fimmtudagur, nóvember 01, 2012

Hagnast á neyð samborgara sinna

Um daginn ætlaði ég að gera lof og last lista og minnast þar á smálánafyrirtækin, en gleymdi því. Man þó vel að þau áttu ekki að lenda lof-megin. Enda er fátt lofsvert við að hafa fé af unglingum, fíkniefnaneytendum og öðrum þeim sem kunna ekki fótum sínum forráð eða minna mega sín. Mér fannst ekki heldur lofsvert þegar smálánafyrirtækin tilkynntu að þau ætluðu að fella niður skuldir á geðfatlaða, enda fannst mér það anga af ímyndarreddingu frekar en velvilja í garð mannkyns almennt eða geðfatlaðra sérstaklega. Og mig langaði ekkert að gráta með þeim þegar þau grenjuðu yfir fyrirhugaðri lagasetningu sem gæti gert útaf við þau.

Lára Hanna gerði úttekt á því hverjir standa bakvið smálánafyrirtækin, þarft og gott framtak hjá henni. Ég hef tvívegis mætt einum þessara manna á förnum vegi síðan, og velti fyrir mér hvernig honum liði ef hann gæti lesið hugsanir. Vilji hann — og hinir okurlánararnir — vita hvernig fólk hugsar til þeirra, þá verða þeir líklega einhverju nær þegar þeir lesa grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Greinin er skrifuð af Ingibjörgu Rósu Björnsdóttur en systir hennar lenti í vítahring smálána. Í greininni ávarpar hún eigendur smálánafyrirtækjanna beint.

„Ég get ekki sagt að það hafi hreyft nokkuð við mér að horfa á lögfræðinginn ykkar bera sig aumlega í Kastljósi nýlega. Þar taldi hann upp þær úrbætur sem smálánafyrirtækin hafa gert eftir að í ljós kom hversu langt er gengið í frumvarpinu sem bíður samþykkis Alþingis. Jújú, það er allt gott og blessað en ber því einungis vitni hversu hræddir aðstandendur smálánafyrirtækjanna eru orðnir um að nú fari að tæmast speninn sem þeir hafa notað til að blóðmjólka þá sem minnst mega við. Því það vita allir hver markhópur smálánafyrirtækja er; fyrirmyndin er til erlendis, þið voruð ekkert að finna upp hjólið þegar þið hófuð þessa starfsemi og vissuð alveg í hvernig aðstæðum flestir viðskiptavinir ykkar yrðu.“

Þetta er bara brot af hinni mögnuðu grein, hana má lesa í heild hér.

Efnisorð: