fimmtudagur, janúar 24, 2013

Lof og last

LOF

Vilborg Arna Gissurardóttir fær lof fyrir að verða fyrst Íslendinga til að ganga einsömul á Suðurpólinn.

Lof fær átak um löglegt niðurhal. Þar má finna síður þar sem hægt er að hlaða niður bókum, kvikmyndum og tónlist á löglegan hátt. Mjög gott að hafa aðgang að því á einum stað. (Ég mæli reyndar líka með bókabúðum og verslunum sem selja dvd og geisladiska, fyrir þau sem eru ekki alveg dottin úr sambandi við hinn áþreifanlega heim.)

Stefán Pálsson fær lof fyrir að gagnrýna Gettu betur keppnina enda þótt hann hafi átt stóran þátt í að móta hana. (Fyrir þau sem halda að konur hafi gjörólík áhugamál en karlar er bent á þetta.)

Lof fær Agnar Kr. Þorsteinsson fyrir úttekt hans á nýjustu þvælunni sem rann upp úr ÓRG.

Ögmundur Jónasson fær lof fyrir að hefja upp raust sína gegn klámi (nánar tiltekið, hefur falið refsiréttarnefnd að vinna að frumvarpi til breytinga á hegningarlögum í því skyni að spyrna við klámvæðingu).

Lilja Rafney Magnúsdóttir fær lof fyrir úttekt á stöðu VG (áður en Jón Bjarnason gekk úr skaftinu) og hvatningu um samstöðu.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fær lof fyrir góða greiningu á stöðu VG (eftir að Jón Bjarnason virti hvatningu Lilju Rafneyjar að vettugi).

LAST

Last fær Edward H. Huijbens fyrir að finnast nægilegt að VG beri kennsl á þann vanda að færri konur en karlar eru á framboðslistum (og þ.a.l. á þingi) en vilja ekki að flokkurinn leiðrétti vandann í eigin röðum. Sú lausn sem hann stingur uppá, að stofnað sé sérstakt kvennaframboð í anda Kvennalistans, má teljast furðuleg af manni sem vill starfa fyrir VG á vettvangi stjórnmála.

HS Orka fær last fyrir að ræsa út mannskap til að rústa Reykjanesskaganum um leið og búið var að samþykkja Rammaáætlun.

Löggan fær last fyrir að taka ekki á kynferðisbrotamönnum í eigin röðum.

Last fær fólk sem agnúast út í hugmyndir um að nota tálbeitur til að koma upp um barnaníðinga. Þessir karlar eru engir hvítþvegnir englar sem hugsa aldrei eða gera neitt af sér fyrr en vont fólk leggur fyrir þá gildrur. Allt tal um hraðleið til fasisma er hlægilegt í þessu sambandi.

Efnisorð: , , , , , , , ,