miðvikudagur, febrúar 06, 2013

Sár lífsreynsla, áföll og samanburður

Ég hef sem betur fer aldrei misst barn. Ég hef ekki gengið með barn sem dó í fæðingu, ekki átt barn sem dó ungt af völdum slyss eða veikinda og ekki séð á eftir stálpuðu afkvæmi í gröfina. Samt dreg ég það ekki í efa að það er afar þungbær reynsla. Segi kona eða konur að barnsmissir sé það versta sem til er, þá trúi ég þeim. Hef þó ekki þessa reynslu, en mér finnst það bara augljóst.

Ef kona sem hefur misst bæði mann og barn segir að það sé miklum mun verra að missa barnið (eða öfugt) þá trúi ég henni, og öllum þeim konum sem halda því fram. Mér dettur ekki í hug að vegna þess að ég hef verið svo heppin að lenda ekki í þeim aðstæðum þá beri mér að gerast rannsóknarréttur yfir henni og öllum konum í þeirri stöðu og heimta að fá svar við hvernig hún geti borið þetta tvennt saman. Enn síður hefur mér dottið í hug að stilla konum upp við vegg og spyrja þær hvort þær vildu heldur missa eiginmanninn eða barnið.

Það er reyndar búið að skoða talsvert hvernig konur (og karlar) upplifa að missa barn, það er til skjalfest að líf fólks hrynur. Reyndar er það að mestu leyti eitt til frásagnir um eigið tilfinningalíf en það er örugglega hægt að finna rannsóknir um líðan fólks eftir barnsmissi. Og séu til rannsóknir er alltaf til fólk sem dregur rannsóknirnar í efa, er tilbúið að hjóla í upplifunina og vílar ekki fyrir sér að pönkast á þeirri sáru reynslu sem liggur að baki. En ansi er það lítilmótlegt.

Efnisorð: ,