laugardagur, febrúar 23, 2013

Bílastæðabölið

Sjálfstæðismenn og fótboltaáhangendur eiga það sameiginlegt að geta varla komið saman í Laugardalnum án þess að leggja ólöglega. Ekki nóg með það heldur hlaupa þeir í fjölmiðla til að kvarta undan lögreglunni fyrir að skrifa sektarmiða handa þeim brotlegu.

Eins og Sjálfstæðismenn eru nú fylgjandi sjálfstæðum atvinnurekstri ættu þeir kannski að íhuga lausn á þessum gríðarlega vanda (sem þeir koma sér sjálfir í, eins og þeim hættir til að gera), lausn sem felur ekki í sér að þeir sem brjóta lög komist upp með það (sem er þó talsvert áhugamál Sjálfstæðismanna). Í stað þess að mæta á fínubílunum og vera í vandræðum með að finna stæði við innganginn (þeim virðist ekki detta í hug að leita fjær heldur leggja t.a.m. á gangstéttum og grasbölum þar sem þeir eru fyrir eða skemma gróður) geta þeir tekið leigubíl. Leigubílnum ekur sjálfstætt starfandi einkaframtaksmaður sem tekur að sér að sækja fólk heim að dyrum og skila því að dyrum Laugardalshallarinnar (eða fótboltavallarins, sé um fótboltaáhangandi farþega að ræða) og þiggur gjald fyrir. Þetta hlýtur að falla Sjálfstæðismönnum í geð: ekkert bílastaðavesen, allir græða.

Liklegra er þó að á öðrum degi landsfundar Sjálfstæðisflokksins verði áfram lagt ólöglega, með sömu afleiðingum. Það virðist nefnilega Sjálfstæðismönnum erfitt að hugsa eða breyta öðruvísi þótt mistök fortíðarinnar blasi við.


___

Viðbót nokkrum dögum síðar: Lögreglan hafði þetta að segja um bílastæðaböl Sjálfstæðismanna. „Um helgina, á meðan samkoma fór fram í Laugardalshöll, hafði lögreglan afskipti af um eitt hundrað ökutækjum (stöðubrot) vegna þessa, en á sama tíma var ónotuð bílstæði að finna annars staðar á svæðinu. Talsvert var lagt á grasbala og graseyjar og er grasið sumstaðar illa farið,“ segir á Facebook síðu lögreglunnar.

Efnisorð: , ,