laugardagur, nóvember 17, 2012

Ekki benda á mig heilkennið

Alveg get ég tekið undir alla þá gagnrýni sem Sighvatur Björgvinsson (hvers aðdáandi ég hef aldrei verið) og hans kynslóð fær. En mér þykir voðalega undarlegt að sjá hve fólk hrekkur í vörn fyrir sína kynslóð, þessa sjálfhverfu og ofurskuldsettu sem Sighvatur gagnrýnir.

Síðast í dag birtist (fremur leiðinleg) grein þar sem höfundinum sveið svo undan skömmunum að hann hafði fyrir því að „skoða og greina talnagögn um skattframtöl einstaklinga af heimasíðu ríkisskattstjóra“ (og birtir niðurstöður sínar í súluriti, sem hlýtur að gleðja þá sem vilja að fólk styðji mál sitt með „haldföstum rökum“), í því skyni að verja sig og sína kynslóð. Og lætur svo skammirnar dynja á Sighvati og hans kynslóð, eins og allir hinir.

Á sama tíma er verið að reyna að leiða menntaskólakrökkum fyrir sjónir að þau fari villur vegar í hugsun sinni og framgöngu. Þau bregðast við með að hneykslast á afskiptaseminni og leggjast í vörn sem felst í gagnásökunum: hvað eruð þið að skipta ykkur af, þið voruð ekkert skárri. Þegiði bara.

Vill enginn líta í eigin barm?

Efnisorð: ,