fimmtudagur, febrúar 28, 2013

Orsökin fyrir slöku gengi stráka í skólakerfinu

Í dag birtist grein eftir karlmann sem hefur gríðarlegar áhyggjur af lestrarfærni drengja og að karlar eru orðnir færri en konur í háskólum.

Eitt sinn skrifaði ég pistil um læsi drengja en sá snerist eingöngu um skort á fyrirmyndum og því minntist ég ekkert á tölvuleiki o.þ.u.l. sem hugsanlega draga úr áhuga drengja á bóklestri. Karlinn sem skrifar pistil um menntunarleysi drengja minnist heldur ekkert á tölvuleiki (ekki að það sé nein skylda eða að ég haldi að tölvuleikir séu eina hugsanlega orsökin), en einblínir hinsvegar á hversu fyrirferðarmiklar konur eru á öllum stigum skólakerfisins.

Kenning áhyggjufulla karlmannsins kristallast í lokaorðum pistils míns: „En svo er líka alltaf traust að kenna konum í skólakerfinu um.“

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, febrúar 27, 2013

Landsfundarólíkt

Þórður Snær Júlíusson bendir á í leiðara sínum að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi árum saman viljað markaðssetja sig sem sáttastjórnmálamann en á landsfundi Sjálfstæðismanna hafi hún stigið af þeirri braut. (Ég man reyndar ekki alveg hvenær fyrst bar á þessum sáttatón hjá henni, var það ekki eftir hrunið?) Hanna Birna hefur verið vinsæl í borgarmálunum og samkvæmt könnununum er hún einnig vinsæl á landsvísu. Þær vinsældir sem hún hefur notið hafa einmitt verið vegna þessarar sáttastefnu hennar og um daginn mældist Hanna Birna vinsælasti stjórnmálaforinginn (sem er ansi magnað þar sem hún er í minnihluta í borgarstjórn) á eftir Ólafi Ragnari Grímssyni (sem hætti reyndar sem stjórnmálaleiðtogi að margra mati á síðustu öld en hefur tekist að rugla svo marga í ríminu undanfarin ár að hann telst með í svona könnun).

Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins enda þótt hann hafi komið verst út af stjórmálaleiðtogum í könnuninni: er semsagt verst þokkaður allra. Til mótvægis við hinn óvinsæla Bjarna var Hanna Birna gerð að varaformanni en kom þá öllum á óvart og steig fram sem herskár foringi. Það verður áhugavert að sjá hvort þessi stefnubreyting hennar eykur enn á vinsældirnar meðal almennings og hverju það skilar í greiddum atkvæðum í vor.

Á sama tíma og Sjálfstæðismenn fylltu Laugardalshöllina og nærliggjandi bílastæði, gangstéttir og grasbala, héldu Vinstri græn einnig sinn landsfund. Þar var Katrín Jakobsdóttir kjörin formaður, hún hefur um langt skeið verið vinsælasti ráðherrann (ekki síst fyrir að vera eldklár og vel máli farin) og í fyrrgreindri könnum kom hún best út af þeim sem sitja á þingi. Hún sýndi alveg sömu framkomu á landsfundinum og hún gerir endranær, umbreyttist ekki í stríðsherra sem rakkar niður andstæðinginn. Þvert á móti lagði hún áherslu á að hún ætti enga óvini. Engum sögum fer af bílastæðavandamálum á þeim landsfundi en nýkjörni formaðurinn líkti Vinstri grænum við rútu.

Bílar og rútur urðu þannig óvænt umræðuefni. Það má reyndar sjá hegðun og orðalag landsfundargesta jafnt sem flokkanna sjálfa endurspeglast í afstöðu þeirra til bifreiða. Annarsvegar er einkabíll sem potar sér áfram hvar sem hann getur, skemmir út frá sér og tekur ekki tillit til náungans. Hinsvegar er hugsað út frá samfélaginu: sem flestir með og allir ferðast á sama farrými.

Efnisorð:

laugardagur, febrúar 23, 2013

Bílastæðabölið

Sjálfstæðismenn og fótboltaáhangendur eiga það sameiginlegt að geta varla komið saman í Laugardalnum án þess að leggja ólöglega. Ekki nóg með það heldur hlaupa þeir í fjölmiðla til að kvarta undan lögreglunni fyrir að skrifa sektarmiða handa þeim brotlegu.

Eins og Sjálfstæðismenn eru nú fylgjandi sjálfstæðum atvinnurekstri ættu þeir kannski að íhuga lausn á þessum gríðarlega vanda (sem þeir koma sér sjálfir í, eins og þeim hættir til að gera), lausn sem felur ekki í sér að þeir sem brjóta lög komist upp með það (sem er þó talsvert áhugamál Sjálfstæðismanna). Í stað þess að mæta á fínubílunum og vera í vandræðum með að finna stæði við innganginn (þeim virðist ekki detta í hug að leita fjær heldur leggja t.a.m. á gangstéttum og grasbölum þar sem þeir eru fyrir eða skemma gróður) geta þeir tekið leigubíl. Leigubílnum ekur sjálfstætt starfandi einkaframtaksmaður sem tekur að sér að sækja fólk heim að dyrum og skila því að dyrum Laugardalshallarinnar (eða fótboltavallarins, sé um fótboltaáhangandi farþega að ræða) og þiggur gjald fyrir. Þetta hlýtur að falla Sjálfstæðismönnum í geð: ekkert bílastaðavesen, allir græða.

Liklegra er þó að á öðrum degi landsfundar Sjálfstæðisflokksins verði áfram lagt ólöglega, með sömu afleiðingum. Það virðist nefnilega Sjálfstæðismönnum erfitt að hugsa eða breyta öðruvísi þótt mistök fortíðarinnar blasi við.


___

Viðbót nokkrum dögum síðar: Lögreglan hafði þetta að segja um bílastæðaböl Sjálfstæðismanna. „Um helgina, á meðan samkoma fór fram í Laugardalshöll, hafði lögreglan afskipti af um eitt hundrað ökutækjum (stöðubrot) vegna þessa, en á sama tíma var ónotuð bílstæði að finna annars staðar á svæðinu. Talsvert var lagt á grasbala og graseyjar og er grasið sumstaðar illa farið,“ segir á Facebook síðu lögreglunnar.

Efnisorð: , ,

mánudagur, febrúar 18, 2013

Lesendur hafa val

Samræmd vefmæling modernus sýnir að mbl.is er mest lesni fréttavefur landsins. Mér skilst að það ástand hafi varað um langa hríð. Þegar núverandi ritstj. tók við Morgunblaðinu sögðu ellefu þúsund manns upp áskriftinni í mótmælaskyni. Nú virðist sem þetta fólk og fleira til lesi blaðið á netinu. Kannski áttar fólk sig ekki á að auglýsingatekjur Moggans aukast við hvert skipti sem einhver skoðar sig um á mbl.is, og þannig styrkist ritstj. í sessi.

Pistill Agnars Kr. Þorsteinssonar um ritstj. gerði fyrirhugaðan pistil minn (sem hefði verið uppfullur af ágætlega viðeigandi orðum eins og 'kvenfyrirlitning') fullkomlega óþarfan, því Agnar hittir naglann algerlega á höfuðið. Og ég get ekki annað en tekið undir með honum:

Hættum að fóðra tröllin.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, febrúar 16, 2013

Lof og last

LOF

Lof fær Hildur Knútsdóttir fyrir hugvekju um verksmiðjubúskap og þjáningu dýra.

Lof fær Umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem hrekur gagnrýni jeppaferðaklúbbsins 4x4 á frumvarp til náttúruverndalaga á skilmerkilegan hátt.

Lof fær Björn Þorláksson fyrir leiðara sinn þar sem hann bendir á hvernig kerfi karllægrar hugsunar birtist í dómi Hæstaréttar.

Lof fá Hildur Edda Einarsdóttir, Andri Þór Sturluson (enda þótt hann segist ekki vera neinn sérstakur talsmaður fyrir femínisma) og Halldór Auðar Svansson fyrir að hafa haft þolinmæði til að vera rödd skynseminnar í þessum umræðuþræði (reyndar voru flest þeirra sem tóku þátt í umræðunni afar gagnrýnin á pistilinn sem umræðan snerist um en þessi þrjú sýndu mesta þrautseigju).

Lof fær Guðný Elísa Guðgeirsdóttir fyrir að benda á hvernig áhrif umræða um kynferðisofbeldi hefur á þolendur. Í kjölfarið biður Knúzið um þýðingu á hugtakinu „trigger warning“ sem Guðný Elísa segir að geti sparað þolendum kynferðisofbeldis óþarfa þjáningu.*


LAST
Auglýsingar 4x4 klúbbsins gegn náttúruverndarlögum. Allar, en sérstaklega sú sem skartaði mynd af Skógafossi. Er verið að gefa auðtrúa fólki í skyn að bannað verði að skoða Skógafoss?

Karlmaðurinn sem er svo blindaður af frekju að hann hljóp með það í fjölmiðla að hann fengi ekki að kaupa ódýrt bílastæðakort því bíllinn hans er of stór fyrir hin þröngu stæði miðborgarinnar. Hann segist þurfa „vel útbúinn bíl með góðu geymsluplássi“ til að geta stundað útivist og ferðalög. Ef hann er ekki beinlínis félagi í 4x4 þá styður hann örugglega áróðursherferð samtakanna og lítur á það sem skerðingu á frelsi sínu að aka ekki um á vel útbúna bílnum sínum þar sem honum sýnist.

Konan sem keypti sér íbúð í Kópavogi og þrátt fyrir að stór tré væru í næsta garði byggði hún pall þar sem ekki sást til sólar vegna trjánna. Svo heimtaði hún að trén yrðu felld og fór í mál sem lyktaði þannig að nágrannar hennar urðu að fella tvö 50 ára tré. Afhverju hún keypti íbúð í grónu hverfi eða flutti ekki burt þegar henni varð ljóst að nágrannarnir töldu trén eiga tilverurétt kemur ekki fram í fréttum. Aðalmálið fyrir sóldýrkandanum virðist hafa verið að hafa pall þar sem henni sýndist og allt annað ætti að víkja.


___
* Ég er sjálf sek um að vara ekki nærri nógu oft við grófum lýsingum og orðbragði en í næstfyrsta pistli mínum ræddi ég reyndar „trigger“ orðið en vegna þess að þýðingu á orðinu hef ég notast við mun langorðari viðvörun, t.d. hér og hér en hún var þessi: Varúð - eftirfarandi gæti hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum.

Efnisorð: , , , , , , , ,

miðvikudagur, febrúar 13, 2013

Réttur maður á réttum stað

Grétar Már Jósepsson les frétt á DV um viðbrögð fórnarlamb kynferðisofbeldis þar sem hún tjáir sig um Hæstaréttardóminn sem féll í máli hennar á dögunum. Með fréttinni fylgir mynd af konunni, brotaþolanum.

Grétar Már Jósepsson finnst konur vera til eins hlutar nýtanlegar og nauðsynlegt sé að flokka þær eftir því hvort hann hafi kynferðislegan áhuga á þeim. Honum finnst að auki fullkomlega eðlilegt að gefa út slíkt álit þar sem verið er að ræða um kynferðisofbeldi og fórnarlamb þess.

„djöfull myndi ég ríða þessari dömu“



Ég óska Grétari Má til hamingju með að vera ógeðsfáviti dagsins.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 12, 2013

Skilgreining á klámi

Vegna þess að Páll Óskar ræddi muninn á klámi og erótík (þ.e. það sem einum þætti klám þætti öðrum erótík) vil ég gera grein fyrir minni afstöðu. Hún samræmist ekki alveg því sem aðrir feministar, m.a. Femínistafélag Íslands, hafa haldið á lofti. Sú skilgreining er ættuð frá Díönu E.H. Russell feminista og félagsfræðingi. Hún segir að klám sé
„efni sem sameinar kynlíf og/eða sýnir afhjúpuð kynfæri og misþyrmingu eða lítilsvirðingu sem virðist styðja, láta viðgangast eða stuðla að slíkri hegðun“.
Ég er ekki sammála þessari skilgreiningu, því með því að nota hana má endalaust togast á um hvað sé lítilsvirðing og misþyrming, sbr. nýlegar umræður um dóm Hæstaréttar. Klám er að mínu mati ekki bara það sem snýr að ofbeldi eða lítilsvirðingu (en Páll Óskar nefnir nokkur sláandi dæmi um slíkt) heldur er klám þegar kynfæri fólks og kynlífsathafnir eru sýnd þriðja aðila gegn gjaldi eður ei. Mér finnst eftirfarandi skilgreining á klámi reyndar ágæt (ég fann hana hér), en Hæstiréttur notaðist við hana árið 2000:
„Af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var í mars 1986 gerður greinarmunur á hugtökunum klámi (pornografia) og kynþokkalist (erotika), þannig, að klám var skilgreint sem ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist sem bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar. Telur dómurinn að við þessa skilgreiningu megi styðjast þegar metið er hvort kvikmyndir þær, sem ákært er fyrir dreifingu á í máli þessu, innihaldi klám."
Öfugt við Pál Óskar og sérfræðinganefndina geri ég ekki greinarmun á klámi og erótík (enda þótt ég þykist sjá að Menningarstofnun SÞ sé að reyna að koma í veg fyrir að bækur séu bannaðar innihaldi þær kynlífslýsingar, sem séu þá „kynþokkalist“). Ég geri ráð fyrir að fæstir myndu reyna að tala um erótík þegar klámið er orðið ofbeldisfullt, en meginmarkmiðið er í báðum tilvikum að höfða til kynhvatar áhorfandans með því að sýna honum kynlíf.

En burtséð frá hvort það er munur á erótík og klámi eða ekki, þá finnst mér ekki að þurfi ofbeldi eða lítilsvirðingu til að um klám sé að ræða.

Efnisorð:

mánudagur, febrúar 11, 2013

Klámið er engum hollt

Ég hef ekki gert mikið af því að gagnrýna það sem er skrifað á Knúzið (enda ekki ástæða til) en þegar ég las pistil Páls Óskars gat ég ekki á mér setið. Nú vil ég taka það fyrst fram að mér finnst kynfræðslumyndin Fáðu já ferlega gott framtak og pistill minn fjallar ekki um gagnrýni á hana. En mér finnst hinsvegar skjóta skökku við að leikstjóri myndarinnar skuli segja þetta:
„Ég trúi því líka að það sé til fullt af fullorðnu fólki sem getur notið kláms, og á sama tíma gert sér fullkomna grein fyrir fantasíunni og raunveruleikanum sem þar er boðið upp á.“
Raunveruleikinn er sá að konurnar (og karlarnir) í klámmyndunum eru þar ekki vegna þess að þeim þyki svo gaman að stunda kynlíf öðrum til skemmtunar. Langflestar þeirra kvenna sem leika í klámmyndum hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, áður en tekið var til við klámmyndaleikinn, flestar fyrir 18 ára aldur. Þetta eru þolendur kynferðisofbeldis sem karlmenn um allan heim eru að rúnka sér yfir. Það er raunveruleikinn.

Páll Óskar lýsir svo hvernig klámmyndir eru öðruvísi núna en þær voru, þ.e. að þær eru orðnar mjög ofbeldisfullar (en gleymir þó Deep Throat myndinni sem gerð var 1972). Ekki efast ég um það, en ég efast um þessa fullyrðingu hans: „Klámið hefur tapað sakleysi sínu.“ Klám hefur ekkert verið saklaust. Það er ekkert saklaust við að notfæra sér markaleysi þolenda kynferðisofbeldis, notfæra sér fátækt eða fjárþörf vegna fíkniefnaneyslu til að láta fólk stunda kynlíf — með eða án ofbeldis — eingöngu til þess að ókunnugir kallar útí heimi geti fróað sér yfir því.

Páll Óskar talar um klámsíur sem hindra eigi börn og fullorðna sem vilja ekki sjá klám í að rekast á klám, og vonast eftir að þær verði fullkomnari. Auðvitað vil ég ekki heldur að börn rekist á klám en ég skil ekki afhverju honum er svona umhugað um að fullorðið fólk sem vill sjá klám geti haft óhindraðan aðgang að því. Það hefur enginn rétt til að horfa á klám.
„Að sama skapi geta þeir sem vilja sjá klám, fengið að sjá það sem þeir vilja. Þeir vafra þá um internetið og skoða bæði fegurðina og ljótleikann sem þar er í boði með eigin siðferðisvitund á vakt. Við verðum að treysta því að fólk hafi siðferðiskennd, heila og hjarta sem stoppar það frá því að vinna náunganum mein.“
Þegar klámáhorfandi horfir á konu meidda í klámmynd, þá er það raunveruleg kona sem er verið að misþyrma. Eiga konur sem eru beittar ofbeldi í klámmyndum sem og konur sem eru í klámmyndum vegna þess að þær hafa verið seldar mansali vera uppá siðferðiskennd áhorfandans komnar? Það hefur virkað vel hingað til! Mansal er barasta við það að gufa upp og hefur alveg svoleiðis snarminnkað ofbeldi gegn konum í klámmyndum (Páll Óskar rekur sjálfur hvernig það hefur aukist). Siðferðiskennd klámáhorfenda er greinilega ekki mikil. Þeir ættu því ekki að ráða því hvort eða hversu mikið konur þurfa að þjást.

Klám er ekki gott fyrir konur sem taka þátt í klámmyndum, það er ekki gott fyrir börn og unglinga að horfa á það. Það er heldur ekki hollt fyrir fullorðna áhorfendur. Það eina sem klám gerir er auðvelda körlum að 'fá úr honum'og ýta undir hugaróra þeirra um alger yfirráð yfir konum.

Efnisorð:

miðvikudagur, febrúar 06, 2013

Sár lífsreynsla, áföll og samanburður

Ég hef sem betur fer aldrei misst barn. Ég hef ekki gengið með barn sem dó í fæðingu, ekki átt barn sem dó ungt af völdum slyss eða veikinda og ekki séð á eftir stálpuðu afkvæmi í gröfina. Samt dreg ég það ekki í efa að það er afar þungbær reynsla. Segi kona eða konur að barnsmissir sé það versta sem til er, þá trúi ég þeim. Hef þó ekki þessa reynslu, en mér finnst það bara augljóst.

Ef kona sem hefur misst bæði mann og barn segir að það sé miklum mun verra að missa barnið (eða öfugt) þá trúi ég henni, og öllum þeim konum sem halda því fram. Mér dettur ekki í hug að vegna þess að ég hef verið svo heppin að lenda ekki í þeim aðstæðum þá beri mér að gerast rannsóknarréttur yfir henni og öllum konum í þeirri stöðu og heimta að fá svar við hvernig hún geti borið þetta tvennt saman. Enn síður hefur mér dottið í hug að stilla konum upp við vegg og spyrja þær hvort þær vildu heldur missa eiginmanninn eða barnið.

Það er reyndar búið að skoða talsvert hvernig konur (og karlar) upplifa að missa barn, það er til skjalfest að líf fólks hrynur. Reyndar er það að mestu leyti eitt til frásagnir um eigið tilfinningalíf en það er örugglega hægt að finna rannsóknir um líðan fólks eftir barnsmissi. Og séu til rannsóknir er alltaf til fólk sem dregur rannsóknirnar í efa, er tilbúið að hjóla í upplifunina og vílar ekki fyrir sér að pönkast á þeirri sáru reynslu sem liggur að baki. En ansi er það lítilmótlegt.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 05, 2013

Þaggaðir, hæddir og raunamæddir

Hér er alltof mikið skrifað um kvenfólk. Nú verður ráðin bót á því og vakin athygli á tveimur karlmönnum sem eiga margt sameiginlegt, auk þess að hafa verið blaðamenn.

Fyrstan ber að telja Hall Hallsson en hann er djúphugull samfélagsrýnir. Hann hefur orðið fyrir mikilli og óvæginni þöggun á meistaraverki sínu Váfugli. Hann á þetta sameiginlegt með Jakobi Bjarnari sem gaf út bók í félagi við Þórarin Þórarinsson, en algjör skortur hefur verið á fólki sem hefur áhuga á að lesa það sem þeir skrifa. Jakob Bjarnar er einmitt líka sár yfir þögguninni sem umlykur bókina, sem hann segir tímamótaverk um vændi á Íslandi, og skilur ekki afhverju fólk kaupir ekki — eða bara les — bók þeirra. Jakob Bjarnar ofmetur auðvitað ekki eigin dómgreind, rithæfileika eða skemmtigildi fremur en Hallur þannig að hér hlýtur að vera um samsæri gegn þeim að ræða. Ég veðja á samsærið sé runnið undan rifjum feminista, en heyrst hefur að nærbuxnafeministar vilji heldur nota greiðslukortin sín og bókasafnsskírteinin til að skafa hélaðar rúður bifreiða heldur en nota þau til að kaupa eða taka að láni bók eftir Jakob Bjarnar.

Sé ekki um þöggun að ræða liggja skýringar á því afhverju fólk fæst ekki til að lesa bók Halls ekki á lausu, því varla getur verið að það sé ekki eftirspurn eftir skoðunum hans, frekar en skoðunum Jakobs Bjarnar. En svona er nú veröldin vond við góða og gáfaða menn.

Efnisorð: , ,

laugardagur, febrúar 02, 2013

Ætlun, vilji og nautn karlsins skiptir öllu

Afstaða karlkyns hæstaréttardómaranna Markús Sigurbjörnssonar, Árna Kolbeinssonar, Gunnlaugs Claessen og Ólafs Barkar Þorvaldssonar til þess hvort pyntingar á kynfærum kvenna teljist kynferðisbrot virðist tengjast afstöðu til nauðgana.* Frá sjónarhóli þessara karla virðast nauðganir, eins og kynlíf, snúast um það að karlinn sé graður, karlinn ætli sér að stunda kynlíf með þessari konu (eða nauðga henni), karlinn beiti tittlingnum til verknaðarins, karlinn fái kynferðislegt kikk úr verknaðnum og karlinn fái sáðlát. Uppfylli verknaðarlýsing ekki allavega einn af þessum þáttum, helst alla, þá er ekki að þeirra mati um A) kynlíf, B) nauðgun, C) annað kynferðislegt ofbeldi að ræða.

Flest fólk veit að nauðganir fara ekki endilega þannig fram að nauðgari hugsi (eða tilkynni) að ætli hann að nauðga, heldur ætlar hann að ríða henni, refsa henni, sýna henni hversu mikill karlmaður hann er — án þess endilega að nota sjálfur orðið nauðgun um verknaðinn. Þá verður körlum sem nauðga ekki endilega sáðfall. Karlar sem nauðga konum gera það allajafna ekki með velferð konunnar í huga og er því sama þótt hún meiði sig — sumir gera sér far um að meiða konuna. Ekki vegna þess endilega að þeir (allir) fái svo mikið kynferðislegt kikk útúr því að meiða aðra manneskju, heldur er það liður í því að brjóta hana niður, hræða og niðurlægja.

Þegar verið er að berja manneskju og það er klipið í kynfæri hennar þá er vandséð að það teljist ekki kynferðislegt ofbeldi.** Í þessu ógeðfellda máli var farið inn í kynfæri konunnar til þess að meiða hana þar — ásetningurinn er alveg ljós: að meiða kynfæri konunnar. Að karlmaðurinn sem gerði þetta þurfi að hafa verið kynferðislega æstur og viljað fá eitthvað kynferðislegt kikk útúr þessu kemur málinu varla við.

Það er ágætt af þessu ógeðfellda tilefni að rifja upp gamla grein eftir Atla Gíslason, leiðara Steinunnar Stefánsdóttur og grein eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur höfund Á mannamáli sem Steinunn vitnar til í leiðara sínum.

___
* Eina konan sem dæmdi málið með þessum fjórum körlum var ekki sammála þeim. „Ingibjörg Benediktsdóttir bendir í séráliti sínu á að ákvæði í kynferðisbrotakafla hegningarlaganna hafi verið rýmkað, undir það falli nú svokölluð önnur kynferðismök sem séu meðal annars það að setja fingur eða hluti inn í leggöng eða endaþarm. Þau beri að leggja að jöfnu við samræði. Ingibjörg segir í áliti sínu að með þessu hafi konan verið beitt grófu kynferðislegu ofbeldi og brotið hafi verið freklega gegn kynfrelsi hennar. Háttsemin hafi verið afar niðurlægjandi og engu skipti hvort tilgangur ofbeldismannsins hafi verið einhver annar en að veita sjálfum sér kynferðislega fullnægju.“

** Rétt eins og það er kynferðislegt ofbeldi að setja upp þvaglegg gegn vilja konu, alveg burtséð frá því hvort löggurnar urðu kynferðislega æstar eða ekki. (Oj).

Efnisorð: , , ,