laugardagur, október 06, 2012

Sannarlega segi ég yður

Þegar ég skrifaði um Hreppaprestinn gráðuga um daginn rifjaðist upp fyrir mér starfsbróðir hans sem jók ekki heldur virðingu fyrir prestastéttinni.

Árið 2003, sama ár og 17. júní hátíðahöldin voru „í boði“ símafyrirtækis, birtist auglýsing í dagblöðum og á strætóskýlum. Þá sat ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að völdum eins og hún hafði gert í rúman áratug, bankarnir höfðu verið einkavæddir, framkvæmdir höfðu hafist við Kárahnjúkavirkjun og neysla var mikil.

Maðurinn á auglýsingamyndinni er kunnur maður í íslensku samfélagi. Hann var um þessar mundir vinsæll prestur og sást oft í fjölmiðlum við prestsstörf. Hann er þó ekki í embættiserindum á myndinni, heldur að auglýsa morgunkorn.

Það vakti nokkra furðu þegar þessi áberandi þjónn kirkjunnar tók þátt í þessari auglýsingaherferð* og þótti sitt hverjum. Mörgum fannst fyrst og fremst ólystugt að sjá einhvern með fullan munninn** en öðrum þótti óviðeigandi að kirkjunnar maður væri að taka þátt í að selja vörur, sama hver varan væri.

Þessi tiltekna vara****er framleitt af einu af stærstu matvælafyrirtækjum Bandaríkjanna, risafyrirtækis sem selur vörur sínar um allan heim. Það var því ekki af samúð með lítilmagnanum sem presturinn lagði auglýsingaherferðinni lið.

Tengsl kirkju og auðvalds á sér langar rætur. Hér á landi eru kirkja og ríki líka í nánu sambandi, eitt trúfélag hefur forgang umfram önnur og er kallað „þjóðkirkja“. Kirkjan hefur sem stofnun vald til að telja fólki trú um að einn lífstíll sé öðrum æðri. Hér gengur presturinn erinda auðvaldsins og selur neysluvöru. Enda þótt hann sé ekki í prestskrúða er hann auðþekktur og einmitt fyrir að vera prestur.

Alla 20. öldina og það sem af er þessarar aldar hafa margar gerðir hugmyndafræði slegist um yfirráðin. Auk þeirra sem hér hafa verið nefnd, kapítalismi og kirkjan, sem sannarlega hefur gengið vel að fá fólk á sitt band, þá sést á myndinni fulltrúi þess sem er líklega sterkasta valdið: hinn hvíti karlmaður. Þegar þessar þrjár stofnanir taka saman höndum, kirkjan, kapítalisminn og karlveldið, þá er slagkraftur áróðursins margfaldur

___

* Aðrar auglýsingar fyrir sömu vöru en með öðru fólki voru líka birtar víða á tímabili.

** Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir sagði t.d. á bloggsíðu sinni 2. september 2003, „ég vil ekki þurfa að horfa á forstig meltingarinnar hjá Pálma Matt., Audda og Ásthildi Helgadóttur. Ég gríp ekki fyrir augun þegar ég er að aka, en mig hefur sjaldan langað minna í Cheerios.“

*** Eða var séra Pálmi sem fulltrúi hins geistlega valds að flytja þau skilaboð frá yfirmanni sínum um hvaða morgunkorn safnaðarbörnin eigi að neyta? Hér legg ég áherslu á orðið „börn“ í þessu samhengi, en presturinn hefur fermt fjölda barna gegnum tíðina. Einu sinni var fermingarundirbúningur kallaður „að ganga til spurninga“, ætli Pálmi hafi spurt fermingarbörnin hvort þau borðuðu rétta morgunkornið?

**** Cheerios kom á markaðinn 1941, fyrst undir öðru nafni (Cheerioats) en 1945 var Cheerios nafnið fest í sessi (skrifað Seríós uppá íslensku). Framleiðandi þess er General Mills, bandarískt fyrirtæki sem stofnað var uppúr 1860. General Mills hefur ætíð verið mjög meðvitað um mátt fjölmiðla, stofnaði eigin útvarpsstöð 1924 og bjó ýmist til fígúrur (Betty Crocker) eða kom þeim á framfæri (Ronald Reagan), styrkti fyrstu sjónvarpsauglýsinguna sem sýnd var í auglýsingahléi á amerískum fótboltaleik árið 1939 og hélt úti eigin sjónvarpsþáttum fram á sjötta áratug síðustu aldar.



Efnisorð: , , ,