum. Það fór enn verr en mig hefði grunað. Ég talaði líka um að úrslit kosninganna væru þunglyndisvaldandi, ég óttast að svo fari einnig nú.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, apríl 22, 2009

Atkvæðaseðill er líka einkunnaspjald

Það er líklega ekki seinna vænna að koma með áminningu um hvernig ráðstafa skuli atkvæði sínu.*

Kosningaloforð eru innantóm. Ekki bara útaf þeim algildu sannindum að ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt þá er það ekki satt, heldur vegna þess að þegar til stjórnarmyndunarviðræðna kemur verða alltaf gerðar málamiðlanir og þá geta helstu og mikilvægustu mál verið samin útaf borðinu. Þá er súrt að horfa á eftir atkvæði sem átti að tryggja að einmitt þau mál njóti forgangs. Samt er auðvitað eðlilegt að bera saman kosningaloforð flokkanna þó ekki væri nema til að sjá til hverra er verið að reyna að höfða. Borgarahreyfingin (sem er algerlega blind á kynjamisrétti og ræðir engin feminísk mál) þykist ekki vera stjórnmálaflokkur því fólki þykir stjórnmálamenn hafa svikið þjóðina. Framsóknarmenn reyna að höfða til sama kjósendahóps með því að þykjast vera með öðruvísi fólk innanborðs en framagosa fortíðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn svo margsaga um ESB að það eina sem uppúr stendur er að þeir eru að reyna að fá atkvæði (og snapa sér far með Samfylkingunni í ríkisstjórn og Samfylkingin trúir því að inngangan í ESB sé agnið sem hrífi.

Ég er ekkert sérstaklega upptekin af kosningaloforðum vinstri grænna. Enda ver ég atkvæði mínu eins og ég hef alltaf gert: Eftir að hafa borið saman kosningaloforðin léttvægu legg ég mat á hvað flokkarnir gerðu á undanförnum árum, hver stefnan var, hvernig henni var fylgt og hvernig til tókst. Menn og málefni þar innifalin.

Treysta náttúruverndarsinnar Samfylkingunni eftir útreiðina sem Fagra Ísland fékk — eða eru Helguvík og Bakki undantekningar sem sanna regluna?

Þykir einhverri að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið sig vel í efnahagsmálum? Er framganga hans eða Framsóknarflokksins í kvótamálinu, Íraksstríðsyfirlýsingunni, virkjanamálum og samningum við álfyrirtæki slík að það beri að verðlauna?**

Er Frjálslyndi flokkurinn fullsæmdur af því hvernig talað hefur verið um innflytjendur þar á bæ?

Og svo eru það öll spillingarmálin og hvernig flokkar og einstaklingar hafa farið með efnahag þjóðarinnar ...

Atkvæði á ekki að veita útá loforð sem auðvelt er að svíkja. Heldur nota það eins og verið sé að gefa einkunn fyrir frammistöðu.

___
* Auðvitað eiga öll atkvæði allra landsmanna að gilda jafnt.

** Ég sá Draumalandið í kvöld. En ég hafði líka lesið bókina. Kjósendur þessara flokka virðast ekki hafa gert það.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, apríl 19, 2009

Börn hafa rétt á að vera ekki beitt ofbeldi

Daginn fyrir þinglok komst annað og ekki síður mikilvægt mál en vændismálið til afgreiðslu og varð að lögum. Það var bann við því að beita börn líkamlegum og andlegum refsingum. Þarmeð er loksins búið að framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í 19. grein hans er tekið sérstaklega fram að börn skuli njóta verndar gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu. Þá er einnig í 39. gr. tekið fram að börn megi ekki beita ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.

Það er réttur barna að þau skuli ekki þurfa að þola líkamlegar eða andlegar refsingar.

Foreldrum eða forsjáraðilum er óheimilt að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum, þ.m.t. refsingum í uppeldisskyni.

Lögin fela í sér að foreldrum og öðrum forsjáraðilum sé bæði skylt að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu annarra og einnig að þeim sé óheimilt að beita sitt eigið barn slíku ofbeldi. Sérstaklega er tiltekið að refsingar í uppeldisskyni séu óheimilar, þar á meðal flengingar.* Hér er greinilega verið að vísa í atburði eins og raktir voru í nýlegu dómsmáli þar sem karlmaður hafði rasskellt syni kærustu sinnar og var sýknaður. Ef sambærilegt mál kemur upp þá er enginn vafi á því að ofbeldið er ólöglegt.

Þetta frumvarp lögðu fram þau Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Verðlaun eru ekki veitt fyrir að sjá hvað þetta fólk á sameiginlegt með fólkinu sem stóð að vændisfrumvarpinu.


___
* Þetta hef ég allt beint uppúr þingskjölum en umorðaði lítillega.

Efnisorð: ,

föstudagur, apríl 17, 2009

Það er glæpsamlegt að kaupa konur

Ég fylgdist svo spennt með útsendingu frá Alþingi í dag að taugarnar þoldu ekki að fylgjast með atkvæðagreiðslu í beinni. En niðurstaðan er sú að þingið samþykkti* að farin yrði sænska leiðin og þarafleiðandi er bannað að kaupa vændi á Íslandi.

Nú munu drengir ekki alast upp við það viðhorf að það sé sjálfsagt að kaupa konur. Heldur að það sé glæpsamlegt og skammarlegt.

Fyrir tilstilli Kolbrúnar Halldórsdóttur verður samfélagið betra.**

Ég á ekki orð ég er svo glöð.

___
* Sjálfstæðismenn vildu auðvitað að karlar mættu kaupa sér konur. Flestir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna en Björn Bjarnason, Jón Magnússon, Kjartan Ólafsson greiddu atkvæði gegn lögunum.

** Flutningsmenn frumvarpsins á þessu þingi voru Atli Gíslason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir, Helga Sigrún Harðardóttir og eiga þau öll þakkir skildar — sömuleiðis þau sem greiddu frumvarpinu atkvæði sitt. En það er enginn lygi að Kolbrún á heiðurinn af að hafa staðið vaktina í þessu máli.

Viðbót: Halla Gunnarsdóttir rekur allan feril málsins á greinargóðan hátt.
(Ég ætla hinsvegar ekki að setja tengil á karlmanninn sem bloggaði um vændisfrumvarpið og fannst það vitleysa að banna vændi meðan fólk væri að missa heimili sín. Og sagði: „Það gæti bjargað einhverjum heimilum ef annar hvor aðilinn fer að selja sig úti á götu ef viljinn er fyrir hendi.“  Hvor aðilinn ætli það eigi að vera sem á að bjarga heimilinu? Ojbjakk.)

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, apríl 15, 2009

Múlbindingar sérstaklega hannaðar fyrir fólk með skoðanir

Mér finnst mjög sérkennilegt að hægt sé að losna við að Kolbrún Halldórsdóttir komi að ákvörðunum um virkjanir í Þjórsá vegna þess að hún hafi skoðanir á málinu. Ef einhver kemst á þing eða þingmaður verður ráðherra meðal annars vegna áhuga síns á ákveðnum málaflokki, á þá viðkomandi þá aldrei að mega taka ákvarðanir í málum sem tengjast þessu baráttumáli sínu? (Þá mættu bloggarar aldrei fara á þing eða fá nein embætti).

Það er munur á þessu og því að vera þegar ráðherra eða vera í nefnd sem fjallar um ákveðinn málaflokk og taka þá uppá því að vera með yfirlýsingar hægri vinstri, vitandi að þú hefur áhrif á niðurstöðu mála. Þegar Kolbrún hefur tjáð sig um virkjanabrjálæðið í Þjórsá hefur hana líklega ekki grunað að hún yrði í raun umhverfisráðherra. Þegar Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra var með heitingar í Baugsmálinu þá vissi hann að það hefði áhrif. Starfandi ráðherra, rétt eins og embættismenn, má ekki láta útúr sér slíkt. En fólk sem hefur ekki embætti hlýtur að mega tjá sig um áhugamál sín og baráttumál. Rétt eins og það var fullkomlega eðlilegt að Eva Joly væri ráðin til að rannsaka bankahrunið eftir að hafa sagt að það væri greinilega ekki allt með felldu. Hefði kannski frekar átt að ráða fólk sem var sannfært um að ekkert væri að - gafst það svo vel hjá Fjármálaeftirlitinu?

Efnisorð: , ,

mánudagur, apríl 13, 2009

Trúa þeir því sjálfir?

Fyrsta maí 2003 flutti George W. Bush fræga ræðu um borð í herskipi og sagði þá að verkefninu væri lokið - og átti þar við stríðið í Írak.

Nú hefur Bjarni Benediktsson II lýst því yfir að styrkjamálinu sé lokið.

Ég held að sá síðarnefndi olíuprinsinn hafi ekki frekar rétt fyrir sér en sá fyrrnefndi.

Efnisorð: ,

sunnudagur, apríl 12, 2009

Svo miklu betra en barnaklám - þessar eru orðnar átján!

Af og til eru upprættir barnaklámhringir eða einstaklingar verða uppvísir að því að hafa barnaklám í fórum sínum. Aldrei heyrist neitt um að lögregla í mörgum löndum leggi til atlögu við „fullorðinsmynda“ klámframleiðendur eða þá sem dreifa klámi, kaupa það eða eiga heima hjá sér. Samt er klám, bæði framleiðsla þess og dreifing, bannað í mörgum löndum. Ég hef ýmsar hugmyndir um afhverju dreifing kláms er ekki stöðvuð (afþví að það hentar ekki karlveldinu) en held að oft sé fyrirslátturinn sá að það sé svo erfitt að skilgreina hvað er klám. Sumir kalla sumt af því erótík og aðrir gera greinarmun á ljósbláu og grófu og svo framvegis.

Hvernig stendur á því að þessar skilgreiningar vefjast ekkert fyrir þeim sem reyna að uppræta barnaklám? Eru ekki mörg stig og skilgreiningar í gangi þar? Er ekki til barna-erótík og léttbláar myndir með fjögurra ára og yngri? Nei, líklega erum við flest sammála um hvað er barnaklám og að það beri með öllum ráðum að stöðva framleiðslu þess og dreifingu. En finnst okkur öllum að um leið og börn verða 18 ára þá sé bara fínt að þau séu notuð sem rúnkfóður fyrir karlmenn á öllum aldri? Þá virðist „frelsi þeirra“ til að glenna sig framaní alheiminn æðra þeirri því sem vitað er um klám, framleiðslu þess og afleiðingar.

Skiptir engu að næstum allar þær konur (og karlar) sem eru í klámmyndum hafa verið þolendur kynferðisofbeldis í æsku. Sem börnum var þeim nauðgað eða þær beittar einhverskonar valdi til að hafa af þeim kynferðislegt gagn — og það þykir ægilega slæmt að börn verði fyrir slíku — en um leið og þær verða 18 er barasta fínt að gera sér þessa raun þeirra að féþúfu. Frábært.

Ég óska öllum til hamingju sem fíla klám, þið eruð æðislegir. Niðurlægðar konur með brotna sjálfsmynd eru bestar þegar hægt er að rúnka sér yfir þeim! Rúnk rúnk!

Efnisorð: , , ,

laugardagur, apríl 11, 2009

Líkamar sem eru hataðir

Fjölmiðlar breiða út fordóma er titill á viðtali sem Fréttablaðið átti við Sigrúnu Daníelsdóttur, sálfræðing á Barna- og unglingageðdeild sem vinnur við að eyða fordómum um líkamsvöxt. Á hún þar aðallega við fordóma gegn fitu. Mjög þarft umræðuefni.

Það er athyglisvert að sálfræðingurinn sér mun á því hvernig hægri sinnað fólk og vinstri sinnað fólk lítur offitu. Hægri sinnað fólk tengir hana við skort á sjálfsaga en vinstri sinnar tengja hana við neysluhyggju. Líklega þekki ég bara hægri sinnað fólk því viðhorfið sem ég heyri oftast er á þá lund. Einhverntímann las ég á netinu að Bandaríkjamenn af lægri stéttum væru feitari en hinir því McDonalds væri á hverju horni og í stórmarkaðnum væri skyndibitamatur til upphitunar á lágu verði en hinsvegar væru ekki seldar heilsuvörur þar, þær væru seldar í sérstökum verslunum í dýrum hverfum eða ekki í alfaraleið. Semsagt þar sem ríka fólkið skrapp á jeppanum sínum. Þetta þótti engum merkilegt sem ég sagði frá þessu og fólk fór bara að tala um feita Ameríkana og gera grín að þeim. Þegar svo Íslendingar fóru að verða æ þyngri (og ekki var lengur hægt að hlæja að Ameríkönum) tók ég eftir að í hvert sinn sem stórmarkaðirnir voru með tilboðsverð á matvöru — auglýsingarnar þöktu heilu opnurnar í dagblöðunum (sem eru í eigu matvöruverslanakeðjanna} — þá var matvaran ódýra oftar en ekki feitt kjöt, hamborgarar, ís, súkkulaðisósur, 2jalítra kók í kippum, kex og þar fram eftir götunum. Grænmeti eða annað heilsufæði virtist ekki vera selt með afslætti. Ég get semsé ekki betur séð en sama mynstrið væri hér og í Bandaríkjunum: borðaðu ódýrt og þá borðarðu óhollt í leiðinni.

Í viðtalinu er talað um að konur/stelpur sem finna til vanlíðunar við það eitt að fletta tískublöðum. Fegurðarsamkeppnir láta þeim líka líða illa. Ég horfði nýlega í stutta stund á tónlistarsjónvarpsstöð og varð hugsi yfir konunum sem þar sáust. Þær voru allar eins. Allar af svipaðri hæð, jafngrannar með sömu silíkonbrjóstin. Og þó það sé óhugnalegt útaf fyrirsig að það sjáist ekki aðrar konur í heilu sjónvarpsþáttunum (CSI sem dæmi) eða sjónvarpsstöðvunum, þá er enn sorglegra hvernig áhrif þetta hefur á allar þær stelpur og konur sem meðtaka þessi skilaboð. En fegurðarsamkeppnirnar, sjónvarpsþættirnir og tískublöðin eiga það sameiginlegt að vera að selja okkur vörur: snyrtivörur, hársnyrtivörur, megrunarkúra, fæðubótarefni, tískuklæðnað, skó, fylgihluti og svo framvegis.

Konur eru markhópur og eru því miskunnarlaust látnar vita að þær séu ekki að standa sig í innkaupunum en til þess að við kaupum vörurnar þarf að láta okkur vita að við þurfum á þeim að halda, þessvegna er komið inn hjá okkur endalausri óánægju.* Með því að vera ósáttar við hárlitinn er kominn hvati til að láta lita hárið (endurtekið á nokkurra vikna fresti), með því að við erum ósáttar við lærin er kominn hvati til að bregðast við á fjölbreyttan hátt: kaupa kort í líkamsrækt, fara í vafningameðferð, kaupa sérstyrktar sokkabuxur, jafnvel fara í fitusog. Áður en konur fara í fitusog hafa þær yfirleitt prófað allar hinar aðferðirnar og eru því búnar að vera mjög duglegar í að eyða peningum. Konur sem verða helteknar af því að ná rétta útlitinu eyða í það miklum peningum og mikilli orku. Sumar missa stjórn á þessari þrá og fá átröskun. En stærstur hlutinn reynir að lifa með þessari nagandi tilfinningu um að vera ekki nógu sæt, nógu grönn, nógu brjóstastór, nógu aðlaðandi ... Ekki skánar það þegar konur fara að óttast það að eldast, þá fyrst fara nú hillurnar að svigna undan hrukkukremum — og æ fleiri konur leita til lýtalækna til að hysja upp um sig brjóstin og láta andlitið líta út eins og það gerði aldrei þegar þær voru átján.

Þó það sé auðvelt að segja að konur eigi bara ekkert að láta þetta hafa áhrif á sig og eigi bara að líða vel í eigin skinni þá hefur þetta áhrif á okkur allar. Einu konurnar sem ég veit um að eru algerlega sáttar við útlitið og líkamann eru þær sem hafa farið í mikla sjálfsrækt og náð að kasta þessu oki af sér, þær sluppu ekkert betur en hinar.

En eins og kemur fram í viðtalinu við Sigrúnu sálfræðing á Bugl** þá dæma konur og stelpur sig hart vegna þyngdar sinnar.*** Samfélagið dæmir þær ekki síður hart sem eykur á óttann við að þyngjast. Það er ömurlegt að heyra hvernig talað er um fólk — og þá sérstaklega konur — sem eru frávik frá meðalmanneskjunni í þyngd. Hæðst er að þeim bæði á bak og jafnvel uppí opið geðið á þeim. Þær sem eru þungar verða oftar fyrir því en þær léttu, það er ekki spurning, en það má samt ekki á milli sjá hve andstyggilegar nafngiftir hvorum um sig eru gefnar.

Konur eru ekki og eiga ekki að vera í stríði við hverjar aðrar. Konur sem telja sig feitar hata ekki grannar konur og konur sem eru grannar hata ekki konur sem telja sig feitar eða eru yfir kjörþyngd (ath. það er ekki það sama að vera yfir kjörþyngd, vera feit og finnast hún vera feit, þrennt ólíkt). Það er hreinlega rangt að líta svo á að konur skiptist í tvö lið. Það eru eflaust ýmsar kenningar til um afhverju þetta hefur þróast svona, að konur telji sig betur settar með því að níða niður líkamsvöxt annarra kvenna, en það er alger óþarfi að halda því áfram. Stoppa hér!

___
* Konur eyða mjög háum hluta tekna sinna (sem eru lægri en tekjur karla) í föt og snyrtivörur og þetta er eitt af því sem viðheldur efnahagslegu ójafnvægi milli kvenna og karla.

** Í viðtalinu er talað um þegar börnum er bannað að borða of mikið annarsvegar og troðið í þau sem ekki vilja borða mat sem þau vilja ekki. Ég hef þá skoðun að sé það gert veiki það hugmynd barna um hve mikið aðrir megi ráða því hvað sett er í líkama þeirra, m.ö.o. geri þau verr í stakk búin til að átta sig á hvenær verið er að beita þau kynferðisofbeldi. Og ef þau vita ekki einu sinni að það sem er verið að gera við þau er rangt, þá geta afleiðingarnar orðið hræðilegar.

*** Það er engum hollt að ganga um í líkama sem er hataður - hvort sem hatrið kemur frá samfélaginu eða innan frá.

Efnisorð: , , , , , ,

föstudagur, apríl 10, 2009

Vor í lofti

Að vissu leyti furða ég mig á látunum yfir tugmilljóna styrkjunum sem upp hefur komist að Sjálfstæðisflokkurinn fékk. Það kemur mér a.m.k. ekkert á óvart að vita að stórfyrirtæki hafi styrkt flokkinn. Þetta er jú flokkurinn sem hefur alltaf borið hag þessara fyrirtækja fyrir brjósti og þá hljóta þau annaðhvort að þakka fyrir sig með vænum summum eða borga fyrirfram. Skiptir litlu hvort er, bæði miðar að því sama. Mér þætti auðvitað forvitnilegt að sjá uppgjör fleiri ára en bara síðasta ársins sem leyft var að taka við svo háum styrkjum - eða hefur Hvalur ekkert borgað til flokksins eða Alcoa?

Álfyrirtækin hljóta að hafa borgað Framsóknarflokknum (sem nú er voða voða þögull um sitt bókhald) eða fór það bara beint inná reikninga Valgerðar Sverrisdóttur og Halldórs Ásgrímssonar? Kannski eru stjórnmálamenn styrktir beint - að minnsta kosti ganga sögur um að fyrirtæki hafi hlaðið mikið undir ákveðna frambjóðendur í prófkjörum.* Samfylkingin (og einstakir þingmenn hennar) eru sjálfsagt ekkert undanskildir þessum mútugreiðslum öllum, og kannski er barnaskapur að halda að hvergi hafi fallið blettur eða hrukka á aðra þingflokka eða einstaka þingmenn þeirra.

En sem stendur er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið afhjúpaður. Vonandi verður það til þess að illa áttaðir kjósendur sem enn héldu að hægt væri að treysta Flokknum taki nú loksins sönsum.

Lyktin sem leggur af þessu máli öllu minnir mig á þegar tíðkaðist að bera kúamykju og hrossatað á tún. Það gerði mér alltaf glatt í geði því bæði þótti mér lyktin góð og minnti á að vorið væri komið.

___
* Nafn Guðlaugs Þórs kemur iðulega upp í umræðum dýr prófkjör.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Hvað skal gera fyrir fátæka stúdenta?

Háskóli Íslands getur að öllum líkindum ekki boðið uppá sumarannir. Slíkt myndi krefjast gríðarlegs undirbúnings því ekki geta allir kennarar búið til ný námskeið eða kennt sín föstu námskeið með svo stuttum fyrirvara. Sumir kennarar hafa eflaust lofað sér í aðra vinnu (t.a.m. sem leiðsögumenn), ætla að stunda rannsóknir eða hreinlega að taka sér frí — svona eins og annað fólk. Að ætla þeim sem vilja gjarna og geta unnið að taka að sér alla þá kennslu sem þyrfti að vera í boði svo önnin myndi ná því að vera full önn fyrir alla nemendur (LÍN gerir kröfur um nemendur skili lágmarkseiningum til þess að fá lán) er ekki raunhæft. Enda þótt kennarar við viðskiptadeild hafi boðið sig fram þá væri frekar fáránlegt að aðeins ein deild skólans byði upp á sumarnám, þá fyrst væri nú verið að mismuna stúdentum.

En auðvitað er hörmuleg tilhugsun að þúsundir háskólanema* hafi hvorki vinnu né fái atvinnuleysisbætur í heila þrjá mánuði. Þá eru bara tveir kostir (aðrir en að láta fólk svelta). Annar er að LÍN láni fólki áfram enda þó það skili engum einingum — hreinlega hafi nemendur á framfæri til þess að fólk svelti ekki — og hinn er að nemendur geti fengið atvinnuleysisbætur yfir sumarið enda þó það uppfylli ekki skilyrði um að hafa verið með laun eða nægilega mikil laun til að eiga rétt á bótum.

Lán frá LÍN hafa þann kost fyrir samfélagið að fólk þarf að endurgreiða þau (í siðuðum samfélögum eru nemendur á styrk til náms en hér verður fólk að taka lán sem það svo borgar sannarlega til baka en samt eru lánin svo lág að fæst geta framfleytt sér á þeim einum saman). Atvinnuleysisbætur þarf ekki að greiða til baka og eru, að mér skilst, hærri en lánin frá LÍN.

Þetta er auðvitað vond staða. Og kannski verður ekkert gert: engin lán og engar bætur. Það er þó hætt við að það hafi hvorki góð áhrif á sálarlíf stúdenta né efnahag landsins, því eigi ekkert af þessu fólki pening þá kaupa þau ekki neitt. Því færri sem kaupa því fleiri fyrirtæki sem loka sem aftur veldur meira atvinnuleysi. Og enn fleirum líður illa.

___
* Um helmingur 13.500 nemenda HÍ sjá ekki fram á að hafa vinnu í sumar.

Efnisorð: ,

mánudagur, apríl 06, 2009

Ekki banka

Ég gat ekki betur heyrt en þjófavarnarkerfisvælið sem ég heyrði þegar ég gekk eftir Ármúlanum í morgun kæmi frá húsi sem merkt er SPRON. Mér þótti það taka heldur seint við sér.

Veit annars lítt um SPRON og þarafleiðandi ekki hvort þar á best við kenningin að besta leiðin til að ræna banka sé að eiga hann eða sú að þegar neyðin sé stærst séu gráðugir auðmenn á næsta leiti reiðubúnir að hremma auðfengna bráð. Man samt að um þennan banka sagði Pétur Blöndal þau fleygu orð um fé án hirðis og gott ef Dögg Pálsdóttir hefur ekki verið í einhverjum skrítnum málaferlum útaf honum (sparisjóðum, ekki Pétri). Nú er kvartað yfir að ríkið hafi hirt SPRON og auðmenn kvarta að mega ekki fá hann fyrir slikk.

Miðað við að þetta var sá sparisjóður sem ég hafði heyrt að væri svo gott að eiga viðskipti við og ég hafði íhugað að snúa viðskiptum mínum* til þegar „bankinn minn“ reyndist svikamylla eigenda sinna og var gerður upptækur af ríkinu, þá er ég nú skyndilega mjög fegin að þurfa sem minnst að vita um SPRON.

Glotti samt þegar ég heyrði vælið. Aumingja bankinn, búhú.

___
* Ég endaði á að halda áfram viðskiptum við „sama“ bankann og fyrr. Hann er reyndar orðinn ríkisbanki og þaraðauki búinn að skipta um nafn, en ég get ekki séð að neinn skárri valkostur sé í boði. Þetta er allt sama ógeðið.

Efnisorð:

laugardagur, apríl 04, 2009

Sjálfstæðisflokksfávitar II

Djöfull býður mér við þessu Sjálfstæðisflokkspakki sem heldur þinginu í herkví í eiginhagsmunaskyni. Meðan þau halda uppi málþófi komast engin önnur mál á dagskrá. En þeim er sama um það. Svo er reynt að benda á að vinstriflokkarnir hafi oft verið með málþóf og geti því ekki kvartað. Fíflin fatta náttúrulega ekki að ástandið í þjóðfélaginu er allt annað nú en þá og meira liggur við en áður að halda áfram þingstörfum til þess að koma lífsnauðsynlegum málum að.

Heimska heimska heimska skítapakk.



___
Viðbót 6. apríl: Björg Eva orðar þetta öllu kurteislegar en ég fæ ekki betur séð en hún sé efnislega sammála mér.

Lára Hanna fjallar auðvitað um málþófið líka. Og þar sem ég er nú farin að vísa í þá mætu konu þá er best að planta tengingu á færsluna þar sem hún er með upptökur af Silfri Egils þar sem þeir Michael Hudson og John Perkins sýndu okkur svo ekki varð um villst hversu vondum málum við erum í. Alvarlegt er reyndar, eins og Lára Hanna bendir á, hve mörg þeirra sem þyrftu að vita þetta fylgjast ekki með umfjöllun um hrunið og ástandið. Þessvegna geymi ég þennan tengil hér þar til ég finn honum betri stað, og reyni svo að senda á vini og kunningja fyrir kjördag. Kannski ætti ég bara að búa til sér undirflokk fyrir Láru Hönnu ...

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Endur synda berar

Ég hef lengi talið mig vera þeim megin að vilja ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Eftir bankahrunið endurskoðaði ég forsendur mínar og held að ég sé komin að niðurstöðu.*

Ástæður þess að mér leist aldrei á að ganga í ESB voru aðallega yfirráðin yfir fiskimiðunum og áhyggjur af því hvað yrði um íslenskan landbúnað. (Svo fannst mér líka eitthvað undarlegt við það að horfa á Sovétríkin liðast sundur og heyra jafnvel sama fólkið mæra ESB og áður hafði gagnrýnt miðstýringuna fyrir austan járntjald). Ég held að núna sýni sig best hvað það er mikilvægt að hafa öflugan landbúnað, nógu mikið þurfum við að flytja inn af matvælum fyrir þennan nauma gjaldeyri sem við höfum. Fiskurinn hefur víst verið veðsettur þýskum banka og spurning hvort nokkru skiptir héðanaf hvort Spánverjar mæta með sinn fiskveiðiflota og ryksuga miðin. En svo er víst alltaf talað um að við eigum að geta samið sérstaklega um fiskimiðin ef við sækjum um aðild að ESB.

Kostur við inngöngu væri að hvalveiðar yrðu úr sögunni. Það er víst ekkert umburðarlyndi fyrir slíku í Evrópusambandinu. (Fáránlegt er að heyra fólk segjast ekkert þurfa á ESB að halda nema Íslendingar fái að veiða hval en finnast samt að við eigum að fá fyrirgreiðslu á öllum sviðum erlendis).

Mér finnst umhugsunarverð sú gagnrýni sem heyrist frá löndum sem þegar eru í Evrópusambandinu eða hafa hafnað að ganga í það og finnst að hún mætti vera meira til umfjöllunar hér á landi (Einar Már Jónsson tæpir stundum á þessu í pistlum sínum í Fréttablaðinu og segir að auki að ESB sé atvinnubótavinna fyrir stjórnmálamenn). Sagt er að ESB reki harða frjálshyggjustefnu og sé það rétt þá líst mér nú ekki á blikuna.

Og það er auðvitað einn gallinn: Við vitum bara allsekki nógu mikið um ESB og hvað það felur í sér að ganga í það, hvernig það ferli yrði, hvort við fengjum undanþágur, o.s.frv. Einu upplýsingarnar að ráði um ESB koma frá stækum ESB sinnum sem fjalla bara um kostina og ekki treysti ég fjölmiðlum til að upplýsa mig neitt betur, þeir ganga örna eigenda sinna og fjármagnsins að venju.

Evran er eftirsóknarverður gjaldmiðill og ekki yrði mér sérstök eftirsjá í íslensku krónunni.** Því er haldið fram að hún sé orsakavaldur í hruninu eða a.m.k. því að okkur mun takast erfiðlega að standa aftur í lappirnar. Á tímabili var talað um að taka evruna upp einhliða, þ.e. án þess að ganga í ESB eða vera endilega á leiðinni þangað. Þá var bent á að með því minnkuðu líkurnar á að okkur yrði hleypt inní ESB til muna (hvort sem það er nú rétt eða ekki). Samt er talað eins og ef við bara ákveðum að ganga í ESB þá munum við geta lagt krónunni og allt verði í besta lagi hviss bang. Mér finnst það ekki hljóma trúlega. Umsókn í ESB, aðildarviðræður og kosningar um inngöngu mun taka langan tíma og nær væri líklega að dempa væntingarnar um að það reddi okkur á næstunni. Og ekki veit ég hvar á þeim ferli við mættum taka upp evruna. Og ef þjóðaratkvæðagreiðsla leiddi í ljós að inngöngunni væri hafnað, yrðum við þá að skila evrunni? (Og yrðum við pínd til að kjósa aftur og aftur þar til við gæfumst upp og samþykktum inngöngu?)

Þrátt fyrir að vera svona frekar hlynnt evrunni þá fór alltaf um mig nettur hrollur þegar bankarnir voru að heimta að hún yrði tekin upp sem gjaldmiðill. Hótuðu jafnvel að fara úr landi ef þeir fengu ekki sínu framgengt (við hefðum betur leyft þeim að fara). Nú eru Viðskiptaráð og bankarnir auk allra þeirra úr viðskiptalífinu sem á annað borð opna trantinn allir á sama máli: að evran muni bjarga okkur. Þetta er nú ekki beinlínis liðið sem hefur haft velferð okkar hinna í fyrirrúmi fram að þessu og eru þetta því í mínum huga afar sterk rök gegn evrunni. Og þó fordæmi séu fyrir því að vera í ESB en án evru, þá efast ég um að örþjóð í vanda fái að semja um slíkt. Þannig að innganga í Evrópusambandið hlýtur að þýða evru og evran fæst ekki nema með inngöngu í ESB.

Og ákkúrat núna líst mér bara ekkert á þetta.

En kannski höfum við ekkert val og þá bara látum við okkur hafa það. Það getur ekki verið verra en það sem á undan er gengið.

___
* Niðurstaðan? Hún er sú að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð.

** Ég sé samt eftir gamla hundraðkrónuseðlinum með kindum og Heklu á bakhliðinni.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Vændiskúnnar vita svo vel hvernig vændiskonum líður

Útskýringar, réttlætingar og afsakanir karlmanna sem kaupa sér aðgang að vændiskonum eru margar. Flestar hljóða þær á þá leið að þeir séu of feimnir til að kynnast konum eða þeir eigi ekki nógu mikinn séns, konan þeirra sé ekki tilbúin í kynlíf sem þeir vilja stunda eða þeir hafi svo sterka kynhvöt. Samskiptin við vændiskonurnar túlka þeir svo þannig að þær séu hamingjusamar í starfi - þær segi það sjálfar. (Vændiskonur eru prógrammeraðar til að segjast fíla starfið. Annars fengju þær ekki kúnna og/eða vændismiðlarinn myndi refsa þeim). Þær hafi valið sér þessa vinnu því þær græði svo mikinn pening (og ekki saki að kynnast svona góðum gæjum). Þessu trúa vændiskúnnarnir eða þykjast trúa því, rétt eins og þeir trúa því að vændiskonur fái heilmikið útúr kynlífi með kúnnanum - og sannarlega alltaf með ÞEIM.

Og karlmenn sem hafa „upplýsingar frá fyrstu hendi“ það er að segja hafa talað við strippara eða vændiskonur, kynnst þeim eða jafnvel eiga kærustu sem hefur þetta að starfi - þeir hafa auðvitað alltaf kynnst þessum konum utan vinnutíma en ekki sem kúnnar. Já, einmitt. Ég trúi því alveg.

Efnisorð: ,