þriðjudagur, janúar 08, 2013

Að bregðast eða bregðast við

Það er hrikalegt að enn og aftur komi í ljós að barnaníðingar hafa komist upp með brot sín árum og áratugum saman. Allir þeir sem vissu þögðu, börnin sem urðu fyrir kynferðisofbeldinu höfðu í engin hús að venda og sátu ein uppi með sálarkvalirnar. Það er ekki bara kaþólska kirkjan og Breiðavík þar sem ofbeldið virðist hafa verið bundið við stund og stað heldur hafa menn eins og Karl Vignir Þorsteinsson sem Kastljósið afhjúpaði í gær (og DV hafði fjallað um áður) farið milli vinnustaða þar sem hann hafði aðgang að börnum. Hve mörg svona mál eru enn óupplýst?

Ein ástæða þess að þó þessi mál hafa komist upp er opnari umræða. Fyrir nokkrum áratugum þótti fjarstæðukennt að til væru barnaníðingar á Íslandi, slíkt gerðist bara í útlöndum. Annað ofbeldi var einnig oft þaggað niður, innan fjölskyldna eða stofnana, og þolendur áttu að líta á það sem sitt einkamál. En með tilkomu kvennahreyfingarinnar, sem benti á að hið persónulega er pólitískt og að pólitík á að taka á samfélagslegum vandamálum eins og ofbeldi, þá smám saman opnaðist umræðan. Hún opnaðist í allar áttir en mishratt og það fólk sem fyrst steig fram fyrir skjöldu og tjáði sig um lífsreynslu sína sætti óvæginni gagnrýni og sögur þess jafnvel dregnar í efa. En núna, eftir að hafa heyrt margar sögur, eigum við flest auðveldara með að trúa. Stofnanir eiga líka að vera hæfari til að takast á við þessi mál heldur en á þeim tíma sem heilt bæjarfélag brást Thelmu og systrum hennar.

Lengi vel var blinda auganu snúið að börnum sem urðu fyrir einelti. Einelti var fyrir ekki svo löngu talið einkamál þeirra krakka sem lentu í því að skólafélagar þeirra útskúfuðu þeim, meiddu og hæddu. Ótrúlega margir fullorðnir hafa sagt frá einelti sem þeir urðu fyrir í æsku og hvernig áhrif það hefur haft áhrif á líf þeirra. Og núna trúum við því ekki lengur að börn eigi sjálf sök á því þegar þau eru lögð í einelti. Samt virðist vera tregða til að bregðast við, hvort sem tregðan er innan einstakra skóla, hjá einstökum kennurum eða fjölskyldum þeirra barna sem standa fyrir og taka þátt í eineltinu. Undanfarna mánuði hefur margt ungt fólk, nýskriðið úr skóla sagt frá skólagöngu sinni sem helvíti á jörð. Þau eru enn of ung til að hafa unnið úr sársaukanum en eru þó tilbúin að segja frá. Það ætti að vera þeim skólastjórnendum sem ennþá muna eftir nemendunum með nafni íhugunarefni að heyra hvernig þessum börnum hefur liðið í þeirra umsjá.

Í gær las ég frásögn grunnskólastelpu sem er á fimmtánda ári. Hún skrifaði um skólagöngu sína fram til þessa dags, það er sorgarsaga. Hún hefur verið lögð í einelti frá 2. bekk og segir núna að engin tali við hana í bekknum hennar og hún sé „alltaf ein núna“. Og þrátt fyrir alla fræðslu um einelti þá virðast bekkjarsystkini hennar ekki láta deigan síga.
„Ég er búin að reyna að spyra hvað hef ég eiginlega gert, þá fæ ég þau svör: „þú varðst til“ og „hvernig nenniru að vera til?“. Ég verð svo sár að augun fyllast af tárum og ég kom ekki upp orði, mig langaði svo að segja eitthvað en ég gat það bara ekki.

Ég kvíði alltaf fyrir að fara í skólan því ég veit að þetta verði ömurlegur dagur ég fer að sofa öll kvöld með hnút í maganum út af því að ég kvíði svo rosalega mikið til að fara í skólann.“
Hugsanlega gerir það illt verra fyrir stelpuna að skrifa opinberlega um þessa óbærilegu stöðu sem hún er í. Kannski magnast óvildin í hennar garð í stað þess að bekkjarsystkini hennar sjái að sér. En vonandi verður saga hennar, og annarra sem segja frá meðan á ofbeldinu stendur, til þess að fullorðna fólkið bregðist við. Það á ekki að þurfa að bíða eftir að þeir sem lifað hafa af opni sig mörgum áratugum síðar. Við eigum að vera komin lengra. Viðbragðstíminn verður að vera styttri, það verður að bregðast strax við sálarháska barna.

Efnisorð: , ,