sunnudagur, janúar 06, 2013

Afsökunarbeiðni

Fyrir um ári síðan skrifaði ég pistil þar sem ég baðst afsökunar á mistökum sem ég gerði en þá hafði ég gagnrýnt mann fyrir málvillu, sem reyndist ekki vera málvilla. Þá tók ég fram að í framtíðinni myndi ég viðurkenna ef ég hefði aftur rangt fyrir mér. Og nú er aftur þörf á afsökunarbeiðni.

Í pistli sem ég skrifaði nýlega fullyrti ég að Eva Hauksdóttir hefði verið í herferð til varnar Hauki Má Helgasyni vegna vinskapar þeirra. Nú hefur mér verið bent á að það sé enginn fótur fyrir þeirri fullyrðingu minni að þau séu vinir. Ég hef því spyrt þau saman að ósekju, það var minn misskilningur og ég biðst afsökunar á því að hafa sett hann fram sem sannleika.

Jafnframt dettur botninn úr samlíkingu minni á viðbrögðum mínum annarsvegar og Evu hinsvegar þegar upp kemst um ofbeldi í vinahópnum. Verra er að ég bjó til úr þessum misskilningi kenningu sem ekki stenst. Kenning mín um ástæður Evu fyrir herferð hennar á hendur kynferðisbrotaþolum er því úr lausu lofti gripin. Eftir stendur að ég hef ekki glóru um afhverju hún kýs að verja málstað kynferðisofbeldismanna svo ákaft.