mánudagur, janúar 14, 2013

Náttúruverndarstöð 2

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að rammaáætlun yrði samþykkt si svona. Ég horfi ekki oft á fréttir núorðið en nú fannst mér vefmiðlarnir ekki duga til svo ég ákvað að horfa á fréttatíma beggja stöðvanna og hlammaði mér í sófann. Eftir að hafa horft á fréttatíma Stöðvar 2 var ég hálf ringluð. Hafði ég misst af fréttinni um samþykkt rammaáætlunarinnar? Ég horfði svo aftur á allan fréttatíma Stöðvar 2 á netinu (eftir að hafa séð fréttir Ríkissjónvarpsins) og sá ekki betur en ég hafi haft rétt fyrir mér: í fréttum Stöðvar 2 er ekki einu orði minnst á þessa mikilvægu atkvæðagreiðslu eða að allir þingmenn (nema auðvitað Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn) samþykktu rammáætlun sem sker úr um vernd og orkunýtingu landsvæða á Íslandi.

Ómar Ragnarsson segir að „samþykkt rammaáætlunar á þingi í dag var einhver stærsti áfangasigurinn í sögu náttúruverndar á Íslandi“ og Landvernd fagnar henni (og ég líka) — en fréttastöð annarrar helstu sjónvarpsstöðvar landsins steinheldur kjafti. Það þykir mér fréttnæmt útaf fyrir sig.

Efnisorð: , ,