þriðjudagur, febrúar 05, 2013

Þaggaðir, hæddir og raunamæddir

Hér er alltof mikið skrifað um kvenfólk. Nú verður ráðin bót á því og vakin athygli á tveimur karlmönnum sem eiga margt sameiginlegt, auk þess að hafa verið blaðamenn.

Fyrstan ber að telja Hall Hallsson en hann er djúphugull samfélagsrýnir. Hann hefur orðið fyrir mikilli og óvæginni þöggun á meistaraverki sínu Váfugli. Hann á þetta sameiginlegt með Jakobi Bjarnari sem gaf út bók í félagi við Þórarin Þórarinsson, en algjör skortur hefur verið á fólki sem hefur áhuga á að lesa það sem þeir skrifa. Jakob Bjarnar er einmitt líka sár yfir þögguninni sem umlykur bókina, sem hann segir tímamótaverk um vændi á Íslandi, og skilur ekki afhverju fólk kaupir ekki — eða bara les — bók þeirra. Jakob Bjarnar ofmetur auðvitað ekki eigin dómgreind, rithæfileika eða skemmtigildi fremur en Hallur þannig að hér hlýtur að vera um samsæri gegn þeim að ræða. Ég veðja á samsærið sé runnið undan rifjum feminista, en heyrst hefur að nærbuxnafeministar vilji heldur nota greiðslukortin sín og bókasafnsskírteinin til að skafa hélaðar rúður bifreiða heldur en nota þau til að kaupa eða taka að láni bók eftir Jakob Bjarnar.

Sé ekki um þöggun að ræða liggja skýringar á því afhverju fólk fæst ekki til að lesa bók Halls ekki á lausu, því varla getur verið að það sé ekki eftirspurn eftir skoðunum hans, frekar en skoðunum Jakobs Bjarnar. En svona er nú veröldin vond við góða og gáfaða menn.

Efnisorð: , ,