laugardagur, desember 22, 2012

Eftir 21.12.2012

Ekkert varð af boðuðum heimsendi.* Sumir segja að rangt hafi verið að lesa út úr tímatali Mayanna, þ.e.a.s. að það náði ekki lengra en til gærdagsins, að heimurinn færist heldur hafi það boðað nýtt upphaf, nýja tíma.

Það þykir mér álíka bjartsýni og þegar sum okkar (þ.á m. ég) héldu að hrunið markaði upphaf nýrra tíma og að hér yrði réttlátara, uppbyggilegra og yfirhöfuð skárra þjóðfélag. En svo fór ekki, öðru nær. Það er ömurlegra og ógeðslegra en nokkru sinni fyrr.

Sem dæmi má nefna það fólk sem hefur lagst svo lágt að hefja herferð á hendur mannréttindabaráttu.** Fer þar fremst í flokki skjaldmey (berbrjósta að þeirra hætti) og er fagnað mjög af þeim sem hatast við konur og þola ekki uppivöðslusemi feminista. Það er líklega engin von á að árásum úr þeirri átt linni — hefði líklega ekki dugað minna en heimsendi til að stöðva farganið. Hann hefði þá verið þess virði.

___
* Hálf vandræðalegt fyrir mig, ég hafði búið vandlega um mig í búnkernum margumtalaða.
** Það er kaldhæðnislegt að þetta fólk kallar andstæðinga sína talibana en talibanar eru þekktir fyrir að andstöðu gegn mannréttindum og að ráðast gegn fólki sem berst fyrir mannréttindum.

Efnisorð: , ,