föstudagur, janúar 11, 2013

Ráðgáta

Fyrir þremur dögum síðan skrifaði Teitur Atlason áhugaverða bloggfærslu. Hann fjallaði þar um orðalag fjölmiðla þegar þeir segja frá nauðgunarmálum. Hann hafði semsé rekið augun í að orðið ‘meint’ skýtur oft upp kollinum þegar fréttir eru fluttar af því þegar konur leita til lögreglu eftir að hafa verið nauðgað, en það orð er ekki að finna í fréttum fjölmiðla af hópnauðgun sem karlmaður kærði.

Nú vil ég fyrst taka fram að það er ánægjulegt að þekktur og vinsæll bloggari eins og Teitur veki máls á þessu. Hann er reyndar ekki fyrstur til þess, eins og hann hlýtur að vita (enda þótt hann nefni það ekki) því fjölmiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir þetta orðalag mikið og lengi — með þeim afleiðingum að svo virðist sem sumir þeirra, stundum, eru farnir að birta fréttir sem innihalda ekki þessa ‘meintu’ fyrirvara. Fréttin sem Teitur vitnar í gæti einmitt verið laus við þetta orðalag vegna þessarar baráttu. Ekki að ég vilji gera lítið úr þeirri kenningu Teits að fórnarlambið í þeirri frétt er karlkyns.

Það er samt annað sem mér finnst athyglisvert við þessa bloggfærslu Teits, og það eru athugasemdirnar sem skrifaðar hafa verið við hana. Nú eru semsagt þrír dagar síðan færslan var birt og umræðurnar eru — athyglisverðar. Komnar eru um þrjátíu athugasemdir sem eru af ýmsu tagi — en engin þeirra snýst um skort Teits á kynlífi eða hvernig eigi að bæta úr því. Enginn segir að Teitur eigi að grjóthalda kjafti, þetta séu óþolandi öfgar eða hvort hann geti ekki gert mannkyninu greiða og drepið sig. Nei, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hellir enginn svívirðingum yfir Teit þegar hann fjallar um þetta feminíska málefni, heldur eru bara allir kurteisir við hann. Það þykir mér í sjálfu sér jákvætt en jafnframt furðulegt því að þegar sumir aðrir bloggarar — t.d. Hildur Lilliendahl — hafa rætt feminísk málefni er talsverður skortur á kurteisi og hófstilltu orðalagi í athugasemdakerfum.

Nú spyr ég ykkur, hver getur verið ástæðan fyrir því að enginn er dónalegur við Teit? Er einhver með uppástungu?



Efnisorð: , ,